Jöfn laun kvenna og karla staðfest

Fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík/mynd samherji.is
Fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík/mynd samherji.is

Samherji Ísland, Útgerðarfélag Akureyringa og Samherji fiskeldi hafa fengið formlega jafnlaunavottun, þar sem staðfest er að félögin uppfylla kröfur um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Samherji Ísland og Útgerðarfélag Akureyringa höfðu áður hlotið slíka vottun, Samherji fiskeldi fær slíkan stimpil í fyrsta sinn. Jafnréttisstofa hefur umsjón með umsýslu jarnréttisvottunar og jafnlaunastaðfestingar, samkvæmt lögum.

Virkt stjórnunarkerfi í jafnréttismálum

Með útgáfu jafnlaunavottunar er staðfest að stjórnunarkerfi viðkomandi fyrirtækis virki sem skyldi, en kerfið á að tryggja að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér launabundna kynjamismunun.

Jafnlaunamerkið

BSI á Íslandi, sem er faggiltur vottunaraðili, tók út jafnlaunakerfi fyrirtækjanna í vetur og formlegar staðfestingar voru gefnar út í byrjun febrúar. Jafnframt er viðkomandi fyrirtækjum heimilt að nota sérstakt jafnlaunamerki næstu þrjú árin.

Staðfesting á jafnrétti

„Við erum mjög ánægð með að hafa fengið vottunina sem staðfestir að við erum að greiða starfsfólki í sambærilegum störfum jöfn laun, óháð kyni. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er einmitt að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Nú höldum við áfram að innleiða kerfið í önnur fyrirtæki í samstæðu Samherja, enda gilda þar sömu reglur varðandi jöfn laun og jafnan rétt kvenna og karla,“ segir Anna María Kristinsdóttir starfsmannastjóri Samherja.