Fiskvinnsluhúsið á DalvíkÍ ágúst 2020 var tekið í notkun nýtt og tæknilega fullkomnasta fiskvinnsluhús landsins. Starfsemi hússins er á 9.000 fermetrum og er allur búnaður og aðbúnaður starfsfólks eins og best verður á kosið. Aðaláhersla er lögð á vinnslu þorsks og ýsu og er vinnslan mjög sérhæfð þar sem allar afurðir eru ferskar eða lausfrystar. Framleiddir eru ferskir, sérskornir bitar og fiskkökur af ýmsum stærðum og gerðum, allt eftir þörfum kaupenda hverju sinni. Hluta framleiðslunnar er pakkað í umbúðir sem seldar eru beint á neytendamarkað í stórmörkuðum erlendis. Mikil áhersla er lögð á gæði og hreinlæti og er húsið samþykkt af helstu verslunarkeðjum í Evrópu. Framleiðslukerfið er tölvustýrt og skráningar tryggja rekjanleika vörunnar frá veiðum til viðskiptavinar. Sölumyndband Ice Fresh Seafood: Hér má sjá skemmtilega umfjöllun um myndirnar sem skreyta veggi hússins. Landslag – Útilistaverk á Dalvík - Landslag, umhverfislistaverk Brynhildar Þorgeirsdóttur listakonu, var sett upp við fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík sumarið 2022. Verkið nær yfir þrjú beð og mynda eina heild sem ber titilinn Landslag. Hérna er hægt að nálgast upplýsingaskilti þar sem verkinu eru gerð góð skil, bæði á íslensku og ensku. Upplýsingarnar eru sérstaklega ætlaðar þeim sem vilja fræðast um umhverfislistaverkið, hvort sem um er að ræða heima í stofu eða á staðnum. Á skiltinu er m.a. QR kóði, sem auðveldar fólki með farsíma eða fartölvur að njóta þessa einstaka listaverks. |
|
Útgerðarfélag AkureyringaÚA er á Fiskitanga 4 á Akureyri og vinna þar alls um 130 manns. Þar fer fram tæknivædd bolfiskvinnsla, þar sem unnar eru ferskar og frystar afurðir á neytendamarkaði, aðallega í Evrópu. Árið 2015 var byggt og tekið í notkun nýtt hús á lóðinni sem hýsir fullkomna pökkunarstöð fyrir bæði ferskar og frosnar afurðir auk hitastýrðs afgreiðslurýmis. Húsið er hannað til að mæta ýtrustu kröfum fyrir framtíðar fiskvinnslu. (myndband frá byggingu hússins) |
|
Fiskþurrkun að LaugumÚA starfrækir fiskþurrkun að Laugum í Reykjadal (Laugafiskur var stofnsettur 1988 en hefur verið rekinn í núverandi mynd frá því um 2000). Þar fer fram þurrkun allra hausa og hryggja sem til falla hjá félaginu og starfa þar um 20 manns. Nígería er aðal markaðurinn fyrir þurrkuðu afurðirnar.
|
|