Vinnsla fór af stað í frystihúsi Samherja hf. í Grindavík í dag, en Háberg GK landaði tæpum 600 tonnum að loðnu í gær til hrognatöku. Seley ÞH sem Samherji hefur haft á leigu í hráefnisflutningum, kemur til með að flytja það sem gengur af, til bræðslu annars staðar...
Hér er verið að landa úr Háberginu og Seleyjan (til hægri) bíður þess að taka við hratinu til flutnings.
Mynd: G.Þorsteinn Kristjánsson
|
Vinnsla fór af stað í frystihúsi Samherja hf. í Grindavík í dag, en Háberg GK landaði tæpum 600 tonnum að loðnu í gær til hrognatöku. Seley ÞH sem Samherji hefur haft á leigu í hráefnisflutningum, kemur til með að flytja það sem gengur af, til bræðslu annars staðar.
Í kjölfar brunans í fiskimjöls-verksmiðjunni fyrir tæpum þremur vikum síðan, hefur verið unnið að því að leita leiða til að hrognavinnsla geti hafist, enda mikið í húfi bæði fyrir fyrirtækið og ekki síður bæjarfélagið. Starfsmenn sem koma að löndun, hrognatöku og frystingu eru alls um 30. Þeir starfsmenn verksmiðjunnar, sem ekki fóru til vinnu í öðrum verksmiðjum eftir brunann, sjá um löndun og hrognatöku og síðan eru um 20 manns að hreinsa og frysta hrognin í frystihúsinu. Eftir hrognatökuna fer hratið í hráefnisgeymslu, þaðan er því dælt um borð í flutningaskipið, sem flytur það til bræðslu annarsstaðar. Loðnan úr Háberginu veiddist við Vestmannaeyjar og er Óskar Ævarsson rekstrarstjóri Samherja hf. í Grindavík vongóður um að hrognafylling loðnunnar fari að aukast og að hrognafrystingin komi til með að ganga vel þrátt fyrir áfallið í bræðslunni.
Óskar sagði menn einnig vera á fullu við að hreinsa til eftir brunann og svo endanlegt mat á tjóninu liggi fyrir eins fljótt og hægt er. "Viðbrögð fólks hafa verið ótrúlega sterk og menn sýnt okkur mikinn velvilja og samhug, sem ég er mjög þakklátur fyrir. Það er sama hvort Grindvíkingar eru á íþróttakappleik eða lenda í áfalli, þeir standa saman sem einn maður," sagði Óskar, sem hefur í nógu að snúast þessa dagana. /span>