Hagnaður Samherja og dótturfélaga nam tæpum 16 milljörðum króna á árinu 2012

Anna EA 305 nýtt línuskip Samherja
Anna EA 305 nýtt línuskip Samherja
  • Rúm 55% af starfsemi Samherja eru erlendis.
  • Félög samstæðunnar starfa í 11 löndum og gera upp í 9 mismunandi gjaldmiðlum.
  • Öll erlend félög innan samstæðu Samherja hf eru fjármögnuð erlendis.
  • Hagnaður ársins nam tæpum 16 milljörðum króna.
  • Söluhagnaður nam 1,6 milljörðum króna.
  • Tekjuskattur og auðlindagjald fyrirtækja Samherja hf. til ríkissjóðs Íslands nema 3,3 milljörðum króna. Tekjuskattur til greiðslu mun nema 1,9 milljarði króna og að auki greiða félögin á Íslandi 1,4 milljarða króna í veiðileyfagjald.

Félög samstæðunnar starfa í ellefu  löndum og gera upp í níu mismunandi gjaldmiðlum. (EUR, USD, GBP, ISK, CAD, PLN, DKK, NOK og NAD). Samstæðureikningur félagsins er settur fram í evrum en í tilkynningunni eru tölur umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við meðalgengi ársins 2012 sem var 160,7 krónur á hverja evru.

Rekstur – Tekjur tæpir 90 milljarðar og allar afkomueiningar skiluðu hagnaði

Rekstrartekjur Samherja og dótturfélaga voru á liðnu ári tæpir 90 milljarðar króna, samanborið við 80 milljarða árið áður. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 21,6 milljörðum króna, samanborið við rúma 18 milljarða árið áður. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam rúmum 20 milljörðum og að teknu tilliti til tekjuskatts var hagnaður ársins 15,7 milljarðar króna. Þetta er fjórða árið í röð sem allar afkomueiningar samstæðunnar skila hagnaði.

Traustur efnahagur 

Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir samstæðunnar í lok ársins 2012 samtals 123 milljörðum króna. Heildarskuldir og skuldbindingar á sama tíma voru 68,6 milljarðar og bókfært eigið fé 54,4 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 44,3% í árslok. Veltufjármunir námu 36,6 milljörðum króna og nettóskuldir samstæðunnar tæpum 22 milljörðum króna. Skuldir við innlendar lánastofnanir námu um 38 milljörðum króna í árslok og hafa lækkað um rúma 10 milljarða króna það sem af er árinu 2013.

Skipting Samherja hf. í tvö félög, Samherja hf. og Samherja Ísland ehf., var staðfest á aðalfundi félagsins fyrir árið 2011 og tók breytingin gildi þann 1. janúar 2012. Samherji hf. er eftir breytinguna fyrst og fremst eignarhaldsfélag um eignarhluti í dóttur- og hlutdeildarfélögum sem flest tengjast sjávarútvegi og vinnslu afurða hérlendis og erlendis. Rekstur útgerðar og fiskvinnslu á Íslandi er í félögunum Samherji Ísland ehf. og Útgerðarfélag Akureyringa ehf. og fiskeldi er í Oddeyri ehf.

Umtalsverður söluhagnaður

Dótturfélag Samherja hf., Polaris Seafood ehf., seldi fjölveiðiskipið Geysi í árslok 2012 og nam bókfærður söluhagnaður þess í samstæðu Samherja hf. 1,6 milljarði króna.

Á yfirstandandi ári hefur samstæða Samherja hf selt eignir sem tengjast útgerð við strendur Afríku.  Seld voru meðal annars, þrjú stór fjölveiðiskip, tvö þjónustuskip, skrifstofubygging, vöruhús og vörumerkið Katla Seafood. Gert er ráð fyrir að hagnaður af sölu eignanna muni nema 5,4 milljörðum sem tekjufærist á árinu 2013.

Fjárfest fyrir 8,6 milljarða króna

Fjárfestingar samstæðunnar á síðasta ári námu samtals 8,6 milljörðum króna. Stærsta fjárfestingin var hjá dótturfélagi Samherja hf. á Spáni auk fjárfestingar við endurbyggingu og lengingu Oddeyrarinnar EA.

Margir samverkandi þættir

„Afkomutölur Samherja og erlendra dótturfélaga fyrir árið 2012 eru góðar og betri en ég gerði mér vonir um,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Hann bendir á að um 55% af veltu samstæðunnar komi frá dótturfélögum Samherja erlendis og að þar hafi víða gengið mjög vel. „Veiðar hjá erlendum dótturfélögum okkar í Barentshafi gengu frábærlega. Það var djörf ákvörðun hjá okkur að flytja fiskvinnslu Icefresh GmbH frá Cuxhaven til Frankfurt sem var opnuð í maí 2012. Á síðustu 12 mánuðum hefur hún tekið til vinnslu og sölu um 14.000 tonn af fiski. Veltan á þessu tímabili nemur um 9 milljörðum króna en af þessu magni komu einungis um 120 tonn frá Samherja á Íslandi. Við hófum líka rekstur í Namibíu í byrjun árs 2012 í samstarfi við heimamenn og gengur það verkefni ágætlega. Rekstur okkar í Kanada hefur gengið prýðilega en skip okkar þar veiddi rúm 8 þúsund tonn af rækju á síðasta ári.“

Hjá Samherja hf. og dótturfélögum starfa nú um 700 manns á Íslandi. Þorsteinn segir að margt hafi gengið ágætlega hér heima. „Árið 2012 er fyrsta heila rekstrarár Útgerðarfélags Akureyringa í okkar eigu og við erum ánægð með hvernig sá rekstur hefur gengið. Veiðar allra tegunda á Íslandi gengu einnig vel og þrátt fyrir mikla og aukna framleiðslu hefur okkur tekist að fylgja þessum vexti eftir í markaðsstarfinu sem verður sífellt viðameira í rekstrinum. Þegar leið á árið í fyrra voru sker framundan á mörkuðum okkar fyrir sjávarafurðir. Með samvinnu, útfærslu góðra hugmynda og mikilli vinnu starfsfólks tókst að stýra rekstrinum framhjá þessum hindrunum.

Ég hef sagt það áður og segi það enn að sjávarútvegur er alþjóðleg atvinnugrein og velgengni þar byggist að stórum hluta á þekkingu starfsfólksins, hvort heldur er í veiðum, vinnslu eða markaðssetningu. Árangur okkar er enn markverðari þegar haft er í huga að á sama tíma hafa harkalegar og tilefnislausar aðgerðir Seðlabanka Íslands gert starfsfólki og samstarfsaðilum um allan heim erfitt um vik. Nú sem fyrr hefur komið í ljós að þegar einvalalið leggst saman á árarnar er hægt að ná afbragðsárangri,“  segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Samherji_lykiltolur_2012