Sléttbakur keyptur en Kambaröst seld

Sléttbakur EA-4
Myndin er af heimasíðu ÚA www.ua.is
Sléttbakur EA-4
Myndin er af heimasíðu ÚA www.ua.is

Breytingar á skipastóli Samherja hf.:

Samherji hf. hefur í dag gengið frá kaupum á Sléttbak EA-4 en skipið var áður í eigu Útgerðarfélags Akureyringa hf. Ennfremur hefur verið gengið frá sölu á Kambaröst SU 200 til útgerðar í Namibíu. Nettófjárfesting félagsins vegna þessara viðskipta er ríflega 100 milljónir króna.

Sléttbakur EA-4 er 902 brúttólesta skip smíðað í Noregi á árinu 1968 og hefur verið í eigu Útgerðarfélags Akureyringa hf. frá árinu 1973. Skipið var lengt og því breytt í frystiskip árið 1987. Það er 69 metra langt, með 3.000 hestafla aðalvél og búið til flakavinnslu og heilfrystingar á karfa og grálúðu. Gert er ráð fyrir að skipið haldi í sínu fyrstu veiðiferð á vegum Samherja í ágúst.

Liður í endurskipulagningu

Samhliða þessum skipaviðskiptum hefur verið ákveðið að taka Hjalteyrina EA-310 úr rekstri fljótlega og setja á söluskrá. Þá er ennfremur fyrirhugað að eitt að skipum Samherja verði selt dótturfyrirtæki félagsins, Onward Fishing Company, á næstu mánuðum. Onward hefur verið með frystiskipið Normu Mary á leigu undanfarin ár en skipið er í eigu Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað.

Fréttatilkynning frá Samherja hf. miðvikudaginn 17.júlí 2002.  Nánari upplýsingar gefur Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf., í síma 460 9000.