Innlendir og erlendir sérfræðingar hafa að undanförnu unnið að því að meta tjónið sem varð í eldsvoðanum um borð í frystitogara DFFU, Hannover sunnudaginn 14. maí s.l. DFFU er dótturfélag Samherja hf.
Ljóst er að skipið er mikið skemmt, bæði af eldinum sjálfum en einnig af sóti og reyk sem fór um allt skipið. Hannover var tryggt fyrir því eignatjóni sem varð eins og fram hefur komið í tilkynningu Tryggingamiðstöðvarinnar hf.
Það tjón sem fellur á DFFU og þannig á Samherja hf. er vegna þess aflataps sem verður á meðan á viðgerð stendur en tryggingar fyrir slíku tjóni tíðkast ekki í útgerð.
Leitað hefur verið til færustu og öflugustu aðila um viðgerð á skipinu til þess að hún taki sem stystan tíma. Niðurstaðan er sú að gert verður við skipið í Noregi en ekki er víst hvað vðgerðin tekur langan tíma. Þó er áætlað að skipið verði frá veiðum í 60 daga. Miðað við það mun töpuð framlegð DFFU og Samherja geta numið um 30 millj. króna.
Dráttarbátur er nú á leiðinni til Íslands og verður Hannover dregið til Noregs í lok vikunnar. Á meðan er unnið að því að rífa út ónýtar og skemmdar innréttingar og búnað.