Góður túr Björgvins í Barentshafi

Björgvin EA 311, frystitogari Samherja, kom til hafnar í Tromsö í Noregi í gærmorgun eftir vel heppnaða veiðiferð í Barentshafi. Afli skipsins er um 600 tonn af þorski sem fékkst innan rússnesku lögsögunnar. Aflaverðmætið nemur tæpum 110 milljónum króna og má fullyrða að þetta sé besti túr sem íslenskt skip hefur gert í Barentshaf frá því að gengið var frá samningum um veiðar Íslendinga á þessu svæði.

Björgvin hefur verið við veiðar í Barentshafi síðan í júlí sl. og var þetta þriðja veiðiferð skipsins. Nemur aflaverðmæti skipsins á þessum tíma um 300 milljónum króna. Skipstjóri að þessu sinni var Sigtryggur Gíslason og sagði hann aflann hafa fengist mjög austarlega, eða um 600 sjómílur frá Tromsö, á svokölluðum Gæsabanka. „Þetta var að mörgu leyti mjög góður túr. Við vorum einir þarna nánast allan tímann og náðum að halda fiskinum vel undir sem við erum nokkuð montnir af. Það hefur einnig komið manni á óvart hvað þetta er stór og góður fiskur," segir Sigtryggur. Veiðiferðin tók 36 sólarhringa en þar af fóru 6 sólarhringir í siglinu og var hásetahlutur eftir túrinn er um 1,3 milljónir króna. Í áhöfn skipsins eru 22 menn, heldur færri en vanalega, og hefur vinnslan gengið afar vel á tímabilinu.

Fer aftur á miðin

Eftir því sem næst verður komist er Björgvin eini íslenski togarinn sem stundar þessar veiðar en Sigtryggur segist vera í ágætu sambandi við bæði rússnesk og færeysk skip. Rússana segir hann raunar flesta búna með þorskkvótann og farna að stunda ýsuveiðar mun grynnra en þær veiðar eru frjálsar á þessu svæði.
Sem fyrr segir hefur Björgvin veitt í Barentshafinu frá því í júlí, fyrst innan norskrar lögsögu en síðan í þeirri rússnesku. Ráðgert er að halda aftur til veiða í kvöld, sem verður síðasta veiðiferðin í Barentshaf á þessu ári þar sem kvótinn er farinn að minnka, sérstaklega innan rússnesku lögsögunnar. Sigtryggur lætur vel af veiðiskapnum en segir útiveruna erfiða, sérstaklega þar sem öll fjarskipti eru bæði erfið og dýr sökum mikilla fjarlægða. Menn eru því með háa símareikninga eftir hverja ferð.