Rekstrartekjur samstæðunnar fyrstu níu mánuði ársins námu 9.738 milljónum króna, rekstrargjöld voru 7.242 milljónir og hagnaður án afskrifta og fjármagnsliða nam því 2.496 milljónum króna eða sem svarar 26% af rekstrartekjum. Afskriftir námu 693 milljónum og fjármagnsliðir voru jákvæðir um 576 milljónir króna, en þar munar mest um gengishagnað upp á 820 milljón króna sem er verulegur viðsnúningur frá sama tíma í fyrra en þá var gengistap í fjármagnsliðum upp á 1.377 milljónir króna.
Hagnaður fyrir skatta var 2.379 milljónir króna og hagnaður tímabilsins, að teknu tilliti til skatta 1.950 milljónir. Veltufé frá rekstri var á tímabilinu 2.003 milljónir króna eða sem svarar 21% af rekstrartekjum.
Ekki er beitt verðleiðréttingum í reikningsskilum í samræmi við ákvörðun stjórnar félagsins. Ef beitt hefði verið sömu reikningsskilaaðferðum og árið áður hefði hagnaður félagsins verið 56 milljónum króna hærri auk þess sem eigið fé félagsins væri 193 milljónum króna hærra en fram kemur í árshlutareikningnum.
Efnahagur
Heildareignir Samherja hf. í septemberlok voru bókfærðar á 21,3 milljarð króna. Þar af eru fastafjármunir tæplega 15,4 milljarðar og veltufjármunir 5,9 milljarðar. Skuldir félagsins námu rúmlega 13 milljörðum króna og eigið fé var 8,3 milljarðar. Eiginfjárhlutfall var í lok september tæp 39% og veltufjárhlutfall 1,21.
Eignabreytingar
Miklar eignabreytingar hafa einkennt árið. Fjárfestingar í eignarhlutum á tímabilinu námu 3.463 milljón króna. Helst ber að nefna að fjárfest var í Síldarvinnslunni hf. fyrir 1.320 milljónir króna og á Samherji nú 20,8% eignarhlut í félaginu. Keypt voru hlutabréf fyrir um 709 milljónir króna í SR-Mjöli eða sem svarar tæpum 13% í því félagi. Fjárfesting í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. var rétt um 290 milljónum króna og á Samherji nú tæp 50% eignarhlut í HÞ. Þá eignaðist félagið ríflega 16% eignarhlut í fjárfestingarfélaginu Kaldbak hf. fyrir um 794 milljónir króna.
Þá hafa verið gerðar allnokkrar breytingar á skipastól félagsins. Baldvin Þorsteinsson EA-10 sem verið hefur flaggskip félagsins var seldur á tímabilinu auk Kambarastar EA. Þá var Akureyrin EA-110 sem var fyrsti frystitogari félagsins seld í októbermánuði. Í ágúst fjárfesti félagið í Sléttbak EA sem fengið hefur nafnið Akureyrin EA-110 og var fjárfesting vegna þess ríflega 200 milljónir króna. Ennfremur keypti félagið Hannover frá þýska félaginu DFFU, en skipið hefur fengið nafnið Baldvin Þorsteinsson EA-10. Skipið er nú í lengingu í Lettlandi og búast má við því inn í flota félagsins á næstunni og nemur fjárfesting vegna þess um 1.275 milljónum króna í lok september. Þá var ennfremur lokið við breytingar á Þorsteini EA-810 og var fjárfesting vegna þess ríflega 220 milljónir króna.
Af öðrum fjárfestingum sem vert er að nefna, var fjárfest í Sæsilfri hf. í Mjóafirði fyrir 140 milljónir króna á tímabilinu
Afkoman
“ Við erum tiltölulega sátt við afkomu félagsins en þriðji ársfjórðungur er að jafnaði slakasti hluti ársins í rekstri Samherja m.a. vegna sumarlokana í landvinnslu. Hins vegar er framlegð fyrstu níu mánuði ársins í takt við áætlanir sem birtar voru á aðalfundi félagsins en rekstrarniðurstaða tímabilsins er hins vegar betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, vegna styrkingar íslensku krónunnar. Samherji hefur á árinu staðið í miklum fjárfestingum en gerðar hafa verið breytingar á skipastól félagsins, auk þess sem félagið hefur fjárfest í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum og við væntum þess að þessar fjárfestingar komi til með að skila félaginu betri afkomu til framtíðar og erum því bjartsýn á rekstur félagsins” segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Helstu lykiltölur úr rekstri Samherja hf. má finna hér.
Fréttatilkynning frá Samherja hf. þriðjudaginn 26.nóvember 2002. Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, í síma 460 9000.