Hákon Þ. Guðmundsson útgerðarstjóri Samherja var kjörinn í stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) á ársfundi samtakanna, sem haldinn var föstudaginn 6. maí sl. Hann þekkir vel til SFS, var í stjórn 2019-2020 og hefur tekið þátt í málefnavinnu og stefnumótun á vegum samtakanna, meðal annars á sviði umhverfismála.
Hákon er menntaður skipstjórnarmaður og var í liðlega tvo áratugi skipstjóri á skipum Samherja. Síðustu fimmtán árin hefur hann starfað á útgerðarsviði Samherja.
Frumkvöðlastarf áberandi í sjávarútvegi
„Ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt með því að kjósa mig í stjórn SFS. Sjávarútvegur er á margan hátt burðarás efnahagslífs þjóðarinnar, sérstaklega úti á landi, svo sem hérna á Eyjafjarðarsvæðinu. Greinin er frumkvöðull í innleiðingu margra tækninýjunga og hefur skapað ný störf á sviði hátækni. Ágæt dæmi um þetta eru fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík og skipafloti Samherja. Íslenskur sjávarútvegur er mjög framarlega á heimsvísu á mörgum sviðum og ef rétt er á spilunum haldið, höfum við alla burði til að halda þeirri stöðu.
Fram undan hjá SFS eru verkefni tengd og stuðningur við uppbyggingu fiskeldisgreinarinnar s.s. betri skilvirkni í reglugerðum og raunréttri vísindalegri nálgun. Í þeirri grein er klárlega vöxtur til framtíðar, sem styrkt getur betur dreifðari byggðir ef rétt er haldið á spöðunum.“
Ábyrg og góð umgengni um auðlindina
Hákon hefur mjög látið að sér kveða á sviði umhverfismála í störfum sínum, bæði fyrir Samherja og einnig á vettvangi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Samkvæmt yfirlýsingu stjórnvalda og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem undirrituð var í 3. júlí 2020 er stefnt að því að draga úr losun frá sjávarútvegi og auka eftirspurn eftir heilnæmum íslenskum fiski með samstarfi stjórnvalda og atvinnugreinarinnar.
Alltaf nokkur verkefni í gangi á sviði umhverfismála
„Það er engum blöðum um það að fletta að ábyrg og góð umgengni um sjávarauðlindina er skilyrði fyrir því að áfram verði hægt að nýta fiskistofnana með sjálfbærum hætti. Einn þátturinn er til dæmis að reka skilakerfi fyrir veiðarfæraúrgang með þann tilgang að koma honum til endurvinnanlegrar úrvinnslu. Samherji stendur mjög framarlega í þessum efnum og ég held að sjávarútvegsfyrirtækin almennt séu meðvituð um að þau verða að vera ábyrgur hluti af hringrásarhagkerfinu. Það hafa sannarlega verið stigin stór skref í umhverfismálum og við verðum að halda áfram á þeirri braut. Hérna hjá Samherja eru alltaf nokkur verkefni í gangi á sviði umhverfismála, enda er markmiðið alltaf hið sama, starfa í sem bestri sátt í umhverfið. Þannig er Samherji með sérstaka umhverfisstefnu og fyrirtækið hefur fengið viðurkenningar frá mörgum viðurkenndum vottunaraðilum.“
Greinin á allt sitt undir skilyrðum í hafinu
„Sjávarútvegurinn á í raun og veru allt sitt undir skilyrðum í hafinu og þar með íslenskt atvinnulíf að stórum hluta. Góð og skynsamleg umgengni um hafið og fiskveiðar í sátt og samlyndi við náttúruna eru forsenda þess að stofnarnir hér við land verði áfram nýttir til framtíðar. Þessar áherslur koma berlega í ljós í öllum stefnumálum SFS,“ segir Hákon Þ. Guðmundsson.