eftir Örnu McClure, lögmann
Engish version here
(neðst í textanum eru tenglar á allar fréttir á samherji.is um málið.)
Í tæp níu ár hefur stærstur hluti af mínu starfi falist í að gæta hagsmuna Samherja vegna ásakana forsvarsmanna Seðlabankans um brot á lögum um gjaldeyrismál. Nú þegar rykið er svo gott sem sest og heildarmyndin orðin skýr, er það með ólíkindum að ýmsir ráðamenn skuli enn halda því fram að Samherji hafi sloppið með hin meintu „brot“ vegna lagaklúðurs. Enn ótrúlegra er að nýjar upplýsingar og gögn eru að berast okkur enn þann dag í dag sem varpa æ skýrara ljósi á málsmeðferð Seðlabankans. Þessar nýju upplýsingar eru ekki til þess að fegra myndina fyrir Seðlabankann en þær sýna jafnframt að Samherji slapp ekki með eitt eða neitt. Þar sem einstaka stjórnmálamenn og ýmsir aðrir hafa í þekkingaleysi eða ósvífni ítrekað farið með rangfærslur í þessu máli finnst mér sem þessir aðilar telji að opið skotleyfi sé á Samherja. Því tel ég rétt að rekja málið, ásakanirnar og þær upplýsingar sem við höfum aflað. Þær staðfesta að ekki er allt sem sýnist þegar kemur að afsökunum og útskýringum stjórnenda Seðlabankans.
1. Ástæður rannsóknar Seðlabankans
Rétt er að hafa í huga að forsvarsmenn Seðlabankans gáfu upp þrjár ástæður fyrir því að fara í að framkvæma húsleit og rannsaka starfsemi Samherja:
Seðlabankinn hefur legið undir ámæli fyrir að fara í húsleit í stað þess að beita vægari ráðstöfunum. Engar haldbærar skýringar hafa fengist fyrir því að svo harkalega var farið fram og ljóst er að skýringar sem stjórnendur bankans hafa gefið bankaráði síðastliðin ár, standast ekki.
Á 1071. fundi bankaráðs þann 24. apríl 2012 fullyrtu ónefndir starfsmenn Seðlabankans við bankaráð að „Reglulega hefði verið rætt við starfsmenn Samherja og hefðu upplýsingar oft verið misvísandi.“ Ónefndur starfsmaður Seðlabankans svaraði því til á 1117. fundi bankaráðs þann 2. október 2015 að fyrir húsleit hefðu átt sér stað samskipti við Samherja vegna skilaskyldu og milliverðlagningu. „Eðli þeirra brota sem grunurinn beindist að hafi leitt til þeirrar niðurstöðu að nauðsynlegt hafi verið að fara í húsleit.“ Þetta er rangt. Tölvupóstsamskipti starfsmanna Seðlabankans og starfsmanns Samherja fyrir húsleit sýna allt aðra mynd.(1.2009, 2.2009, 3.2010) Í tölvupósti dags. 3. desember 2010 sagði starfsmaður bankans orðrétt: „Það sem þið senduð til mín var mjög vel unnið, reikningar sem stemmdu við tiltekna greiðslu inn á gjaldeyrisreikning.“ Þá höfðu starfsmenn Seðlabankans aldrei samband við Samherja um milliverðlagningu.
2. Húsleitarheimildin
Þegar skoðuð eru þau sönnunargögn sem Seðlabankinn byggði húsleitar- og haldlagningarkröfur sínar vorið 2012 sést hve málatilbúnaðurinn er á veikum grunni. Í kröfum bankans voru talin upp 26 skjöl. 23 þeirra voru útprentanir úr Creditinfo, eitt skjalið var yfirlit úr Seðlabankanum yfir meðalgengi nokkurra gjaldmiðla á þriggja mánaða tímabili árið 2011, eitt var bréf frá Samherja hf. til Verðlagsstofu skiptaverðs og umfangsmesta skjalið voru upplýsingar úr útflutningsskýrslum fyrir heilan ferskan karfa á þriggja mánaða tímabili árið 2011.
Útprentanir úr Creditinfo segja ekkert um gjaldeyrisskil, fiskverð eða stjórnun erlendra fyrirtækja. Það gerir meðalgengi gjaldmiðla ekki heldur. Upplýsingarnar úr útflutningsskýrslunum urðu til þess að Samherja tókst að sýna fram á að útreikningar Seðlabankans væru rangir. Þessi gögn snerta þá ekki á nokkurn hátt þriðjung þeirra félaga sem húsleitar- og haldlagningarbeiðnin beindist að. Bréf Samherja til Verðlagsstofu skiptaverðs varð til þess að binda enda á athugun þeirrar stofnunar og sannar því ekki undirverðlagningu heldur sýnir að verðlagningin var í lagi. Hvað sem öðru líður er ljóst að ekkert þessara gagna sannar nokkuð varðandi þau erlendu félög sem kröfur bankans beindust að en þau voru þriðjungur þeirra fyrirtækja sem tiltekin voru í húsleitar- og haldlagningarheimildinni. Verður nánar fjallað um það í kaflanum um erlendu félögin.
Það er ekki bara skortur á sönnunargögnum sem er sláandi heldur hversu villandi framsetning krafna og rökstuðningur Seðlabankans fyrir héraðsdómi var.
2.1. Ranglega gefið í skyn að umfang hlypi á milljörðum
Fram kom í húsleitar- og haldlagningarkröfum bankans til héraðsdómara að frá október 2008 til marsloka 2012 hefðu Samherji og dótturfyrirtækið Ice Fresh Seafood flutt út vörur fyrir 72 milljarða króna. Svaraði það að sögn bankans til 3,8% af öllum útflutningi Íslendinga á tímabilinu eða 10,6% af öllum fiskútflutningi þjóðarbúsins. Því næst var þess getið að rúmlega fjórðungur allrar sölu þessara tveggja fyrirtækja væri til tengdra aðila erlendis.
Þarna skapaði Seðlabankinn hugrenningartengsl á milli heildarútflutnings Samherja og Ice Fresh Seafood og ætlaðs brots án þess þó að geta hvað ætlað brot varðaði eða hvert raunverulegt umfang þess væri.
Ætlað brot samkvæmt Seðlabankanum varðaði nefnilega eingöngu heilan ferskan karfa. Var þess getið í kröfunni að Seðlabankinn hefði kannað verð á útfluttum heilum karfa fyrir mánuðina október, nóvember og desember 2011 og komist að þeirri niðurstöðu að almennt verð í október 2011 hefði verið 68% hærra en verð Samherja, 28% hærra í nóvember og 73% hærra í desember. Hvergi kom þó fram um hve mikið magn væri að ræða og því sköpuðust framangreind hugrenningartengsl milli þeirra fjárhæða sem þó voru nefndar, þær sem vörðuðu heildarútflutninginn og hlutfall til tengdra aðila. Mátti ætla að um væri að ræða gríðarlega háar fjárhæðir og mikið magn.
