Verðlagsstofa finnur vinnuskjal

Skjal það sem Ríkisútvarpið byggði umfjöllun Kastljóss á hinn 27. mars 2012 er nú komið í leitirnar. Ekki er um skýrslu að ræða heldur þriggja blaðsíðna óundirritað og ódagsett vinnuskjal um karfaútflutning án efnislegrar niðurstöðu. Ekkert í skjalinu styður þær ásakanir sem settar voru fram á hendur Samherja í Kastljósi.

Í skjalinu er fjallað um útflutning Samherja á karfa á árunum 2008 og 2009. Þar koma fram upplýsingar um verð á karfa sem Samherji flutti út sem fréttamaður Kastljóss sleppti þegar hann vann þáttinn en þessar upplýsingar ganga alvarlega í berhögg við umfjöllun og niðurstöðu þáttarins.

Ekkert í hinu nýfundna vinnuskjali Verðlagsstofu staðfestir þær ásakanir sem voru fluttar í þætti Kastljóss. Þvert á móti kemur fram í skjalinu að aðeins lítill hluti umrædds útflutnings á karfa var veiddur af skipum Samherja. Þá er ekkert fjallað um stærð eða gæði karfans í vinnuskjalinu.

Þess skal getið að embætti sérstaks saksóknara felldi í tvígang niður rannsókn á karfaútflutningi Samherja og taldi að ásakanirnar ættu ekki við rök að styðjast. Samherji hefur ákveðið að birta vinnuskjalið svo almenningur geti glöggvað sig á efni þess og má nálgast skjalið hér. Yfirstrikanir í skjalinu koma frá Verðlagsstofu skiptaverðs.

 

Frekari upplýsingar veitir:
Margrét Ólafsdóttir
margret@samherji.is