Eigum við að reka alþjóðleg markaðsfyrirtæki á Íslandi ?

Dótturfyrirtæki Samherja, Ice Fresh Seafood sér um markaðsetningu á afurðum Samherja samstæðunnar um allan heim.  Félagið kaupir afurðir af fyrirtækjum á Íslandi og erlendis sem það selur til nokkur hundruð viðskiptavina staðsetta víðsvegar um heiminn.  Það hefur verið stefna okkar að byggja upp þetta fyrirtæki með höfuðstöðvar á Akureyri og sinna þaðan okkar markaðstarfsemi, auk þess sem við erum með söluskrifstofur  í Evrópu. 

 

 

Eins og allir vita hefur starfsumhverfi fyrirtækja á Íslandi tekið stakkaskiptum frá haustinu 2008 og síðan þá hafa meðal annars verið sett lög um skilaskyldu útflutningsfyrirtækja á gjaldeyri sem við höfum ekki gert athugasemdir við, miðað við núverandi aðstæður á Íslandi.   Öll fyrirtæki sem starfa í útflutningi hafa að sjálfsögðu  orðið áþreifanlega vör við gjaldeyrishöftin og reglur og upplýsingagjöf þeim tengdum. Auðsýnt er að umtalsverður kostnaður fylgir þessum lögum bæði fyrir fyrirtæki, banka og opinbera aðila. 

Nú stendur fyrir dyrum stærsta sjávarútvegsýning í Evrópu sem haldin er árlega í Brussel og  Ice Fresh Seafood er með bás á sýningunni.  Viðskiptavinir fyrirtækisins telja nokkur hundruð í yfir 30 löndum.  Það eru því verulegir hagsmunir fólgnir í því fyrir félagið  að vera þátttakandi í þessari sýningu. Ekki einungis til að viðhalda og rækta núverandi viðskiptasambönd, heldur einnig  til að stofna til nýrra viðskiptasambanda sem síðan styrkja enn frekar sölu- og markaðsstarf fyrirtæksins. Flestir  starfsmenn Ice Fresh Seafood  sækja þar af leiðandi þessa sýningu.  Um langt árabil hafa  Ice Fresh Seafood og Samherji tekið  erlenda mynt út af reikningum sínum fyrir starfsmenn sem þeir hafa síðan haft með sér erlendis í farareyri til að greiða útlagðan kostnað fyrir fyrirtækin. Þetta hefur verið gert til þæginda fyrir þá sem ferðast á vegum félaganna auk þess sem hingað til hefur þetta spara tíma og fjármuni.

Nú er öldin önnur og þegar óskað var eftir  að taka jafngildi  7.400 evra út af eigin reikningi í farareyri handa  starfsmönnum  Ice Fresh Seafood, sem veltir  150.000.000 evrum árlega eða 26 milljörðum íslenskra króna,  kom í ljós að það er virkt og öflugt eftirlit sem búið er  að byggja upp með gjaldeyrisviðskiptum á Íslandi.  Upphæðin jafngildir rúmlega 1,2  milljónum ISK.

Fjármálastjóri Ice Fresh Seafood óskaði eftir  að taka út 7.400 evrur í tveimur bönkum án árangurs.  Evrurnar  sem sannarlega eru í eigu Ice Fresh Seafood og nota á  erlendis í þeim tilgangi að greiða kostnað Ice Fresh Seafood.  Leiðirnar sem okkur voru boðnar voru meðal annars, að selja okkar evrur og leggja andvirðið í íslenskum krónum inn á reikning starfsmanna, en einungis ef þeir áttu launareikning í viðkomandi útibúi!  Starfsmennirnir máttu síðan hver og einn fara í bankann og kaupa sér evrur fyrir andvirðið gegn framvísun farseðils. Fjármálastjóranum hugnaðist ekki þessi leið og ákvað að sjá hvað þyrfti til að ná þessum evrum út af reikningnum. Það leiddi að  lokum til að sótt var formlega um undanþágu til Seðlabanka Íslands vegna 7.400 evra með tilheyrandi bréfaskriftum.

Þetta ferli að fá að nota evrur Ice Fresh Seafood til að greiða kostnað félagsins spannaði tvo vinnudaga. Það komu ekki færri en 13 starfsmenn fjögurra fyrirtæka og stofnanna  að verkefninu og varlega áætlað má ætla að þeir hafi samtals notað meira en 15 vinnustundir til að leysa þetta viðamikla  verkefni.  Það voru skrifuð tvö formleg bréf, það voru skrifaðir fjöldi tölvupósta og símtölin eru talin í tugum.   Við náðum að fá undirskrift aðstoðarseðlabankastjóra Íslands á annað bréfið og ætla má að kostnaður við að afgreiða okkur um þessar Evrur af eigin reikningi  nemi um þriðjungi  af heildar upphæðinni sem óskað var eftir að taka út.

Að undanförnu hefur verið fjallað nokkuð um starfsumhverfi fyrirtækja á Íslandi.  Er óeðlilegt í því sambandi að maður spyrji sig :  Er hagkvæmt að reka alþjóðlegt sölu- og markaðsfyrirtæki á Íslandi ef það tekur tvo daga að taka út  farareyri  af  reikningi fyrirtækis,  handa starfsmönnum þess?

Til fróðleiks læt ég hér fylgja með afrit af svarbréfi Seðlabanka Íslands

Þorsteinn Már Baldvinsson

Forstjóri Samherja