Það sem skiptir máli er því magnið. Var Samherji að selja fiskafurðir fyrir 72 milljarða á 73% lægra verði en aðrir? Eða var öll sala til tengdra aðila á þessu lága verði? Ógjörningur er að átta sig á því af lestri kröfunnar sem lögfræðingur Seðlabankans, Rannveig Júníusdóttir, lagði fyrir héraðsdómara, þegar hún óskaði eftir húsleitarheimild, enda kemur umfang sölu á ferskum heilum karfa á tímabilinu hvergi fram.
2.2. Óumdeilt að útreikningur var rangur samkvæmt fyrrum framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits
Um hvað snerist þá málið? Umfang sölu á karfa af eigin skipum Samherja til tengdra aðila, á því þriggja mánaða tímabili sem krafan tiltók, nam 120 tonnum af alls 1.500 tonnum sem skipin lönduðu af karfa. Samherji flutti út 25.000 tonn af sjávarafurðum á tímabilinu fyrir um 11 milljarða en verðmæti hins útflutta karfa til tengdra aðila nam 25 milljónum króna, eða 0,2% af útflutningsverðmæti tímabilsins. Mismunurinn upp á allt að 73% sem nefndur var í kröfu bankans gat því í mesta lagi snúist um sjö og hálft tonn af ferskum karfa í desember 2011 svo einn mánuður sé nefndur. Eins og fyrrum framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlitsins staðfesti við mig í tölvupósti árið 2017, og fjallað er nánar um í kafla um meinta undirverðlagningu, er óumdeilt að þessi ætlaði mismunur var rangt reiknaður.
En hvað gat ætlað brot, ef satt reyndist, numið hárri fjárhæð? Til að gæta sanngirnist er unnt að styðjast við rannsóknarskýrslu Seðlabankans sjálfs um sölu á karfa til að skoða ætlaða undirverðlagningu á karfa í október, nóvember og desember 2011. Seðlabankinn sendi rannsóknarskýrsluna til lögreglu til að rökstyðja kæru sínar á hendur Þorsteini Má og Samherja. Sé horft framhjá þeirri staðreynd að samkvæmt rannsóknarskýrslunni var annar aðili með lægra verð en Samherji bæði í október og nóvember 2011, en Samherji samt álitinn brotlegur, og við mat á meintri undirverðlagningu báru starfsmenn Seðlabankans saman ólíka söluskilmála o.þ.h., nam ætlað brot samkvæmt skýrslunni innan við 60 þúsund evrum, eða rúmlega níu milljónum króna.
2.3. 0,19% af vörusölu réttlætti húsleit
Hvað varðaði þetta meinta brot þá mikla hagsmuni? Gat það réttlætt húsleit og haldlagningu hjá þrjátíu lögaðilum í beinni útsendingu Ríkisútvarpsins?
Til að setja stærðir í samhengi þarf að rifja upp að í húsleitar- og haldlagningarkröfu Seðlabankans til héraðsdóms stóð að Samherji og Ice Fresh Seafood hefðu flutt út vörur fyrir 72 milljarða króna á um 42 mánaða tímabili. Það eru rúmlega 1,7 milljarðar króna á mánuði að meðaltali í útflutningstekjur. Á þriggja mánaða tímabili nam því ætlað brot – eins og starfsmenn Seðlabankans reiknuðu það – um 0,19% af heildar vörusölunni!
Húsleitarheimildin var því byggð á röngum útreikningum sem þó náðu einungis til 0,19% af heildar vörusölu!
Af þessu tilefni rifjast upp fyrir mér orð Más Guðmundssonar, fyrrum seðlabankastjóra, sem féllu í frétt Ríkisútvarpsins 14. júní 2012: „Við höfum ekki verið með nein villandi gögn og þetta á allt bara eftir að koma í ljós.“
En víkjum nánar að hverri og einnig ásökun, en á þeim var byggt bæði í húsleitarbeiðninni og síðar í kærum til lögreglu.
3. Meint undirverðlagning á karfa
3.1. „Heimildarskjal“ og „heimildarmaður“ Ríkisútvarpsins studdu ekki ásakanir um undirverðlagningu
Í ágúst 2020 fengum við hjá Samherja upplýsingar um að Helgi Seljan, fréttamaður á Ríkisútvarpinu, hefði látið Seðlabankanum í té gagn sem hann hefur statt og stöðugt haldið fram að hafi sýnt fram á undirverðlagningu á karfa hjá Samherja. Fyrstu upplýsingar sem við fengum í vor frá Verðlagsstofu skiptaverðs bentu til þess að ekkert slíkt skjal væri til. Síðar kom þó í ljós að skjalið var til en ástæður þess að hvorki Ríkisútvarpið eða aðrir hafi gert nokkuð með að opinbera það voru jafnframt skýrar. Skjalið sýndi ekki fram á neina undirverðlagningu. Skjalið staðfesti hins vegar að verðin sem Samherji greiddi voru langt yfir þeim verðum sem fengust fyrir karfa í beinni sölu innanlands og að verðin hefðu hækkað verulega í samanburði við verð á uppboðsmarkaði í Þýskalandi. Þó verðin hafi ekki verði þau hæstu á markaði þá staðfestir skjalið hins vegar að ekki var um undirverðlagningu að ræða en hún er refsiverð. Þess utan var „skýrslan“ allt öðruvísi en fréttamenn Kastljóss höfðu lýst. Til dæmis var skjalið ekki undirritað.
Enn alvarlegra er að heimildarmaður Ríkisútvarpsins dró í land 4. mars 2012 með ásakanir um undirverðlagningu. Þetta kom í ljós þegar Seðlabankinn afhenti lögmanni Samherja tölvupóstsamskipti milli fréttamanns Ríkisútvarpsins, Helga Seljan og fyrrum framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins, Ingibjargar Guðbjartsdóttur. Samkvæmt tölvupósti Helga Seljan til Ingibjargar vildi heimildarmaðurinn láta taka aftur við sig viðtal, en hann hafði áður „jánkað“ því þegar hann var þráspurður hvort Samherji hafði stundað undirverðlagningu. Upplýsti heimildarmaðurinn Helga Seljan um að skýringar hefðu fengist fyrir verðlagningunni. Voru því bæði fréttamaðurinn og stjórnandi gjaldeyriseftirlitsins meðvitaðir um að ekkert studdi ásakanir um undirverðlagningu en létu sér það í léttu rúmi liggja.
Þetta kom vitaskuld ekki fram í Kastljósþættinum 27. mars 2012. Þá studdist Seðlabankinn eðlilega aldrei við gagnið þó staðfest sé að það hafi verið afhent bankanum, sbr. tilkynningu frá Stefáni Jóhanni Stefánssyni, upplýsingafulltrúa Seðlabankans, til Helga Seljan þann 12. ágúst 2020.
