Bréf til starfsmanna

Kæru starfsmenn

  • Mál Seðlabankans á hendur stjórnendum Samherja hefur verið fellt niður
  • Niðurstaða málsins er að engin saknæm háttsemi var viðhöfð
  • Ásakanir og húsleit Seðlabankans voru tilhæfulausar
  • Seðlabankinn verður að axla ábyrgð

Fyrir helgi felldi embætti sérstaks saksóknara niður mál á hendur mér og nokkrum starfsmönnum Samherja. Orðrétt kemur fram í bréfi frá embættinu: „Nánar tiltekið taldi embættið að það sem fram kom við rannsókn málsins um ætluð brot og atvik þeim tengd benti ekki til að hugsanleg persónuleg refsiábyrgð [mín] eða annarra kærðra einstaklinga á ætluðum brotum í málinu gæti komið til álita. Þegar af þeirri ástæðu lauk embættið meðferð sinni á viðkomandi sakarefnum málsins enda nægði hún til að útiloka að komið gæti til höfðunar sakamáls vegna ætlaðra brota.“

Ég er afskaplega þakklátur og ánægður að fá þessa niðurstöðu loks í hendur eftir nær fjögurra ára rannsókn. Ég tel niðurstöðuna vera mikinn sigur fyrir okkur og viðurkenningu á faglegum og heiðarlegum störfum okkar. Ég hef ítrekað lýst yfir samstarfsvilja okkar til að upplýsa málið og hef aldrei útilokað að einhvers staðar kynnu að hafa átt sér stað mistök. Hins vegar hef ég alltaf sagt að við höfum unnið eftir bestu vitund. Þetta mál hefði geta klárast mun fyrr ef vilji hefði verið fyrir hendi hjá Seðlabankanum. Hins vegar virðist alltaf hafa verið lengra seilst til að finna höggstað á okkur til að réttlæta þessar hörðu aðgerðir í upphafi.

Rangfærslur og ósannindi

Umfang aðgerða Seðlabankans gaf til kynna að hér væri mjög alvarlegt mál á ferðinni en samt fengum við ekki að vita hverjar ásakanirnar voru. Lagði bankinn hald á gríðarlegt magn af gögnum, vel á annað hundrað kassar voru bornir út auk rafrænna skjala, sem voru um hálf milljón talsins. Þrátt fyrir að við byðum fram aðstoð fengum við ekkert að vita og gátum því hvorki leiðrétt rangfærslur né varið okkur. Í bréfi til starfsmanna þann 28. mars 2012, daginn eftir húsleitina, sagði ég: „Ég skora á Seðlabankann að leggja fram rökstuðning sinn fyrir húsleitinni til að við getum lagt okkar af mörkum til að upplýsa Seðlabankann um þá þætti sem hann vill fá skýringar á og um leið freistað þess að takmarka tjón okkar af þessari harkalegu aðgerð.“

Þegar við fengum loks rökstuðning Seðlabankans fyrir húsleitinni kom í ljós að helstu ásakanirnar byggðust á röngum útreikningum á fiskverði (útreikningar á vegnu meðaltali). Þetta var síðar staðfest í úrskurði héraðsdóms þar sem fram kom að Seðlabankinn hefði ekki reiknað rétt. Þá þegar hefðu stjórnendur Seðlabankans átt að staldra við og íhuga hvert þetta mál stefndi, sem stofnað var til í upphafi á kolröngum forsendum.

Málarekstur Seðlabankans hafði mjög íþyngjandi áhrif á störf okkar allra og yfirlýsing um samstarf miðaði að því að auðvelda starfsfólki Seðlabankans að komast að hinu rétta í málinu áður en skaðinn yrði meiri. Á það var hins vegar ekki hlustað. Það var jafnvel gengið enn lengra í að gera starfsemi okkar tortryggilega og réttlæta þessa aðför Seðlabankans. Til marks um það vil ég nefna að þegar við kröfðumst þess fyrir dómi í maí 2012 að Seðlabankinn skilaði gögnum okkar vegna þess að til húsleitar hefði verið stofnað með rangfærslum, andmælti Seðlabankinn og nefndi til sögunnar tvö atriði til að réttlæta áframhaldandi rannsókn. Bankinn hélt því fram að fundist hefðu gögn við húsleitina sem annars vegar sýndu fram á skort á samstarfsvilja af okkar hálfu sem leiddi til þess að ekki væri unnt að rannsaka málið með öðru og vægara móti og hins vegar gögn sem staðfestu grun þeirra á hendur Seagold, dótturfélagi Samherja í Englandi, varðandi undirverðlagningu.

