Það er alrangt sem haft er eftir Jóhanni Ársælssyni alþingismanni að Samherji hf. hafi leigt frá sér rúmlega 4.800 þíg.tonn á síðasta fiskveiðiári, eins og fullyrt er að haldið sé fram í svari við fyrirspurn Jóhanns Ársælssonar sem birt verður á Alþingi í dag. Það er illskiljanlegt hvernig slíkar upplýsingar geta ratað inn á Alþingi og leitt að horfa upp á hvernig þingmaður reynir að nýta sér þær til að þyrla upp pólitísku moldviðri, sjálfum sér til framdráttar.
Hið rétta í málinu er eftirfarandi:
1. Samherji sameinaðist útgerðarfyrirtækinu BGB-Snæfell hf. á síðasta fiskveiðiári. Svo virðist sem gleymst hafi að gera ráð fyrir þeirri ráðstöfun þegar svarið við fyrirspurn Jóhanns var unnið, en þegar búið er að taka tillit til þess o.fl. lækkar svonefnd "kvótaleiga Samherja" niður í 2.290 þíg.tonn. Mönnum hefur þarna sést yfir ríflega 2.500 þíg.tonn.
2. Aflaheimildir frá Samherja voru geymdar hjá öðrum fyrirtækjum yfir kvótaáramót. Algengt er að fyrirtæki geymi aflamark hvert fyrir annað til þess að forðast að það falli niður. Á síðasta fiskveiðiári voru ríflega 400 þíg.tonn geymd fyrir Samherja með þessum hætti hjá öðrum fyrirtækjum, frá 31. ágúst til 1. september, þ.e. yfir kvótaáramótin, en síðan flutt til baka. Vart þarf að taka fram að Samherji fékk ekki greiðslur frá fyrirtækjunum vegna þessa.
3. Samherji og Skipaklettur hf. gerðu saman út eitt skip Samherja og voru heimildir Skipakletts veiddar og vistaðar á Víði EA. Skipaklettur hf. var síðan sameinaður Síldarvinnslunni hf. og í tengslum við þetta varð tilflutningur á aflaheimildum sem er sögð kvótaleiga á 900 þíg.tonnum, sem er í raun ekki leiga, enda hafði Samherji engar tekjur af þessum tilfærslum.
4. Samherji tók á leigu loðnuskipið Sunnutind og gerði út til loðnuveiða á síðasta fiskveiðiári. Samherji flutti á skipið loðnukvóta að jafngildi 673 þíg.tonn og er sú ráðstöfun túlkuð sem kvótaleiga, sem er alrangt, enda flutti Samherji eigin heimildir á skip sem fyrirtækið gerði út sjálft.
5. Þá standa eftir rúmlega 250 þíg.tonn, og er þá eftir að nefna að Samherji leigði að auki til sín verulegt magn af úthafskarfa, þorski og síld við Noreg á þessu fiskveiðiári sem að engu er getið í framangreindum tölum.
Velta Samherja síðustu 15 mánuði var um 16 milljarðar króna, en áhrif kvótaleigu á hagnað fyrirtækisins eftir skatta eru rúmar 20 milljónir króna. Þetta er um 0,1% af tekjum Samherja og augljóst er að sú fjárhæð vegur ekki þungt í rekstri félagsins. Það er því fráleitt af Jóhanni Ársælssyni að halda því fram í DV á laugardaginn að þetta sé "drjúgur hluti í góðri rekstrarafkomu" eins og hann kemst að orði.