Fróðleg umfjöllun um nýtt vinnsluhús Samherja á Dalvík
Í nýjasta hefti tímaritsins Sóknarfæris er afar fróðleg umfjöllun um nýtt hátæknivinnsluhús Samherja á Dalvík en um er að ræða eitt fullkomnasta vinnsluhús í heiminum í bolfiskvinnslu.
Í tímaritinu er meðal annars rætt við Atla Dagsson, tæknistjóra landvinnslu Samherja um þær tækninýjungar sem eru í húsinu, sem var tekið í notkun hinn 14. ágúst síðastliðinn. Atli sagði það hafi verið mikla áskorun fyrir starfsmenn Samherja að taka þátt í að hanna og byggja nýja vinnsluhúsið frá grunni, sem er það eina sinnar tegundar í heiminum. „Okkar viðmiðun var að húsið afkasti að minnsta kosti 12 tonnum af hráefni á klukkustund,“ segir Atli í viðtalinu en Samherji á Dalvík hefur aðallega unnið þorsk og ýsu. Með nýja húsinu bætast við fleiri vinnslumöguleikar og sérhæfðar lausnir sem byggja á nýsköpun og frumkvöðlastarfi íslenskra hátæknifyrirtækja í samstarfi við Samherja.
Nýjasta hefti Sóknarfæris, með umfjöllun um nýja vinnsluhúsið og viðtali við Atla, má nálgast með því að smella á myndina hér fyrir neðan.