Af og til sjáum við auglýst eftir Baadermönnum en sjálfsagt eru ekki allir alveg með það á hreinu hvað Baadermaður gerir í raun og veru. Starfsfólk í fiskvinnsluhúsum landsins veit hins vegar upp á hár hvað Baadermaður gerir og víst er að í fiskvinnsluhúsi ÚA á Akureyri þekkja allir Axel Aðalsteinsson, sem einmitt er Baadermaðurinn þar.
“Þetta starfsheiti varð líklega til þegar þýskar Baaderfiskvinnsluvélar voru allsráðandi. Baadermaðurinn sér sem sagt um fiskvinnsluvélarnar, svo sem að brýna hnífana, sjá um að vélarnar séu í góðu lagi og skili sínu á hverjum degi,” segir Axel þegar hann er spurður um starfið.
Mætir fyrr til vinnu
Fiskvinnsluvélarnar eru nokkrar í ÚA. Fimm flökunarvélar, karfavél og tveir hausarar.
“Hérna hefst vinnsla klukkan átta á morgnana en ég mæti mun fyrr. Hnífarnir eru í kringum þrjátíu og þeir eru brýndir daglega, þannig tryggjum við að nýtingin verði sem best. Svo þarf líka að athuga hvort vélarnar séu örugglega rétt stilltar, þannig að það er eitt og annað sem þarf að fara yfir og fylgjast með frá degi til dags.”
Ný fiskvinnsluvél að klára reynslutímann
“Já, við höfum verið að prufukeyra nýja Curio vél. Í henni eru sex hnífar og segja má að reynslutíminn sé á enda og vélin tekin í fulla notkun. Annars eru vélarnar alltaf að þróast til betri vegar, svo sem í tengslum við þrif og alla umgengni. Þetta eru afskaplega nákvæmar vélar enda nauðsynlegt, þar sem verðmæti hráefnisins er mikið og þá er eins gott að nýtingin verði sem best.”
Launin ágæt og góður starfsandi
Axel hefur unnið hjá ÚA í sjö ár, þar af sem Baadermaður í tvö ár. Hann þekkir vel til fiskvinnslunnar, starfaði áður lengst af hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað.
“Þetta er fjölbreytt starf og svo hleyp ég í annað smotterí, strekkja færiböndin og fleira sem til fellur. Hérna er mjög góður starfsandi, þannig að ég er mjög sáttur. Launin eru ágæt og starfsaldurinn hérna er nokkuð hár, sem segir sína sögu,” segir Axel Aðalsteinsson Baadermaður hjá ÚA.