Sunneva Ósk Guðmundsdóttir hefur verið gæðastjóri landvinnslu Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa í um tvö ár. Hún segir starfið fjölbreytt og kröfur viðskipavina séu alltaf að aukast. Í grófum atriðum gangi gæðastjórnun út á að vinna samkvæmt ákveðnum stöðlum. Annars vegar þeim sem fyrirtækið setur og hins vegar óskum viðskiptavina víða um veröld. Rætt er við Sunnevu í sérstöku Akureyrarblaði í Morgunblaðinu í dag.
Erum á heimsvísu
„Til að ná markmiðum er nauðsynlegt að fylgjast náið með öllum ferlum vinnslunnar. Einnig er ég í miklum skiptum við kaupendur og svo auðvitað starfsfólkið hérna á Íslandi. Allir þurfa að vinna saman,“ segir Sunneva og heldur áfram: „Já, kaupendur eru kröfuharðir og við hjá Samherja og ÚA erum á heimsvísu í vinnslu afurða. Við getum til dæmis skorið bitana eins og viðskiptavinir óska hverju sinni. Einnig unnið margar mismunandi pantanir á sama tíma.“
Aukin tækni og sérhæfðari störf
Sunneva lærði sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri. Hún segist ekki endilega hafa verið með augun á sjávarútvegi sem starfsvettvang framtíðar.
„Ég svo sem vissi ekkert hvað ég vildi gera að námi loknu. Sjávarútvegsnámið er fjölbreytt og víða er komið við, svo sem í viðskiptafræði og raungreinum. Og svo er fjallað um sjávarútveginn, sem er alþjóðleg hátæknigrein með miklum möguleikum. Líklega þarf að kynna greinina betur fyrir ungu fólki og benda á öll þau tækifæri sem eru fyrir hendi. Störfin hafa tekið miklum breytingum og eru orðin ansi sérhæfð með aukinni tækni.“
Forysta og stjórnun
Í síðasta mánuði útskrifaðist Sunneva úr meistaranámi í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun frá Háskólanum á Bifröst.
„Þetta var ótrúlega skemmtilegt nám sem mun örugglega styrkja mig í starfi og er ég því full bjartsýni á framtíðina. Já, ég hlakka alltaf til að fara í vinnuna og vil vaxa í mínu starfi,“ segir Sunneva Ósk í Akureyrarblaði Morgunblaðsins.