3.2. Stjórnendur Seðlabankans fóru vísvitandi með rangt mál fyrir héraðsdómi árið 2015
Víkjum þá að þætti Seðlabankans hvað þetta varðar. Þann 22. apríl 2014 höfðaði Samherji mál gegn Seðlabankanum og krafðist m.a. þess að fá öll gögn sem vörðuðu samskipti starfsmanna Seðlabankans við fjölmiðla. Seðlabankinn staðfastlega neitaði að hafa átt í frekari samskiptum við fjölmiðla en sem sneri að tveimur fréttatilkynningum bankans um málið. Orðrétt sagði í rökstuðningi héraðsdóms: „Þá hafi stefnandi fengið tvær tilkynningar til fjölmiðla. Ekki séu fyrir hendi önnur gögn um samskipti starfsmanna við stjórnvöld og fjölmiðla.“ Var kröfunni því vísað frá dómi. Þarna fóru starfsmenn Seðlabankans vísvitandi með rangt mál enda staðfestir nýleg gagnaafhending Seðlabankans að tugir tölvupósta gengu á milli fréttamanns Ríkisútvarpsins, Helga Seljan, og fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins, Ingibjargar Guðbjartsdóttur á um fimm vikna tímabili fyrir húsleitina.
Sem fyrr segir byggði Seðlabankinn aldrei á skjalinu frá Helga Seljan í rannsókn sinni heldur bjó til eigin útreikninga sem staðfest hefur verið af dómstólum að voru rangir. Seðlabankinn reynir ekki einu sinni að neita því lengur. Má nefna að á 1143. fundi bankaráðs þann 17. ágúst 2017, var fjallað um málið. Orðrétt segir: „Fram kom að útreikningar SÍ hefðu ekki verið nógu góðir til að byggja á ákæru en húsleitin hefði á sínum tíma byggt á fleiru, eins og skilaskyldu.“ Aftur var rætt um útreikningana á 1162. fundi, þann 5. desember 2018, m.a. um „endurbætta útreikninga frá því að húsleitin var gerð.“
3.3. Óumdeilt að útreikningar voru rangir, samt haldið áfram með nýjum rangfærslum
Lögfræðingar Seðlabankans hafa einnig verið afdráttarlausir um það í samskiptum við Samherja. Í tölvupósti þriggja æðstu lögfræðinga bankans, þ.m.t. Sigríðar Logadóttur og Rannveigar Júníusdóttur til mín þann 18. ágúst 2017 sagði orðrétt: „Í tölvupósti þínum er m.a. vísað til mistaka í útreikningi. Í því sambandi er óumdeilt að sú aðferðarfræði sem notast var við í upphafi varðandi greiningu samanburðarverðs á heilum ferskum karfa yfir þriggja mánaða tímabil hafi ekki sýnt nægjanlega samanburðarhæfa útreikninga til að undirbyggja kæru. Ljóst er þó að húsleitarbeiðni byggði einnig á fleiri gögnum.“
Það kemur því ekki á óvart að Seðlabankinn gaf þessa útreikninga upp á bátinn og bjó til enn eina útreikninga, hina svokölluðu „endurbættu útreikninga“. Þótt starfsmönnum bankans hafi tekist að leggja rétt saman í þetta sinn var aðferðarfræðin vísvitandi röng. Í rannsóknarskýrslum bankans var réttri aðferðarfræði lýst, sem bæri að nota. Það var hins vegar ekki gert. Hér eru örfá dæmi um hvernig bankinn horfði vísvitandi framhjá eigin skýringum á réttri aðferðarfræði:
3.4. Málið ekki fellt niður vegna lagaklúðurs heldur túlkunar skattrannsóknarstjóra á reglum samkvæmt útskýringum seðlabankastjóra
Eftir að embætti sérstaks saksóknara felldi niður málið í september 2015 hefur fyrrum seðlabankastjóri og ýmsir stjórnmálamenn haldið því fram eða gefið í skyn að Samherji hafi brotið gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál en sloppið af lagatæknilegum ástæðum. Ekki er hins vegar hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að skattrannsóknarstjóri fékk málið til rannsóknar og felldi það niður þar. Engin áhöld eru um gildi skattalaga en reglur um milliverðlagningu eiga rætur að rekja til skattalaga. Niðurfelling skattrannsóknarstjóra byggði því ekki á lagaklúðri heldur á efnislegu mati.
Starfsmenn Seðlabankans tóku málið aftur til skoðunar og felldu sjálfir niður þessar ásakanir. Kom það m.a. fram á 1123. fundi bankaráðs, hinn 18. febrúar 2016, og 1127. fundi, þann 19. maí 2016. Í máli þáverandi seðlabankastjóra á fundinum 19. maí 2016 var eftirfarandi bókað: „MG upplýsti að gjaldeyriseftirlitið hefði lokið yfirferð sinni og að stærstur hluti málsins yrði felldur niður á grundvelli túlkunar skattrannsóknarstjóra á milliverðlagningu o.fl.“ Samkvæmt útskýringum seðlabankastjóra á fundinum byggðist því niðurfellingin á efnislegri túlkun skattrannsóknarstjóra en ekki lagatækni. Yfirlýsingar forkólfa Seðlabankans og annarra á opinberum vettvangi um lagaklúður og lagatækni eiga því ekki við rök að styðjast og haldið fram gegn betri vitund.
Mikilvægt er að halda til haga umfangi þeirra meintu brota sem ásakanir bankans um undirverðlagningu snerust um. Látið var í veðri vaka að um stórfelld brot hafi verið að ræða sem hafi staðið yfir langt tímabil og að þessi brot hafi komið niður á þjóðinni allri.
Um helmingur allrar sölu Samherja er á þorski. Seðlabankinn komst að því strax árið 2012 að ekkert athugavert var við verðlagningu á honum á rannsóknartímabilinu. Bankinn sá hins vegar aldrei ástæðu til að nefna það.
Starfsmenn Seðlabankans töldu að undanskot Samherja vegna ætlaðra brota næmi alls um 1,6 milljón evra vegna tæplega 1.200 tonna af karfa, ufsa og bleikju á tímabilinu apríl 2009 til marsloka árið 2012. Nemur þessi upphæð um 0,2% af heildarveltu vegna sölu á tímabilinu og 0,7% af seldu magni. Ef horft er á hverja tegund fyrir sig er hlutfallið enn minna. Þannig nemur ásökunin vegna bleikju 0,003% af heildarmagni og 0,004% af heildar verðmæti. Þetta er áður en leiðrétt er vegna röngu aðferðarfræðinnar sem bankinn beitti og því eru hlutföllin í raun enn lægri ef nokkur! Það voru ekki einungis starfsmenn Samherja sem áttuðu sig á þessu því skattrannsóknarstjóri felldi málið niður og síðan Seðlabankinn sjálfur í kjölfarið á grundvelli túlkunar skattrannsóknarstjóra.
