Fiskeldi

Hér fyrir neðan er hægt að skoða myndband úr bleikjueldi Samherja og fullkominni bleikjuvinnslu í Sandgerði.

 
UM FISKELDI SAMHERJA   

 

Fiskeldi Samherja kemur að öllum stigum eldis og vinnslu, all frá hrognum til neytenda.  Samherji fiskeldi ehf. rekur eina klakfiskastöð að Sigtúnum í Öxarfirði, eina klakstöð fyrir hrogn að Núpum í Ölfusi, þrjár seiðastöðvar og tvær áframeldisstöðvar fyrir bleikju, aðra á Stað við Grindavík og hina að Vatnsleysuströnd.  Einnig rekur fyrirtækið eina strandeldistöð fyrir lax að Núpsmýri í Öxarfirði.  Allt eru þetta landeldisstöðvar sem nýta jarðvarma og notast við borholuvatn, ýmist ferskt eða ísalt, við framleiðslu á hágæða eldisfiski.

Til að vinna afurðir frá eldinu eru starfræktar tvær vinnslur, önnur í Öxarfirði þar sem laxi er slátrað og pakkað og síðan fullkomin hátæknivinnsla í Sandgerði þar sem bleikju er slátrað og hún unnin í fjölbreyttar neytandaumbúðir.  Allar stöðvarnar eru vottaðar af ECOCERT í Sviss fyrir verslunarkeðjuna Whole Foods Market í Bandaríkjunum og vinnslan er jafnframt með  BAP vottun (Best Aquaculture Practices). Samherji Fiskeldi fékk ASC umhverfisvottun á framleiðslu sína í landeldi á bleikju í nóvember árið 2021.

Kostir landeldis eru margir. Einn stærsti kosturinn er að hægt er að stýra eldisumhverfinu.  Á öllum stigum eldisins er fylgst með mikilvægum umhverfisþáttum þ.e. súrefni, seltumagni, þéttleika, sýrustigi og hitastigi. Þessum þáttum er stöðugt stýrt með það að leiðarljósi að tryggja bestu mögulegu eldisaðstæður fyrir fiskinn á hverjum tíma. Stjórnkerfi stöðvanna eru sjálfvirk og tölvustýrð og hægt að fylgjast með þeim hvaðan sem er. Annar kostur við landeldi er að hættan á slysasleppingum er hverfandi. 

Einungis er notast við hágæða fóður í eldinu.  Á smáseiðastigi er notast við fóður frá norskum fóðurframleiðendum en eftir það er eingöngu notast við fóður frá Fóðurverksmiðjunni Laxá hf.  Fiskeldisfóður frá Laxá inniheldur hágæða hráefni unnið úr sjálfbærum fiskistofnum við Íslandsstrendur.  Prótein úr fiski er um 50% af heildarmagni próteins í fóðrinu og notuð er bæði fiski- og jurtaolía í fóðrið. Ekki eru notuð önnur dýraprótein og engum lyfjum er bætt í fóðrið. Eingöngu eru notuð náttúruleg litarefni (Aquasta og Panaferd) og er notkun þeirra í samræmi við reglur Evrópusambandsins og strangar kröfur kaupenda.  Fóðurverksmiðjan er með Global Gap vottun.

Öll seiði eru bólusett í seiðastöðvum áður en þau eru flutt í áframeldi en að öðru leyti eru engin lyf notuð í eldi Samherja. Fyrirtækið er með þjónustusamning við sjálfstæðan dýralækni um heilbrigðiseftirlit í fiskeldinu og kemur hann í reglulegar heimsóknir í allar eldisstöðvarnar. Dýralæknirinn vinnur í nánu samstarfi við gæðastjóra fiskeldis og yfirmenn stöðvanna.

Hann hefur eftirlit með öllum þáttum sem snúa að heilbrigði fiskanna og smitvörnum í stöðvunum.

 

Bleikjueldi

Samherji fiskeldi er stærsti framleiðandi á bleikju í heiminum í dag en fyrirtækið hefur sérhæft sig í framleiðslu á bleikju (Salvelinus alpinus), allt frá hrognum til fullunninnar vöru.  Fyrirtækið framleiðir bleikjuhrogn í klakfiska-stöðinni í Sigtúnum í Öxarfirði en kaupir einnig hrogn frá Háskólanum á Hólum.

Hrognunum er klakið út í klakstöð fyrirtækisins á Núpum í Ölfusi.  Kviðpokaseiði eru svo flutt þaðan í seiðastöðvar fyrirtækisins en þær eru staðsettar á Núpum og Stað við Grindavík.  Þegar seiðin hafa náð c.a.100g stærð eru þau flutt til áframeldis í matfiskastöðvar fyrirtækisins þar sem fiskurinn er alinn að slátrun.  Þegar bleikjan hefur náð sláturstærð (1 – 2 kg) er hún flutt lifandi til Sandgerðis til slátrunar og vinnslu. Þar rekur Samherji fiskeldi fullkomna vinnslustöð sem tekin var í notkun á árinu 2018.  Með fjárfestingum í tækjabúnaði og vel þjálfuðu starfsfólki eru þar framleiddar hágæða bleikjuafurðir sem uppfylla ströngustu kröfur markaðarins.  

Hér má finna nánari upplýsingar um bleikjuafurðir Samherja fiskeldis :

Ferskar bleikjuafurðir

Frosnar bleikjuafurðir

 

Laxeldi

Samherji fiskeldi stundar einnig landeldi á laxi (Salmo salar).  Hrognunum er klakið og laxaseiðin framleidd í klak- og seiðastöð fyrirtækisins að Núpum í Ölfusi en seiðin eru flutt þaðan lifandi (50-70g) í sérútbúnum seiðaflutningabíl til áframeldis í stöðina  í Öxarfirði þar sem fiskurinn er alinn upp í sláturstærð (4,0 – 6,0 kg). Vinnsla er starfrækt í Öxarfirði samhliða eldinu, þar sem fer fram slátrun, slæging og pökkun á heilum ferskum fiski.   Fyrirtækið framleiðir um 1500 tonn af laxi á ári og er einn stærsti landeldisframleiðandi á laxi í heiminum. Stefnt er að því auka framleiðsluna á næstu árum.  Eldisstöðin í Öxarfirði hefur nokkra sérstöðu þar sem töluverður jarðhiti er á svæðinu og hægt er að ala laxinn í 10-11 gráðu heitu ísöltu vatni.  Laxinn er alinn á hágæða fóðri og fer öll framleiðslan fram í samræmi við ströngustu kröfur kaupenda.

 

Helstu kostir afurða Samherja fiskeldis:

  • Afurðirnar eru frábær matur
  • Allt eldi fer fram í landstöðvum
  • Umhverfisvænt, sjálfbært eldi
  • 100% Rekjanleiki
  • Græn endurnýjanleg orka
  • Kristaltært eldisvatn
  • Lágt kolefnisspor
  • Engin erfðabreytt efni
  • Engin hormóna- eða sýklalyf
  • Hátt næringargildi 
  • Hágæða afurðir
  • Full stjórn á eldisumhverfinu
  • Áralöng reynsla af landeldi 


bleikjuslide00_640