Þorsteinn Már Baldvinsson kosinn varamaður í stjórn

Frá aðalfundi Fjord Seafood ASA

Á aðalfundi Fjord Seafood ASA sem haldinn var í Osló í morgun var Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja hf. kosinn varamaður í stjórn félagsins.

Fjord Seafood ASA er þriðja stærsta fyrirtæki heims í laxeldi í dag, var með 10%hlutdeild í heimsframleiðslu á Atlantshafslaxi á árinu 2002.  Starfsmenn Fjord Seafood út um allan heim eru á fjórða þúsund. Áætluð velta fyrirtækisins á árinu 2003 er 4 milljarðar norskra króna eða um 46 milljarðar íslenskra króna. Fyrirtækið annast alla þætti fiskeldis, allt frá klaki hrogna til dreifingar og markaðssetningar fullunninna afurða.

Frá því Samherji hf. keypti hlutabréf í Fjord Seafood snemma á yfirstandandi ári hefur verið margvíslegt samstarf á milli félaganna.  Unnið er markvisst að yfirfærslu þekkingar milli félaganna og vel gengur að samræma aðferðafræði og markmið félaganna varðandi fiskeldi.  Einnig er eru félögin í samstarfi um sölu á laxi og ferskum fiski sem hefur gengið ágætlega og mun það væntanlega aukast á næstu vikum og mánuðum í kjölfar aukinnar framleiðslu á laxi.

Þorsteinn Már segir stjórnarkjörið hafa talsverða þýðingu fyrir Samherja.  Tengslin á milli fyrirtækjanna komi til með að styrkjast, sem hlýtur að auka á möguleika í samstarfi.