Þá ber að halda til haga, eins og nánar er skýrt í umfjölluninni um skilaskyldu, að Seðlabankanum var kunnugt um að lagastoð skorti fyrir refsiheimildum vegna reglnanna. Minnka þá ætluð brot úr 1,6 milljónum evra í rúmlega 175.000 evrur!
3.5. Stjórnendur Seðlabankans höfðu ekkert í höndum sem studdi grun um undirverðlagningu
Til að draga saman „réttmæti“ ásakana um undirverðlagningu:
4. Meint brot á skilaskyldu gjaldeyris
Eins og fram kom á áðurnefndum 1143. fundi bankaráðs var stjórnendum Seðlabankans kunnugt um að útreikningar fyrir verðlagningu á karfa stæðust ekki en vísuðu til þess að húsleitin hefði byggst á fleiru, þ.e. skilaskyldu.
4.1. Vísað til skýrslu um skilaskyldu sem stjórnendur Seðlabankans og endurskoðandi Deloitte gagnrýndu
Var vísað í skýrslu um skilaskyldu sem fyrrum starfsmaður Seðlabankans hafði útbúið. Rétt er að halda því til haga að óvíst er hvort Seðlabankinn hafi í upphafi málsins byggt á þessari skýrslu þar sem hún er ekki upptalin í húsleitarkröfum bankans og Héraðsdómur Reykjavíkur hélt ekki eftir framlögðum gögnum svo sem áskilið er í 2. mgr. 15. gr. laga um meðferð sakamála. Því er ógjörningur að vita hvort raunverulega hafi verið byggt á henni.
Að því gefnu að byggt hafi verið á skýrslunni þá er forsaga hennar sú að Seðlabankinn hafði unnið fimm sambærilegar skýrslur um skilaskyldu sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi. Fjögur sjávarútvegsfyrirtæki voru kærð til lögreglu á grundvelli þessara skýrslna en ekkert aðhafst gagnvart Samherja. Seðlabankinn afturkallaði kærurnar fjórar frá embætti sérstaks saksóknara þann 23. janúar 2012, rétt rúmum tveimur mánuðum áður en húsleit var framkvæmd hjá Samherja. Málin voru hvorki endursend né urðu tilefni stjórnvaldssekta. Þau voru látin niður falla. Fyrrverandi yfirmaður rannsókna hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans staðfesti fyrir dómi í skaðabótamáli Samherja í september 2020 að ástæða málaloka var að starfsmenn Seðlabankans áttuðu sig á að skýrslan var ónothæf.
Því til viðbótar má halda til haga að Seðlabankinn fékk endurskoðunarfyrirtækið Deloitte til að leggja mat á vinnuna starfsmanns Seðlabankans sem vann framangreindar skýrslur og var niðurstaða Deloitte kunngjörð Seðlabankanum í byrjun mars 2012. Niðurstaðan staðfesti að vinnan og skýrslan var ónothæf. Það er raunar með ólíkindum að þegar samantekt Deloitte er lesin að Seðlabankinn hafi engu að síður notað hana til að rökstyðja bæði húsleit og síðar kærur á hendur Samherja. Í rannsóknarskýrslu Seðlabankans, sem send var lögreglu, segir að starfsmaður Deloitte hefði „staðfest framangreindan grun“. Ekkert í samantekt Deloitte styður þessa ályktun starfsmanna Seðlabankans.
4.2. Gjaldeyri skilað af kostgæfni og stjórnendur Seðlabankans sammála, samt sagt að Samherji hefði sloppið
Þegar embætti sérstaks saksóknara felldi niður kærur vegna skilaskyldu Samherja í september 2015 sagði í bréfi embættisins að þess hefði verið gætt af kostgæfni hjá starfsmönnum Samherja að skila gjaldeyri til landsins. Þá sagði einnig í bréfinu að forsenda bankans varðandi skilaskyldu í tengslum við gjaldmiðlaskiptasamninga hefði verið umdeilanleg og vafasöm.
Á 1159. fundi bankaráðs þann 21. nóvember 2018, voru framangreind ummæli embættis sérstaks saksóknara, um að Samherji hefði gætt þess af kostgæfni að skila gjaldeyri til landsins, til umræðu. Í máli ónafngreinds starfsmanns bankans kom eftirfarandi fram: „Var því svarað til að í því sambandi væri átt við vegna vörusölu. Seðlabankinn komst ekki að annarri niðurstöðu varðandi þetta atriði, en skilaskyldubrotin sem sektað var fyrir voru ekki vegna vörusölu.“
15 milljóna króna stjórnvaldssektin sem Seðlabankinn lagði á Samherja var því ekki vegna sölu á vöru og þjónustu heldur vegna gjaldmiðlaskiptasamninga og á grundvelli forsendna sem embætti sérstaks saksóknara hafði sagt vera umdeilanlega og vafasama.
Einungis eitt tilfelli af þeim 34 sem sektin varðaði, upp á rúmlega 14 milljónir króna eða 3% af ætluðu broti, var eftir að ákvæði reglna bankans voru leidd í lög þann 27. september 2011.
4.3. Umboðsmaður lét stjórnendur Seðlabankans vita árið 2010 um skort á refsiheimildum
Mikilvægt er að halda til haga að Seðlabankinn fékk, allt frá árinu 2010, fjölmargar ábendingar um að refsiheimildir skorti fyrir reglunum. Samt sem áður kaus bankinn að fara í húsleit hjá Samherja og leggja síðar sekt á félagið, vitandi vits um þennan alvarlega annmarka.
Umboðsmaður Alþingis hafði tvívegis, jafnvel oftar, bent á skort á refsiheimildum áður en til álagningar sektarinnar kom. Fjallaðii hann um þetta sérstaklega á opnum fundi hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þann 22. september 2015. Orðrétt sagði umboðsmaður á fundinum: „En þetta mál, eins og ég var að útskýra, en hefur greinilega ekki náð fram að ganga, náð til fólks, það er bara mjög sérstakt að því leytinu til að þarna komu fram mjög alvarlegar ábendingar um meinbaugi á lögum og svo framkvæmd. Og það sem ég gerði, til þess líka að upplýsa alla aðila um málið, þegar ég áttaði mig á því að það kynni að vera þannig að lagagrundvöllur þessara mála væri gjörsamlega ónýtur, hvað gerði ég? Ég kallaði fulltrúa ráðuneytisins og Seðlabankans á minn fund, útskýrði málið fyrir þeim. Það varð tilefni til þess að það var unnið frumvarp til breytinga á þessum lögum. Það var lagt fram vorið 2011, það var ekki samþykkt fyrr en í september 2011. Ástæðan var m.a. sú að hér í húsi vildu menn helst ekki skipta sér af þessum málum. En ég lagði áherslu á það að þegar ríkisvaldið ætlar að hafa afskipti af borgurunum með þessum hætti, þá verður lagagrundvöllurinn að vera í lagi. Þetta voru þau afskipti sem ég hafði þá þegar af þessu máli.“
Már Guðmundsson, fyrrum seðlabankastjóri lét eftirfarandi ummæli falla í þættinum Sprengisandi þann 22. nóvember 2015 um afskipti umboðsmanns Alþingis: „Og hann kemur fram með þessar athugasemdir minnir mig á árunum 2010 og 2011 og það var brugðist við því og allur bálkurinn var settur inn í lögin.“ Í framangreindu viðtali sem tekið var tæpu ári áður en seðlabankastjóri lagði sekt á Samherja staðfesti hann því sjálfur að hafa verið kunnugt um að ekki hafi verið refsiheimild fyrr en lögin voru samþykkt í lok september 2011.
