Segja má að hátæknibúnaðurinn frá Völku sé hjartað í fiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík. Búnaðurinn og öll tæknin hafa vakið mikla athygli, enda um að ræða eitt fullkomnasta vinnsluhús í heiminum í bolfiskvinnslu. Sigmar Harðarson fylgist grannt með öllum búnaðinum frá Völku og sér til þess að hann þjóni sínu hlutverki í hvívetna. Tölvur gegna lykilhlutverki í því sambandi.
Mikil nákvæmni
„Vinnsla hefst klukkan átta á morgnana, þannig að ég er mættur tveimur klukkustundum áður til þess að tryggja að vélar og allur búnaður gangi eins og til er ætlast. Stundum þarf að skipta um slöngur eða þétta svo eitthvað sé nefnt. Búnaðurinn er afskaplega nákvæmur og þess vegna þarf að fylgjast náið með öllum stillingum, enda eins gott þar sem mikil verðmæti fara í gegnum vélarnar á hverjum degi. Það getur verið ansi dýrkeypt ef til dæmis vatnsskurðarvélarnar eru ekki nákvæmlega rétt stilltar eða róbótarnir á pökkunarlínunni grípa ekki kassana eins og til er ætlast.“
Góður undirbúningur
Heimsfaraldurinn hafði eðlilega umtalsverð áhrif á starfsemi hátækni fiskvinnsluhúss Samherja á Dalvík. Með nýjum búnaði og gerbreyttri tækni komu engir utanaðkomandi sérfræðingar inn í húsið mánuðum saman, meðal annars frá Völku. Sigmar segir að áskoranirnar hafi því verið ansi margar, góður og hnitmiðaður undirbúningur við byggingu hússins hafi skipt sköpum. Hann hefur unnið í fiskvinnslu í um áratug.
„Ég hafði starfað við hátæknibúnað á Fáskrúðsfirði og áður en ég futti hingað til Dalvíkur fékk ég góða þjálfun í fiskvinnsluhúsi ÚA á Akureyri, þar er líka vélbúnaður frá Völku. Ég kom hingað sem sagt þokkalega vel undirbúinn, sem var eins gott. Þetta hefur allt saman gengið vonum framar með samstilltu átaki allra.“
Ekki oft þurft að stöðva vinnsluna
„Á daginn fer mikill tími í að fylgjast með öllu saman í gegnum tölvur, sem gegna lykilhlutverki í eftirlitinu. Stundum þurfum við að hægja á búnaðinum eða auka hraðann, stærð fisksins ræður því hverju sinni. Helsta ógnin er líklega rafmagns- eða vatnsskortur en sem betur fer eru þau mál komin í ágætis horf og ekki hefur oft þurft að stöðva vélarnar vegna bilana.“
Dalvík stærsta framfaraskrefið
„Já, þetta er fjölbreytt starf, enda ég daglega í samskiptum við ansi marga. Framfarirnar í fiskvinnslu hafa verið örar á þessum átatug sem ég hef unnið í greininni og allur þessi búnaður í vinnsluhúsinu á Dalvík er örugglega stærsta skrefið sem stigið hefur verið í þeim efnum. Þetta er klárlega fullkomnasta fiskvinnsluhús heimsins í bolfiski,“ segir Sigmar Harðarson Völkumaður.