ÚA fiskþurrkun á Laugum í Reykjadal gegnir mikilvægu hlutverki í atvinnulífinu á staðnum, starfsmenn eru hátt í tuttugu. Þar fer fram þurrkun allra hausa og hryggja sem til falla hjá fiskvinnslu ÚA á Akureyri og eru afurðirnar seldar til Nígeríu. Að jafnaði fara tveir fjörutíu feta gámar á viku frá Laugum til Nígeríu. Vinnslustjórinn segir að ferskleiki hráefnisins hafi tekið stórstígum framförum á undanförnum árum.
Á síðasta ári bárust 7.700 tonn til þurrkunar á Laugum, sem er svipað magn og árið á undan. Pétur Hafsteinn Ísleifsson stýrir vinnslunni á Laugum. Hann segir að jarðhitinn á svæðinu geri það að verkum að hagstætt sé að vera með slíka vinnslu á staðnum og hann segir að með árunum hafi byggst upp verðmæt verkkunnátta starfsfólksins.
40 þúsund tonn af heitu vatni
„Ég hef starfað hérna í ellefu ár en margir eru með mun lengri starfsaldur en ég, sem segir okkur að líklega er þetta góður vinnustaður. Margir spyrja sig hvers vegna slík vinnsla sé langt inni í landi og svarið er að hérna er nóg af heitu vatni en við erum að nota um það bil 40 þúsund tonn af heitu vatni á mánuði og erum því langstærsti notandinn á svæðinu,“ segir Pétur Hafsteinn.
Umhverfisvæn framleiðsla
Pétur segir að vinnslugetan sé um 180 til 200 tonn af hausum og hryggjum á viku og unnið alla virka daga vikunnar.
„Þetta þýðir að blásararnir eru í gangi nánast alla daga ársins. Hryggirnir eru tilbúnir til útflutnings eftir um fjóra sólarhringa en hausarnir eru tilbúnir til pökkunar eftir 12 daga. Tölvukerfið sér um að stýra þurrkferlinu en hráefnið má ekki þorna of hratt né vera of þurrt eða blautt. Nei, þetta telst ekki vera mjög flókin starfsemi, en hún krefst verkþekkingar. Mannauðurinn hérna skiptir miklu máli og svo auðvitað heita vatnið og rafmagnið, þetta er að miklu leyti umhverfisvæn framleiðsla."
Allt önnur staða
„Það hefur orðið gríðarleg breyting á ferskleika hráefnisins á nokkrum árum, núna eru togararnir að landa fiski eftir þriggja til fimm sólarhringa túra og kælikerfi skipanna eru auk þess mjög öflug. Þetta gerir okkur kleift að framleiða gæðaafurðir og kaupendurnir eru hæstánægðir. Þetta er mikil breyting miðað við á árum áður er úthald skipa var lengra og biðin í hráefniskælum einnig, við getum í raun og veru talað um byltingu. Þetta þýðir líka að lyktin sem óhjákvæmilega fylgir slíkri starfsemi er ekki lengur teljandi vandamál.“
Stöðugur útflutningur
"Útflutningur er stöðugur, héðan fara vikulega tveir fjörutíu feta gámar og kaupendurnir eru hæstánægðir með gæðin. Framleiðslan á þessu ári verður ósköp svipuð og á undanförnum árum, enda stöðugleikinn nauðsynlegur, bæði fyrir okkur og kaupendurna í Nígeríu,“ segir Pétur Hafsteinn Ísleifsson verkstjóri fiskþurrkunar ÚA á Laugum í Reykjadal.