4.4. Ríkissaksóknari staðfesti árið 2014 að engin nothæf refsiheimild væri til staðar. Upplýsingunum stungið undir stól og sekt lögð á Samherja
Hinn 20. maí 2014 staðfesti ríkissaksóknari niðurfellingu sex mála sem bankinn hafði kært til embættis sérstaks saksóknara. Í niðurstöðu ríkissaksóknara sagði m.a. „Það var ekki fyrr en með lögum nr. 127/2011 þegar reglur Seðlabankans voru innleiddar í lög um gjaldeyrisviðskipti sem 13. gr. a til 13. gr. p, að 16. gr. var breytt á þann veg að með skýrum hætti væri kveðið á um refsingu vegna brota gegn gjaldeyrishöftum. Það er niðurstaða ríkissaksóknara af þessu, að engin nothæf refsiheimild hafi verið til staðar vegna meintra brota gegn reglum Seðlabankans um gjaldeyrismál [...].“
Eftir þessa niðurstöðu ríkissaksóknara velktust stjórnendur Seðlabankans ekki í vafa um afstöðu hans enda sagði í tölvupósti forstöðumanns rannsókna gjaldeyrismála, Rannveigar Júníusdóttur, til yfirstjórnar bankans hinn 20. maí 2014: „Við getum ekki betur séð en að niðurstaðan sé ótvíræð og að mati Ríkissaksóknara skortir heimild til að refsa á grundvelli reglna um gjaldeyrismál. Tímabilið sem um ræðir er því 28. nóvember 2008 til 30. september 2011.“
Rúmum tveimur árum síðar skrifaði sami starfsmaður, Rannveig Júníusdóttir, undir stjórnvaldssekt á Samherja ásamt þáverandi seðlabankastjóra, þar sem 97% ætlaðs brots var á framangreindu tímabili.
Seðlabankinn lagði á Samherja stjórnvaldssekt 1. september 2016 vegna meintra brota gegn skilaskyldu sem námu 490 milljónum króna, þar af um 476 milljónum króna sem vörðuðu gjaldeyrisskil vegna gjaldmiðlaskiptasamninga fyrir 27. september 2011, þegar lögin tóku gildi. Heildar gjaldeyrisskil Samherja, sem fóru í gegnum DNB og Arion banka námu alls um 18 milljörðum á rannsóknartímabilinu. Ætluð brot námu því um 2,7% af heildargjaldeyrisskilum en einungis um 0,078% eftir að lögin tóku gildi og þar með refsiheimildin. Í því sambandi skal áréttað að meint brot var vegna gjaldmiðlaskiptasamnings og hafði embætti sérstaks saksóknara sagt forsendur Seðlabankans varðandi hann bæði umdeilanlegar og vafasamar. Fjárhæð þess tilviks nam lægri fjárhæð en sektin sem lögð var á Samherja.
4.5. Bréfi ríkissaksóknara frá því í febrúar 2019 haldið frá héraðsdómi í skaðabótamáli Samherja
Það er sérstaklega bíræfið að í vörn Seðlabankans gegn skaðabótakröfu Samherja á haustmánuðum þessa árs var því ítrekað haldið fram að starfsmenn bankans hafi verið í góðri trú um álagningu stjórnvaldssektar á Samherja þar sem ríkissaksóknari hafi fellt eitt mál niður í ágúst 2014 á öðrum grundvelli en því að engin nothæf refsiheimild hafi verið til staðar. Á sama tíma og bankinn lagði fyrir dómara ákvörðun ríkissaksóknara frá því í ágúst 2014, hélt bankinn frá dómaranum og öllum öðrum bréfi ríkissaksóknara frá 19. febrúar 2019. Í því bréfi stóð: „í sjö afstöðubéfum ríkissaksóknara frá 20. maí 2014 kom skýrt fram það mat ríkissaksóknara að reglur Seðlabanka Íslands gátu ekki talist gild refsiheimild fyrr en eftir gildistöku laga nr. 127/2011.“ Hvað ákvörðunina frá því í ágúst sama ár varðar sagði ríkissaksóknari að í því máli hafi „augljóslega verið að fjalla um og taka afstöðu til annarra álitaefni og málsástæðna.“ Taldi ríkissaksóknari ekki þörf á að rekja það frekar. Sumsé, ekki nóg með að stjórnendur Seðlabankans hafi haldið kærum til lögreglu til streitu í stað þess að draga þær til baka, heldur héldu þeir frá héraðsdómara bréfi sem sagði að enginn vafi hefði verið um afstöðu ríkissaksóknara árið 2014 og reyndu þess í stað að telja dómaranum trú um að þeir hafi verið í góðri trú. Slíkur blekkingarleikur er með ólíkindum og ekki samboðinn stofnun á borð við Seðlabanka Íslands.
4.6. Stjórnendur Seðlabankans höfðu ekkert í höndum sem studdi grun um brot á skilaskyldu
Samandregið liggur því eftirfarandi fyrir varðandi ávirðingar Seðlabankans um skilaskyldubrot hjá Samherja:
5. Erlend félög starfrækt frá Íslandi
Þriðja og síðasta ásökun forsvarsmanna Seðlabankans til að réttlæta húsleitina og kærurnar, og sú sem bankinn beitti hvað helst í vörnum sínum gegn skaðabótakröfu Samherja nú nýverið, er að erlend félög í samstæðu Samherja hafi í reynd verið starfrækt frá Íslandi.
Í húsleitarkröfu sinni var ein setning um þessa ásökun: „Jafnframt leikur grunur á um annars vegar að raunveruleg framkvæmdastjórn hinna erlendu félaga, Icefresh GmbH, og Seagold Ltd. sé á Íslandi og hins vegar að þau félög, sem beiðni þessi lýtur að, séu starfrækt sem ein heild.“ Engin gögn voru lögð fram eða frekari rökstuðningur fyrir þessum ávirðingum. Beiðnin beindist m.a. að félögunum Katla Consulting Ltd., Katla Trading (UK) Limited og Stoeznia Gdynia S.A. Þessi félög tengjast ekki Samherja á nokkurn hátt og var hið síðastnefnda gjaldþrota skipasmíðastöð sem pólska ríkið hafði fengið í fangið. Það blasir því við að ekki lá meira að baki þessari „grunsemd“ en óskhyggja um brot hjá Samherja.