  • Um fyrra atriðið hélt bankinn því fram að við hefðum vísvitandi haldið frá honum upplýsingum um gjaldeyrisreikning sem Samherji hf. á í norskum banka, sem í rannsóknarskýrslu Seðlabankans var kallaður „Leynireikningurinn“. Kærði bankinn fyrst Samherja og síðar einstakling til sérstaks saksóknara fyrir það. Hið rétta er að bankinn hafði undir höndum upplýsingar um reikninginn eins og aðra reikninga frá Samherja allt frá árinu 2009, á því formi sem bankinn hafði látið Samherja í té. Bankanum var því fyllilega kunnugt um tilvist og stöðu reikningsins. Bankinn hafði þessi gögn undir höndum þegar hann hélt fram ásökunum bæði fyrir dómi og síðar í kærum til sérstaks saksóknara. Eftir að við fengum loks aðgang að gögnunum tæplega tveimur árum seinna sáum við samstundis að ekki var fótur fyrir þessum ásökunum og staðfesti sérstakur saksóknari strax bréflega að kærur Seðlabankans væru sannarlega rangar.
  • Seðlabankinn hefur orðið margsaga um stöðu Seagold. Fyrst hélt bankinn því fram fyrir dómstólum að Seagold væri grunað um að kaupa fisk á of lágu verði. Því næst hélt bankinn því fram að hann hefði fundið gögn sem staðfestu grun sinn um kaup félagsins á fiski á verulegu undirverði. Þvert á þá fullyrðingu taldi bankinn síðar í viðamikilli  skýrslu að gögnin hefðu sýnt fram á að viðskipti Seagold hefðu verið fullkomlega eðlileg og í raun skilað fremur góðu verði til Íslands. Í samskiptum við bankann síðastliðið vor tók steininn úr þegar Seðlabankinn, þvert á fyrri fullyrðingar, staðhæfði skriflega að Seagold hefði aldrei verið grunað um brot!

Óeðlilegir starfshættir

Fyrir tæpum fjórum árum fór Seðlabankinn af stað með látum og offorsi inn á skrifstofur Samherja. Þess var gætt að fjölmiðlar voru mættir við skrifstofur félagsins með myndavélar á undan starfsmönnum Seðlabankans auk þess sem bankinn sendi út tilkynningu um allan heim á íslensku og ensku fljótlega eftir að húsleitin hófst. Allt var gert til að draga upp þá mynd af okkur í fjölmiðlum að við værum glæpamenn.

Sem dæmi um offorsið sat ég í yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara vegna kæru Seðlabankans þar sem ég var ásakaður um alvarlegt og gróft brot yfir langt tímabil sem fólst í að selja samtals 5 tonn af bleikju á 39 mánaða tímabili, á verði sem var tveimur milljónum króna of lágt að mati Seðlabankans. Þegar ég bað um gögn til rökstuðnings kæru Seðlabankans um verð annarra útflytjenda á bleikju til Þýskalands kom í ljós að engin slík gögn voru til þar sem enginn annar seldi bleikju til Þýskalands á sama tímabili. Þess í stað sýndi starfsmaður sérstaks saksóknara mér skýrslu Seðlabankans þar sem bankinn bar saman verð á bleikju, sem við seldum til Finnlands, við 5 tonnin sem seld voru til Þýskalands. Til að fá sem neikvæðasta niðurstöðu úr þessum samanburði varð Seðlabankinn að horfa framhjá gjörólíkum afhendingarskilmálum og mismunandi markaðsaðstæðum. Í öðru tilfellinu var búið að byggja upp markað og í hinu tilfellinu var verið að reyna að búa til nýjan markað. Yfirheyrslan fór fram tæpum tveimur árum eftir að stofnað var til málsins og nokkrum mánuðum eftir að seðlabankastjóri tilkynnti mér í gegnum hádegisfréttir fjölmiðils að hann hefði kært mig til sérstaks saksóknara.

Eins og þetta einfalda dæmi sýnir hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta mál eða leysa það fyrr. Í hvert sinn sem við fengum aðgang að gögnum málsins var unnt að sýna fram á að ásakanir bankans voru ekki á rökum reistar. Þessi vinnubrögð horfa þannig við mér að markmiðið hafi fyrst og fremst verið að valda okkur skaða frekar en að sannreyna ásakanir um meint lögbrot.

