Morgunblaðið fjallar í dag um samantekin reikningsskil félaga á vegum Samherja í Namibíu undir fyrirsögninni „Ekkert arðrán átt sér stað.“ Í frétt blaðsins kemur fram að á árunum 2012-2018 hafi félög tengd Samherja greitt namibískum fyrirtækjum, samstarfsaðilum og ríkissjóði Namibíu samtals rúmlega 21 milljarð króna á gengi dagsins. Þannig hafi miklum verðmætum verið skilað inn í namibískt samfélag á þeim árum sem félögin voru í rekstri. Í umfjöllun blaðsins eru einnig rifjuð upp ýmis ummæli sem voru látin falla, um reksturinn í Namibíu, í nóvember á síðasta ári. Umfjöllun blaðsins fer hér á eftir:
Baksvið
Stefán E. Stefánsson
Tap af starfsemi Samherja í Namibíu á árunum 2012-2018 nam jafnvirði 950 milljóna króna. Þetta kemur fram í samanteknum reikningsskilum þeirra fyrirtækja sem Samherji starfrækti í landinu á fyrrnefndu tímabili og Morgunblaðið hefur fengið aðgang að.
Í liðinni viku sendi fyrirtækið frá sér tilkynningu um að rannsókn norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein á starfsemi Samherja í Namibíu væri lokið og að á næstunni yrði gerð frekari grein fyrir einstökum þáttum er tengjast þeim ásökunum sem bornar hafa verið á fyrirtækið, stjórnendur þess og starfsfólk á undanförnum mánuðum.
Hófu rannsóknina í fyrra
Rannsóknin hefur staðið yfir frá því forsvarsmenn Samherja fengu upplýsingar um að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi yfirmaður starfseminnar í Namibíu hefði leitað til fjölmiðla og lagt fram alvarlegar ásakanir á hendur núverandi og fyrrverandi stjórnendum fyrirtækisins.
»Uppgjörið sýnir að ekki er fótur fyrir þeim alvarlegu ásökunum sem settar voru fram á hendur Samherja vegna starfseminnar í Namibíu. Ásökun um arðrán í Namibíu var mjög þungbær fyrir stjórnendur Samherja,« segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri fyrirtækisins.
Hann bendir á að rekstrartekjur dótturfélaga Samherja í landinu á fyrrnefndu tímabili hafi numið 41,1 milljarði króna. Rekstrarkostnaður hafi hins vegar numið 38,9 milljörðum króna.
»Greiðslur til namibískra aðila á tímabilinu námu rúmlega 21 milljarði króna á gengi dagsins í dag.« Stærsti útgjaldaliður fyrirtækisins hafi verið vegna launa, greiðslna til namibískra samstarfsaðila og veiðigjalda til namibíska ríkisins. Þannig hafi greiðslur til samstarfsfélaga (e. joint ventures) í eigu Namibíumanna, namibíska ríkisins og annarra kvótahafa numið 29,3% af heildarveltunni eða jafnvirði 12 milljarða króna.
»Hlutfall veiðigjalda og launa á tímabilinu nam 51% af innlendum rekstrarkostnaði. Stærsti hluti rekstrarkostnaðar utan Namibíu hafi verið vegna launagreiðslna til skipverja, eldsneytis, leigu á skipum og viðhalds þeirra,« segir Björgólfur í samtali við Morgunblaðið.
Vonast eftir sanngjarnri umfjöllun í kjölfar birtingarinnar
»Við bindum vonir við að birting þessara upplýsinga um reksturinn í Namibíu leiði til þess að umfjöllun verði sanngjarnari og byggi á staðreyndum,« segir Björgólfur. Þótt samantekin fyrrnefnd reikningsskil sýni að tap af umsvifum Samherja í Namibíu nemi 950 milljónum króna má gera ráð fyrir að það geti aukist enn að sögn Björgólfs. Þannig hafi félög innan samstæðu Samherja þurft að lána dótturfélögum í Namibíu rekstrarfé og stór hluti þeirra hafi enn ekki fengist endurgreiddur. Fyrirséð sé að umtalsverður hluti þeirra muni ekki endurheimtast.
»Öllum rekstri í Namibíu var hætt í árslok 2019 og er nú unnið að lokafrágangi. Og þá mun þetta skýrast betur,« segir Björgólfur.
Þingmenn og fleiri létu til sín taka í umræðunni.
Miðstjórn ASÍ fordæmdi meint arðrán Samherja í Namibíu með ályktun 20. nóvember 2019 í kjölfar þess að Ríkissjónvarpið og Stundin fjölluðu um starfsemi fyrirtækisins og ásakanir á hendur fyrirtækinu.
Þá hafði Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri fullyrt í grein sem birt var á vefsvæði Stundarinnar þann 14. sama mánaðar að fyrirtækið hefði stundað »auðlindarán« í Afríkuríkinu. Sama dag lét Smári McCarthy, þingmaður Pírata, þau ummæli falla í þingræðu að sannanir um »skipulagt arðrán á auðlindum annarrar þjóðar« lægju fyrir.
Mun fleiri lögðu orð í belg, ekki síst á samfélagsmiðlum. Meðal dæma þar um var athugasemd Halldórs Guðmundssonar, rithöfundar og fyrrverandi forstjóra Hörpunnar á Twitter. Þar sagði hann: »Það versta í þessu eru ekki múturnar, heldur hvernig markvisst er unnið að því að engin verðmæti verði eftir í landinu sem var þungamiðja þróunaraðstoðar Íslendinga um tíma.«