5.1. Smjörklípan í skaðabótamálinu – Kýpur
Í greinargerð og ræðu lögmanns Seðlabankans til varnar skaðabótakröfu Samherja á haustmánuðum 2020 var mikið gert úr þessum ásökunum að því er varðar félög á Kýpur. Er því rétt að fara yfir hvernig sú ásökun hefur verið meðhöndluð af yfirvöldum til þessa.
Hluti af málinu sem Seðlabankinn kærði til embættis sérstaks saksóknara sneri að því að raunveruleg framkvæmdastjórn félaganna Atlantex í Póllandi, Fidelity Bond Investment Ltd. og Katla Seafood Ltd. á Kýpur og Katla Seafood Canarias SLU á Kanarí, væri í reynd á Íslandi. Embætti sérstaks saksóknara felldi málið niður í september 2015 en þar sem reglan um raunverulega framkvæmdastjórn, sem ásökunin byggði á, á uppruna í skattalögum, var þessi ásökun send til skattrannsóknarstjóra. Skattrannsóknarstjóri felldi málið einnig niður.
Sem fyrr segir er enginn vafi um efnislegt gildi skattalaga og því byggði niðurfelling skattrannsóknarstjóra á efnislegri skoðun á ásökunum.
Seðlabankinn rannsakaði málið að nýju en eins og fram kom í máli seðlabankastjóra á 1127. fundi bankaráðs, þann 19. maí 2016, og byggði niðurfelling bankans á túlkun skattrannsóknarstjóra á þessum reglum. Seðlabankinn komst því að sömu efnislegu niðurstöðu og skattrannsóknarstjóri, að ekki væri grundvöllur fyrir þessum ásökunum.
Á þessu má sjá að málflutningur Seðlabankans, nú á haustmánuðum, beindist öðru fremur að þeim blaðamönnum sem mestan áhuga hafa haft á Kýpur enda taldi lögmaðurinn bankans augljóst mál við vitnaleiðslur í málinu að hið pólska félag Atlantex væri í reynd pólskt og vék ekki einu orði að félagi Samherja á Kanarí. Þá virðast bollaleggingar Seðlabankans í húsleitarbeiðninni um þýska félagið Icefresh GmbH og enska félagið Seagold Ltd. hafa horfið fljótt enda hefur bankinn aldrei minnst á grunsemdir sínar um þau félög eftir húsleitina.
Engin ný gögn eru í málinu sem réttlæta þennan málflutning Seðlabankans nú og virðist hann því eingöngu hafa snúist um að færa athyglina frá því sem máli skiptir – framferði stjórnenda bankans. Getur þetta ekki talist annað en verulega ámælisvert.
6. Framganga fyrrum seðlabankastjóra og stjórnenda bankans
Þetta mál hefur verið fyrrum seðlabankastjóra lítt til framdráttar. Málflutningur hans hefur einkennst af getu- og viljaleysi við að gangast við mistökum sínum.
6.1. Umboðsmaður ýmist notaður sem skálkaskjól eða upplýsingum haldið frá honum
Umboðsmaður Alþingis rammar viðhorf fyrrum seðlabankastjórans og stjórnenda hans hjá Seðlabankanum ágætlega inn í máli nr. 9730/2018 sem birt var í byrjun árs 2019. Meðal þess sem umboðsmaður sagði var: „Í báðum þessum tilvikum er mér gerð upp afstaða til réttlætingar á gerðum seðlabankans án þess að farið sé rétt með.“ Þá sagði hann einnig: „Þá er gagnrýnivert þegar stjórnvald réttlætir gerðir sínar og lagatúlkun með því að vísa til að texti þess umdeilda lagaákvæðis sem á reynir sé samhljóða öðru lagaákvæði sem hins vegar er ekki raunin.“ Loks gagnrýndi umboðsmaður Alþingis Seðlabankann fyrir að halda frá sér upplýsingum um afstöðu ríkissaksóknara. Þessar aðfinnslur eru alvarlegar.
Við höfum fengið afrit vinnuskjals af fundi efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og Seðlabankans þann 7. febrúar 2011 þar sem rætt var um athugasemdir umboðsmanns Alþingis á sínum tíma. Viðhorf þáverandi forstöðumanns gjaldeyriseftirlits Seðlabankans, Ingibjargar Guðbjartsdóttur, birtist þar skýrlega þegar rætt var um breytingar á lögum um gjaldeyrismál og það sem þyrfti að endurskoða, m.a. lagagrundvöll. Athugasemd hennar var eftirfarandi: „IG bendir á að það geti verið varasamt að upplýsa hann [innsk. umboðsmann Alþingis] um slíkt, megi túlka sem viðurkenningu af hálfu stjórnvalda.“ Sumsé, stjórnvald má ekki viðurkenna að hafa haft rangt fyrir sér. Farið skal áfram á hnefanum. Þetta hefur frá upphafi verið rauði þráðurinn í framgöngu Seðlabankans.
6.2. Fælingarmáttur árásarinnar á Samherja sem þó byggði ekki á rökstuddum grun
Hvað varðar seðlabankastjórann fyrrverandi þá hefur hann ítrekað sagt og gefið í skyn að Samherji hafi sloppið af lagatæknilegum ástæðum. „Mér finnst hann nú vera að gera allt of mikið úr þessu, sérstaklega vegna þess að hann er að sleppa undan stórum hluta málsins, vegna lagaklúðurs annars vegar og hins vegar vegna einhverra mistaka við setningu reglna í desember 2008.“ Þessi orð lét Már Guðmundsson falla í viðtali við Morgunblaðið 14. september 2015. Nokkrum mánuðum seinna sagði hann í Eyjunni þann 6. mars 2016 að hann „hefði náttúrulega miklu frekar kosið að skoðun á Samherja hefði leitt það í ljós að þetta var bara allt í lagi og þyrfti ekkert að skoða.“ Í lok viðtalsins bætti hann um betur og sagði: „Nú ef þeir eru samt sekir en það er ekki til refsiheimildir nú þá er það bara þannig líka.“
Már Guðmundsson hefur þó einnig látið ummæli falla sem benda eindregið til þess að honum hafi verið kunnugt um að aldrei hafi verið rökstuddur grunur um brot hjá Samherja og að tilgangurinn með aðgerðunum hafi verið að nota Samherja sem víti til varnaðar. Már hefur í þrígang sagt að ekki hafi verið rökstuddur grunur um brot en slíkt er fortakslaust skilyrði fyrir húsleitum og haldlagningu. Þá skrifaði hann í bréfi til forsætisráðherra 29. janúar 2019 að „aðgerðir Seðlabankans höfðu töluverð fælingaráhrif. Þetta mátti t.d. glögglega sjá eftir húsleitina hjá Samherja...“. Samræmist þetta orðum hans í fjölmiðlum í gegnum árin en í viðtali á Eyjunni þann 6. mars 2016 sagði hann í raun að tilgangurinn helgaði meðalið. „Okkar mál er að sjá til þess að víggirðingin bresti ekki og hún brast ekki.“ Þetta sýnir að hann réttlætir lögleysuna gegn Samherja með því að benda á að hún hafi haft svo mikinn fælingarmátt og þar með áhrif til góðs í þjóðfélaginu.
