Stjórnendur Samherja vita að árangur í rekstri fyrirtækisins byggist öðru fremur á þekkingu og metnaði starfsfólks. Þess vegna vinnur fyrirtækið að því að efla starfshæfni einstaklinga og hvetja þá til að nýta eigin áhuga og frumkvæði til þroska og persónulegra framfara. Samherji byggir rekstur sinn og starfmannastefnu á þremur eftirtöldum atriðum, auk þess að leggja áherslu á jafnrétti, símenntun, endurmenntun, gæða-, öryggis- og umhverfismál.
* Samherji leitast við að ráða til sín og hafa í sínum röðum framúrskarandi starfsfólk og efla það í störfum sínum.
* Til að stuðla að vexti og arðsemi Samherja er áhersla lögð á skemmtilegan vinnustað, starfsánægju og gott starfsumhverfi.
* Það er viðhorf stjórnenda Samherja að það sé starfsfólkið, metnaður þess, kraftur og hollusta sem er lykillinn að farsælum rekstri fyrirtækisins.
Það er stefna Samherja að fyllsta jafnræðis sé gætt milli alls starfsfólks og að hver og einn einstaklingur sé metinn á eigin forsendum. Með því móti telur Samherji að stuðlað sé að tryggð, góðum starfsanda og jákvæðu viðhorfi, bæði fyrir starfsfólk og félagið. Samherji skuldbindur sig til að vinna stöðugt að umbótum og eftirliti með jafnlaunakerfi Samherja og bregðast við þegar á þarf að halda.
Samherji Ísland ehf. hefur hlotið jafnlaunavottun sem staðfestir að fyrirtækið uppfyllir kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST:85 2012 og kröfur laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. BSI á Íslandi, sem er faggiltur vottunaraðili, tók út jafnlaunakerfi fyrirtækisins. Vottunin felur í sér að stjórnunarkerfi Samherja Íslands virkar sem skildi, en kerfið á að tryggja að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.
Mannréttindastefna Samherja
Virðing fyrir starfsfólki og mannréttindum er grundvallaratriði í rekstri Samherja ásamt framfylgni við gildandi lög og reglur. Fyrirtækið virðir Mannréttindasáttmála Evrópu og gildandi lög og reglur á þeim mörkuðum sem það starfar á.
Í því felst að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Samherji virðir gildandi lög og kjarasamninga um laun, vinnutíma, yfirvinnu, hámarksvinnu- og hvíldartíma og önnur réttindi starfsfólks sem varin eru af gildandi lögum, reglum og kjarasamningum
Samherji leggur ríka áherslu á öryggis-, heilbrigðis- og vinnuverndarmál og vill vera leiðandi í þessum málaflokki. Stefna Samherja í öryggis-, heilbrigðis og vinnuverndarmálum gildir fyrir öll dótturfélög í samstæðu fyrirtækisins. Meginmarkmið stefnunnar er að tryggja öryggi starfsmanna, efla heilbrigði þeirra og fyrirbyggja fjarveru úr vinnu vegna slysa eða annarra heilsufarsvandamála.
Samherji leggur metnað sinn í að fylgja gildandi lögum og reglum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og öðrum gildandi reglum. Mikil vinna hefur farið í að skapa sterka og sjálfbæra öryggismenningu á starfsstöðvum þar sem allir starfsmenn láta sig öryggismál varða og hefur það haft ríkan ávinning í för með sér. Hjá Samherja er starfandi öryggisstjóri sem fer með umsjón öryggismála. Samherji styður við heilbrigði starfsfólks með ýmsum hætti, allt frá því að hvetja starfsfólk til hreyfingar og hollustu í það að greina, þróa og bæta aðbúnað og innleiða verkferla til að tryggja öryggi.
Samherji leggur ríka áherslu á öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks síns. Ætlast er til þess að starfsfólk sé allsgáð við vinnu og hefur Samherji því sett kröfur varðandi áfengis- og vímuefnanotkun á starfsstöðvum sínum í reglum um vímuefnalausan vinnustað. Reglurnar gilda á meðan starfsfólk er á starfsstöðvum Samherja, koma fram fyrir hönd Samherja og/eða eru á vegum fyrirtækisins utan vinnusvæðis.
Öll neysla áfengis, vímuefna eða lyfja sem hamlað geta eða skert starfsgetu er stranglega bönnuð á fiskvinnslusvæðum Samherja og um borð í skipum. Sama gildir ef starfsfólk er undir áhrifum slíkra efna.
Hjá Samherja er lögð áhersla á góðan starfsanda, þar sem ríkir traust, trúnaður, jafnræði og hreinskilni milli alls starfsfólks. Starfsfólki ber að temja sér kurteisi og háttvísi í framkomu og sýna hvert öðru virðingu og jákvætt viðmót.
Allir á vinnustaðnum þurfa að leggja sitt af mörkum til að fyrirbyggja neikvæða hegðun og stuðla að góðum samskiptum, starfsánægju og öruggu umhverfi. Þetta skiptir okkur öll miklu máli og við berum öll ábyrgð í þessum efnum. Því er mikilvægt að starfsfólk láti vita ef upp koma neikvæð og óviðeigandi samskipti til að hægt sé að taka á málum.
Samherji leggur ríka áherslu á að taka vel á móti nýju starfsfólki og veita því viðeigandi þjálfun og kynningu á starfseminni áður en það hefur störf. Þá er stuðlað að og hvatt til sí- og endurmenntunar starfsfólks.
Samherji er fjölþjóðlegur vinnustaður. Áhersla er lögð á íslenskukennslu og þjálfun fyrir fólk með annað móðurmál en íslensku. Innan fyrirtækisins er ríkur skilningur á mikilvægi þess að bjóða upp á íslenskukennslu í fræðslusetri og á vinnustað í samstarfi við fræðslumiðstöðvar. Námskeiðin hafa að leiðarljósi að efla orðaforða til að tryggja meiri og betri þátttöku þátttakenda í íslensku samfélagi
Komi til uppsagnar starfsmanns þurfa að vera málefnalegar ástæður fyrir hendi. Sé um meintar ávirðingar í starfi að ræða, ber yfirmanni að veita áminningu og gefa starfsmanni tækifæri til að tjá sig um málið, nema ávirðingar séu svo alvarlegar að það réttlæti fyrirvaralausa uppsögn. Stefnt skal að því að starfsmenn láti af störfum á því ári sem þeir verða 67 ára. Samherji leggur áherslu á að starfsfólk láti af störfum með jákvæðu hugarfari og er boðið upp á starfslokasamtal við alla þá sem hyggjast hætta hjá Samherja.