Því miður stukku margir á vagninn með Seðlabankanum. Hef ég oft þurft að horfa upp á að vegið sé á ósmekklegan hátt að mannorði mínu og ykkar starfsmanna á opinberum vettvangi. Ég hef oft sagt að tjónið sem af þessu hefur hlotist er gríðarlegt. Mér er ekki efst í huga fjárhagslegt tjón heldur hvernig þessar skipulögðu ofsóknir hafa spillt orðspori okkar um allan heim.

Fordæmalaus misbeiting valds

Mitt mat er að innrás Seðlabankans og sú atburðarás sem fylgdi í kjölfarið sé fordæmalaus misbeiting á valdi sem gerð var á skipulegan hátt til að valda sem mestu tjóni.

Frá upphafi hef ég sagt að rannsókn Seðlabankans væri tilhæfulaus. Þann 28. mars 2012 sagði ég: „Hjá Samherja hefur í einu og öllu verið farið að lögum hvort sem það varðar gjaldeyrisviðskipti eða önnur málefni. Þessar aðgerðir Seðlabankans í dag eru tilefnislausar og hljóta að vera byggðar á röngum upplýsingum eða öðrum ástæðum sem okkur er ekki kunnugt um hverjar eru. Svo harkalegar og ómálefnalegar aðgerðir af hálfu Seðlabanka Íslands hljóta að vera einsdæmi og lýsum við fullri ábyrgð á hendur þeim sem að þeim standa.“

Samkvæmt ársskýrslum Seðlabankans kærði bankinn á annað hundrað mál til lögreglu sem bankinn mat sem meiri háttar brot á gjaldeyrislögum á árunum 2012-2013. Lögreglan féllst ekki á afstöðu Seðlabankans og hefur ekki verið gefin út ákæra í einu einasta gjaldeyrismáli. Ég veit ekki til þess að neinu þeirra hafi lokið með álagningu stjórnvaldssektar af hálfu bankans.

Því miður eru, eins og í okkar tilfelli, oft margir einstaklingar og fjölskyldur á bakvið hvert mál. Margir hverjir hafa þurft að bera þá þungu byrði að vera kærðir til sérstaks saksóknara fyrir meiri háttar brot sem löngu síðar kemur í ljós að hafi ekki verið fótur fyrir. Eftir stendur skaðað mannorð og fjárhagslegt tjón sem aldrei fæst bætt.

Löngu tímabært er að æðsta stjórn bankans axli ábyrgð með því að grípa inn í og stöðva þessa misbeitingu valds og kalli menn til ábyrgðar til að tryggja að svona lagað endurtaki sig ekki. Ég hyggst senda bankaráði opið bréf þess efnis á næstu dögum.

Niðurfelling byggir á efnislegri niðurstöðu

Seðlabankinn hefur reynt að breiða yfir aðgerðir sínar í máli þessu með því að vísa til óskýrleika laga sem afsökun fyrir niðurfellingu sérstaks saksóknara. Þetta er ekki rétt. Bankinn þekkti lögin. „Misskilningur“ Seðlabankans hvað eigin lög varðar kristallast ef til vill best í því að sérstakur saksóknari finnur að því að bankinn skuli búa til ný hugtök sem fyrirfinnast ekki „í lögum um gjaldeyrismál eða neinni annarri íslenskri löggjöf né að það væri á annað borð þekkt í íslenskri réttarframkvæmd“, líkt og fram kemur í bréfi sérstaks saksóknara.

Aftur vil ég ítreka við ykkur, að eftir mikla og nákvæma rannsókn sérstaks saksóknara var niðurstaðan skýr: ekkert kom fram við rannsókn málsins sem benti til saknæmrar háttsemi minnar eða annarra starfsmanna Samherja. Byggði niðurfelling málsins eingöngu á þeirri efnislegu niðurstöðu embættisins.

Kæru starfsmenn. Að lokum vil ég þakka ykkur fyrir stuðninginn í gegnum þetta erfiða mál. Hann hefur verið mér mjög mikilvægur.

Þorsteinn Már Baldvinsson

 

Bréf Þorsteins Más Baldvinssonar og Kristjáns Vilhelmssonar, dags. 4. apríl 2012: http://www.samherji.is/is/frettir/getAllItems/1/bref-til-starfsmanna

Bréf Sigurðar Ólasonar, dags. 6. janúar 2014:

http://www.samherji.is/is/frettir/getAllItems/1/sedlabanki-islands-reiknar-aftur-vitlaust

Bréf Gústafs Baldvinssonar, dags. 13. febrúar 2014:

http://www.samherji.is/is/frettir/getAllItems/1/asakanir-sedlabanka-islands-a-hendur-seagold-rangar