6.3. Síðasta embættisverk Más Guðmundssonar
Síðasta embættisverk Más Guðmundssonar var svo að slá út af borðinu viðræður við forsvarsmenn Samherja um bætur. Það er sorglegt að sjá aðdraganda þess í fundargerðum bankaráðs. Bankaráð hvatti seðlabankastjóra eindregið til að ljúka málinu með sátt en hann kvaðst óviss um lagaheimild til slíks. Hann lék því biðleik með því að óska eftir leiðbeiningum frá ríkislögmanni, þann 11. júní 2019, en hafnaði svo viðræðum áður en svar barst frá ríkislögmanni, sbr. 1177. fundur bankaráðs þann 21. ágúst 2019. Á næsta fundi bankaráðs þann 18. september 2019 var upplýst að ríkislögmaður teldi bankanum heimilt að semja við Samherja.
7. Framganga Ríkisútvarpsins
Framganga Ríkisútvarpsins er sér kapítuli útaf fyrir sig. Ekki nóg með að heill þáttur um ásakanir á hendur stjórnendum Samherja hafi byggst á skjali sem beinlínis sagði að ekki væri um undirverðlagningu væri að ræða, og heimildarmanni sem hafði dregið í land með ásakanir um undirverðlagningu þremur vikum áður en þátturinn birtist, heldur tók Ríkisútvarpið virkan þátt í að skaða orðspor Samherja og stjórnenda sem mest. Fékkst það endanlega staðfest þegar við fengum afhentar fundargerðir bankaráðs Seðlabankans og tölvupóstsamskipti milli Ríkisútvarpsins og Seðlabankans.
7.1. Véfréttin í Efstaleiti
Á 1179. fundi bankaráðs, þann 23. október 2019, kom fram að fréttamaður RÚV „hefði sent drög að frétt um húsleit sem ætti að fara fram daginn eftir [...].“ Þegar fréttamaður Ríkisútvarpsins er farinn að skrifa um húsleit sem enn hefur ekki átt sér stað er ljóst að pottur er brotinn.
Óskuðum við eftir því bæði við útvarpsstjóra og Seðlabankann að fá afrit af þessum tölvupósti. Útvarpsstjóri synjaði afhendingu með tilvísun til ákvæðis fjölmiðlalaga um vernd heimildarmanna. Ljóst er því að lekinn um fyrirhugaða húsleit kom úr Seðlabankanum enda hefði útvarpsstjóra annars ekki verið stætt að byggja synjun sína á umræddu lagaákvæði. Seðlabankinn afhenti aftur á móti umbeðinn tölvupóst hinn 27. nóvember 2020. Orðalag hans benti til umfangsmeiri samskipta við undirbúning húsleitarinnar enda var ekki um fyrstu drög að frétt sem fréttamaðurinn, Helgi Seljan, bar undir fyrrverandi forstöðumann gjaldeyriseftirlitsins, Ingibjörgu Guðbjartsdóttur. Reyndist sá grunur á rökum reistur en Seðlabankinn afhenti tugi annarra tölvupósta þeirra á milli hinn 4. desember 2020. Sem fyrr segir sýna önnur tölvupóstsamskipti þeirra á milli að bæði hafi fréttamaðurinn og stjórnandi Seðlabankans verið meðvitaðir um að heimildarmaður fyrir ásökunum í garð Samherja um undirverðlagningu hefði dregið ummæli sín til baka þegar viðhlítandi skýringar fengust á verðlagningu. Þessi samvinna milli fréttastofu Ríkisútvarpsins og Seðlabankans um væntanlega húsleit er óhugnanleg.
Þessi samvinna rennir einnig styrkum stoðum undir þá bjargföstu skoðun mína að Samherji og stjórnendur hans fái ekki sanngjarna umfjöllun hjá Ríkisútvarpinu.
7.2. Ódýrar pólitískar keilur og bókun Bolla Héðinssonar
Margir þátttakendur í þjóðfélagsumræðunni hafa stokkið á vagninn undanfarin ár í þeim tilgangi að slá sig til riddara. Oddný G. Harðardóttir, fyrrum fjármálaráðherra og formaður Samfylkingarinnar fjallaði fjálglega um það tjón sem Samherji hefði valdið þjóðinni:
„Ef að menn brjóta þessi lög og stunda svona viðskipti í gegnum tengda aðila og fara á svig við lögin þá hefur það áhrif á tekjur sjómanna hérna heima ef þetta er innanlands og hugsanlega á skatttekjur ríkisins. En ef þetta gerist í útlöndum að þá hefur það enn alvarlegri afleiðingar vegna þess að ef gjaldeyrinum er ekki skilað heim að þá hefur það áhrif á veikingu krónunnar sem aftur hefur áhrif á verðbólguna sem hefur áhrif á skuldir heimila og fyrirtækja og í rauninni áhrif á kjör alls fólks í landinu.“
Bolli Héðinsson bankaráðsmaður lagði fram bókun á 1159. fundi bankaráðs, þann 21. nóvember 2018, þar sem hann gagnrýndi Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, fyrir alvarlegar aðdróttanir. Bolli var þar sjálfur með alvarlegar aðdróttanir:
„Seðlabankanum er falið að framfylgja reglum sem síðar kemur í ljós að ráðherra hefur aldrei staðfest. Þegar undið er ofan af málunum sem til hafði verið stofnað með hinum óundirrituðu reglum er reynt að gæta jafnræðis. Dómstólar komast að raun um að sú aðferð sem var notuð var ekki lögum samkvæmt og því er dæmt samkvæmt því.
Það er afar sérstakt að eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins skuli krefjast afsagnar seðlabankastjóra. Fyrirtækið hefur ekki úr háum söðli að detta þegar siðgæðiskröfur eru annars vegar og fyrirtækið í raun orðið hættulegt tjáningarfrelsinu í landinu. Nægir í því sambandi að minna á hvernig fyrirtækið heldur atvinnulífi heilu byggðarlaganna í heljargreipum með hótunum um að leggja þar niður starfsemi ef stjórnvöld fara ekki að kröfum þeirra eða hvernig einstaklingum er hótað atvinnumissi dirfist þeir að andæfa fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa alla tíð sýnt fyrirtækinu mikla auðsveipni svo ekki þarf að koma á óvart að þessi krafa sé sett fram gagnvart þeim stjórnmálaflokkum sem nú sitja í ríkisstjórn. Reynslan hefur sýnt að þeir sitja og standa eins og fyrirtækið ætlast til af þeim.“
Þetta eru aðeins tvö dæmi um einstaklinga í háum stöðum sem fordæmt hafa Samherja í stað þess að leyfa félaginu að njóta vafans, hvað þá að hlusta á málsvara félagsins. Það er með ólíkindum að sama fólk skuli síðan hafa stokkið á vagninn með – jú sama starfsfólki sama ríkisfjölmiðils – og haldið áfram að fordæma félagið. Nær hefði verið að bíða og sjá hver niðurstaðan yrði.
