Samherji kynnti starfsemi félagsins á Starfamessu 2023

Sunneva Ósk Guðmundsdóttir framleiðslustjóri landvinnslu ÚA ræðir við áhugasama gesti á bás Samherja…
Sunneva Ósk Guðmundsdóttir framleiðslustjóri landvinnslu ÚA ræðir við áhugasama gesti á bás Samherja/myndir samherji.is

Um sjö hundruð grunnskólanemendur í 9. og 10. bekk frá Akureyri og nærsveitum sóttu Starfamessu 2023, sem haldin var í Háskólanum á Akureyri í síðustu viku. Markmiðið með viðburðinum var að kynna fyrir nemendunum atvinnustarfsemi á Eyjafjarðarsvæðinu og þau tækifæri sem bíða þeirra í framtíðinni.

Um þrjátíu fyrirtæki kynntu starfsemi sína og var Samherji með veglegan bás, þar sem áhersla var lögð á fjölbreytni starfa í sjávarútvegi. Það eru námsráðgjafar í grunnskólum Akureyrarbæjar sem standa fyrir viðburðinum. Sunneva Ósk Guðmundsdóttir framleiðslustjóri landvinnslu ÚA segir alltaf gagnlegt að ræða við ungt fólk um framtíðina.

Sjávarútvegur alþjóðleg hátæknigrein – starfsfólk framtíðarinnar -

„Við höfum tekið þátt í starfamessu HA undanfarin ár og við teljum að þetta framtak gefi nemendum nokkuð góða innsýn í atvinnulífið.

Í sjávarútvegi eru fjölbreytt störf og alls ekki víst að nemendur í 10. bekk geri sér grein fyrir þeirri staðreynd að þetta er alþjóðleg hátæknigrein með miklum möguleikum. Störf í sjávarútvegi hafa mörg hver breyst á undanförnum árum, til dæmis hefur einhæfum álagsstörfum fækkað en eftirlits- og tæknistörfum fjölgað. Með þessu erum við að leggja okkar að mörkum til þess að kynna sjávarútveginn betur fyrir ungu fólki og benda á öll þau tækifæri sem þar eru til staðar. Hérna hittum við mögulega starfsfólk framtíðarinnar.

Ég fór í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri, sem hefur reynst mér vel á mínum starfsferli,“ segir Sunneva Ósk.

Samherji þakkar öllum þeim sem heimsóttu kynningu félagsins.