Landlax og Landbleikja frá Samherja fiskeldi í íslenskar verslanir

Birgir Össurarson sölu- og markaðsstjóri í einni verslun Bónus / myndir samherji.is
Birgir Össurarson sölu- og markaðsstjóri í einni verslun Bónus / myndir samherji.is

Hafin er sala á ferskum Landlaxi og ferskri Landbleikju frá Samherja fiskeldi á íslenskum neytendamarkaði undir eign nafni. Samherji fiskeldi starfrækir einungis landeldsstöðvar og kemur að öllum stigum eldis og vinnslu á laxi og bleikju, allt frá hrognum til neytenda.

Neytendur vel upplýstir – Allar stöðvar með alþjóðlegar vottanir

Birgir Össurarson sölu- og markaðsstjóri Ice Fresh Seafood, sem annast sölu afurða Samherja, segir þetta ánægjuleg tímamót.

„Við teljum skynsamlegt að merkja vöruna sem best og undirstrika þannig gæða íslenskan Landlax og íslenska Landbleikju. Síðast en ekki síst viljum við að neytendur séu vel upplýstir um uppruna vörunnar, framleiðsluhætti og fleiri mikilvæga þætti. Samherji fiskeldi hefur framleitt landeldisfisk í um tvo áratugi. Allar stöðvar fyrirtækisins eru með alþjóðlegar vottanir og einungis er notast við gæða fóður í eldinu og öllum þáttum er stýrt með það að leiðarljósi að tryggja bestu mögulegu eldisaðstæður fyrir fiskinn. Sala á laxi og bleikju á kröfuhörðum alþjóðlegum mörkuðum hefur gengið vel og ég er sannfærður um að neytendur fagna þessum áherslubreytingum,“ segir Birgir Össurarson sölu- og markaðsstjóri Ice Fresh Seafood.

Sala hafin í verslunum

Ferskur Landlax og fersk Landbleikja frá Samherja fiskeldi fást nú þegar í nokkrum verslunum og fleiri bætast við á næstu dögum. Norðanfiskur ehf á Akranesi annast dreifingu þessara afurða.