*
Staðreyndirnar sem raktar hafa verið hér að framan: að starfsmenn Seðlabankans hafi ekki haft rökstuddan grun; að bankanum hafi verið kunnugt um að útreikningar og skýrslur hafi verið rangar; að bankinn hafi vitað og reglulega verið áminntur að ekki væri fyrir að fara neinum brotum; um skort á refsiheimildum; samkurl starfsmanna Seðlabankans við fréttastofu Ríkisútvarpsins; svo og að starfsmenn Seðlabankans hafa ítrekað haldið frá dómstólum og Samherja mikilvægum gögnum, nú síðast í skaðabótamáli Samherja árið 2020, staðfesta að seðlabankamálið var ekkert annað en skipulögð árás. Þar helgaði tilgangurinn meðalið. Og nú þegar rykið hefur sest, þá sést að þetta var í raun veiðiferð, þar sem komast átti í bókhald félagsins til að leita að glæpum. Og þegar engin brot fundust, var aðförin réttlætt eftir á með því að hún hafi haft fælingarmátt og komið í veg fyrir brot annarra á gjaldeyrislögunum, þjóðinni til heilla. Samherji var því stjaksettur öðrum til viðvörunar.
Fréttir um málið á heimasíðu Samherja:
20.04.2021 https://www.samherji.is/is/frettir/nytt-myndband-um-urskurd-sidanefndar
26.03.2021 https://www.samherji.is/is/frettir/urskurdur
31.05.2020 https://www.samherji.is/is/frettir/rumlega-85000-manns-hafa-horft-a-nyjasta-thatt-samherja
28.08.2020 https://www.samherji.is/is/frettir/oheidarleg-vinnubrogd-rikisutvarpsins
25.08.2020 https://www.samherji.is/is/frettir/verdlagsstofa-finnur-vinnuskjal
23.08.2020 https://www.samherji.is/is/frettir/vidbrogd-rikisutvarpsins-vid-thaetti-samherja
20.08.2020 https://www.samherji.is/is/frettir/skjalid-ur-kastljosi-finnst-ekki
11.08.2020 https://www.samherji.is/is/frettir/rikisutvarpid-birti-skyrsluna
11.08.2020 https://www.samherji.is/is/frettir/heimildarthattur-um-upphaf-sedlabankamalsins
30.04.2019 https://www.samherji.is/is/frettir/sedlabankinn-hafnar-ollum-vidraedum-um-lok-samherjamalsins
27.03.2019 https://www.samherji.is/is/frettir/sjo-ara-herferd-sedlabankans
26.2.2019 https://www.samherji.is/is/frettir/thungur-afellisdomur-yfir-stjornendum-sedlabanka-islands
20.02.2019 https://www.samherji.is/is/frettir/forherding
19.12.2018 https://www.samherji.is/is/frettir/bref-til-bankarads-si-1
30.11.2018 https://www.samherji.is/is/frettir/hvenaer-er-madur-saklaus
14.11.2018 https://www.samherji.is/is/frettir/samherji-skiladi-gjaldeyri-af-kostgaefni
13.11.2018 https://www.samherji.is/is/frettir/opid-bref-gardars-gislasonar-logmanns-samherja
11.11.2018 https://www.samherji.is/is/frettir/malid-hlaut-efnislega-medferd
08.11.2018 https://www.samherji.is/is/frettir/thakklaeti-til-ykkar-kaeru-starfsmenn
27.03.2018 https://www.samherji.is/is/frettir/falskar-asakanir-i-sex-ar
15.03.2018 https://www.samherji.is/is/frettir/rangfaerslur-utursnuningar-og-thoggun-sedlabanka-islands-i-sex-ar
10.10.2017 https://www.samherji.is/is/frettir/umfjollun_um_samherja_a_sjonvarpsstodinni_hringbraut_i_kvold
15.04.2017 https://www.samherji.is/is/frettir/rangfaerslur-sedlabankans-aetla-engan-enda-ad-taka
27.03.2017 https://www.samherji.is/is/frettir/enn_segir_sedlabankastjori_osatt
21.12.2016 https://www.samherji.is/is/frettir/bref-til-starfsmanna-5
19.09.2016 https://www.samherji.is/is/frettir/bref-til-starfsmanna-4
16.09.2016 https://www.samherji.is/is/frettir/bref-samherja-hf-til-bankarads-si
06.11.2015 https://www.samherji.is/is/frettir/bref-til-starfsmanna-3
21.09.2015 https://www.samherji.is/is/frettir/bref-til-bankarads-sedlabanka-islands
07.09.2015 https://www.samherji.is/is/frettir/bref-til-starfsmanna-2
13.02.2014 https://www.samherji.is/is/frettir/asakanir-sedlabanka-islands-a-hendur-seagold-rangar
06.01.2014 https://www.samherji.is/is/frettir/sedlabanki-islands-reiknar-aftur-vitlaust
15.11.2013 https://www.samherji.is/is/frettir/bref-til-starfsmanna-samherja-1
09.09.2013 https://www.samherji.is/is/frettir/serstakur-saksoknari-visar-mali-samherja-fra
17.04.2013 https://www.samherji.is/is/frettir/bref-til-starfsmanna-lettir-ad-loksins-er-komin-hreyfing-a-malid
28.12.2012 https://www.samherji.is/is/frettir/nanar-um-greiningu-utflutningsverda
28.12.2012 https://www.samherji.is/is/frettir/bref-til-starfsmanna-1
24.05.2012 https://www.samherji.is/is/frettir/malatilbunadur-sedlabanka-byggir-a-staerdfraedilegri-skekkju
18.04.2012 https://www.samherji.is/is/frettir/yfirlysing-fra-samherja-vegna-rangfaerslna-i-umfjollun-dv
16.04.2012 https://www.samherji.is/is/frettir/yfirlysing-fra-samherja
04.04.2012 https://www.samherji.is/is/frettir/bref-til-starfsmanna
04.04.2012 https://www.samherji.is/is/frettir/bref-helga-johannessonar-til-gjaldeyrisdeildar-sedlabanka-islands
04.04.2012 https://www.samherji.is/is/frettir/yfirlysing
04.04.2012 https://www.samherji.is/is/frettir/yfirlysing-vegna-ummaela-sedlabanka-islands
03.04.2012 https://www.samherji.is/is/frettir/dffu-haettir-timabundid-ollum-vidskiptum-vid-island
29.03.2012 https://www.samherji.is/is/frettir/skiptaverd-a-samherjaskipum-fyrir-karfa-yfir-medalverdi
28.03.2012 https://www.samherji.is/is/frettir/frettatilkynning-fra-samherja-hf