Samherji byggir nýja og fullkomnari landvinnslu á Dalvík

-Hefur fjárfest fyrir 11 milljarða í sjávarútvegi á Eyjafjarðarsvæðinu á einungis 3 árum

Samherji undirritaði í dag lóðaleigusamning við Dalvíkurbyggð um 23.000 fermetra lóð undir nýtt húsnæði landvinnslu félagsins á Dalvík. Með samningnum er stigið stórt skref í átt að nýrri og fullkomnari vinnslu Samherja á Dalvík. Flutningur starfsemi Samherja á hafnarsvæðið skapar jafnframt möguleika fyrir bæjarfélagið að skipuleggja svæðið með öðrum hætti til hagsbóta fyrir samfélagið í heild. Áætluð fjárfesting Samherja í húsnæði og búnaði eru um 3.500 milljónir króna.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, opinberaði þessi áform fyrirtækisins á fjölmennum hátíðarfundi með starfsfólki Samherja á Dalvík og forsvarsmönnum Dalvíkurbyggðar síðdegis í dag.

Í ræðu sinni sagði hann gaman að geta þess að í dag hafi Samherji tekið á móti nýjum Björgúlfi EA í Tyrklandi. Nýja skipið muni leysa hinn 40 ára gamla nafna sinn af hólmi og komi til heimahafnar á Dalvík í byrjun júní.

„Með nýju vinnslunni hér og smíði Björgúlfs EA er Samherji að fjárfesta í veiðum og vinnslu á Dalvík fyrir a.m.k. 6.000 milljónir króna. Heildarfjárfesting Samherja í veiðum og vinnslu í Eyjafirði verður því um 11.000 milljónir króna á einungis þremur árum,“ sagði Þorsteinn Már.

 samherji_dalvik_undirskrift

Samningurinn handsalaður. T.f.v.: Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja; Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja; Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar; Heiða Hilmarsdóttir, forseti sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar og Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson, formaður byggðaráðs Dalvíkurbyggðar.  Mynd: Margrét Víkingsdóttir.


Náið samstarf við Dalvíkurbyggð

Ákvörðun um byggingu nýrrar landvinnslu Samherja á Dalvík hefur átt sér langan aðdraganda. Samherji fékk úthlutað lóð við hlið núverandi vinnslu, því upphaflega stóð til að byggja við núverandi húsnæði. Ennfremur hefur staðið til hjá Dalvíkurbyggð að hefja framkvæmdir og landfyllingu við hafnarsvæðið, óháð áætlunum Samherja, m.a. til að mæta mikilli fjölgun ferðamanna og tengdri starfsemi. 

Vinna við undirbúning ofangreindrar ákvörðunar hefur verið í nánu samstarfi við Dalvíkurbyggð. Mikil sátt ríkir því um ákvörðunina sem báðir aðilar telja til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Nýja staðsetningin er til þess fallin að auka öryggi í umferð og færa þungaflutninga úr alfaraleið í gegnum bæinn.

 Eftirtektarverður árangur

 „Árangur okkar í vinnslunni hér er eftirtektarverður og ástæðan er fyrst og fremst starfsfólkið okkar sem hefur staðið sig frábærlega.  Og í raun samfélagið allt því allir hafa viljað hag vinnslunnar sem mestan og staðið með fyrirtækinu í gegn um árin,“ sagði Þorsteinn Már ennfremur á fundinum.

Hann sagði að með nýrri  vinnslu myndu störfin breytast, þau yrðu fjölbreyttari og meira krefjandi en jafnframt auðveldari líkamlega. „Við ætlum að byggja hér fullkomnustu fiskvinnslu í heimi og okkur mun takast það með ykkar hjálp, ágætu starfsmenn. Í nýju vinnslunni munum við vinna áfram með íslenskum iðnfyrirtækjum að því að þróa lausnir í matvælaiðnaði sem síðan verða seldar innanlands og erlendis.  Húsið verður viðmiðið sem íslensk fyrirtæki munu nota til að sýna tæknilausnir sínar og framleiðslu úti um allan heim. Þannig hefur íslenskur iðnaður þróast með íslenskum sjávarútvegi og við njótum öll góðs af.“

 Unnið úr 14.500 tonnum af hráefni á hvorum stað

Þorsteinn Már rifjaði upp að þegar Samherji festi kaup á ÚA árið 2011 hafi kviknað orðrómur um að flytja ætti alla vinnsluna til Akureyrar. „Sagan er hins vegar allt önnur og ár frá ári höfum við aukið vinnsluna hér á Dalvík. Á síðasta ári var unnið hér úr um 14.500 tonnum af hráefni.  Allan tímann frá kaupunum á ÚA hafa vinnslunnar unnið nánast úr jafn miklu hráefni en vinnustundirnar hafa verið fleiri á Dalvík vegna ýsuvinnslu. Við höfum landað á Dalvík um 15 þúsund tonnum af bolfiski árlega og greiddum til hafnarinnar um 60 milljónir króna á liðnu ári.“

 Upphafið að nýjum, glæsilegum kafla

Í lok ræðu sinnar þakkaði Þorsteinn Már bæjaryfirvöldum á Dalvík fyrir gott samstarf. Hann þakkaði líka starfsfólki Samherja á Dalvík fyrir samstarfið í gegnum árin, „og það traust sem ríkir á milli okkar. Ég tel að samkomulagið við Dalvíkurbyggð í dag sé aðeins upphafið að næsta kafla. Hann skulum við skrifa saman og gera hann glæsilegan,“ sagði Þorsteinn Már.

Undir lok fundarins var skrifað undir samning við AVH arkitekta á Akureyri um hönnun nýja hússins. Að svo búnu var starfsfólki boðið til grillveislu í húsakynnum Samherja á Dalvík.

 

Fréttatilkynning frá Samherja hf. föstudaginn 12. maí 2017.

Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í síma 6609011.