-Veltufé frá rekstri var rúmir 3 milljarðar króna og jókst um 2.031 milljón á milli ára
Samherji hf. var rekinn með tæplega 1.108 milljóna króna hagnaði á nýliðnu ári, samanborið við 726 milljóna króna hagnað árið 2000. Veltufé frá rekstri félagsins nær þrefaldaðist frá árinu áður og nam 3.092 milljónum króna.
Rekstrartekjur samstæðu námu rúmum 13 milljörðum króna en rekstrargjöld 9,4 milljörðum. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var rúmir 3,6 milljarðar króna. Afskriftir námu rúmum milljarði króna og fjármagnsliðir voru neikvæðir um 1,3 milljarða. Inni í þeirri tölu eru áhrif hlutdeildarfélaga sem voru neikvæð um 74 milljónir króna. Að teknu tilliti til skatta sem og annarra tekna og gjalda var hagnaður ársins um 1.108 milljónir króna, sem fyrr segir.
Eigið fé jókst um 814 milljónir króna
Heildareignir samstæðunnar í árslok námu 18.113 milljónum króna en skuldir og skuldbindingar 11.893 milljónum króna. Bókfært eigið fé var því 6.219 milljónir króna og jókst um 814 milljónir á milli ára. Nettóskuldir samstæðunnar námu í árslok 5.254 milljónum króna og þar af nam skattskuldbinding 637 milljónum króna.
Veltufé frá rekstri nam sem fyrr segir um 3.092 milljónum króna, samanborið við 1.060 milljónir árið áður. Eiginfjárhlutfall var 34,3% og veltufjárhlutfallið 1,50.
Besta rekstrarárið til þessa
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir að árið hafi verið afar gott ár í rekstri Samherja og án efa besta rekstrarár félagsins frá upphafi. „Þriggja milljarða króna fjármunamyndun í rekstri félagsins segir sína sögu. Ytri aðstæður, þ.e. gengi gjaldmiðla og markaðir, voru félaginu óvenju hagstæðar og almennt séð gekk rekstur allra þátta í starfseminni vel á árinu."
Hann segir horfur fyrir árið 2002 góðar. „Við höfum verið að laga skipastól okkar að aflaheimildum með það að markmiði að hámarka nýtingu fastafjármuna félagsins. Kaup á Hannover í stað Baldvins Þorsteinssonar er liður í því en skipið er nú í lengingu í Lettlandi og er væntanlegt inn í rekstur félagsins um mitt ár. Við getum því ekki annað en horft björtum augum til framtíðar og munum eins og síðastliðið ár birta áætlanir okkar á aðalfundi félagsins," segir Þorsteinn Már.
Aðalfundur 11. apríl nk.
Aðalfundur Samherja hf. verður haldinn í Nýja bíói á Akureyri fimmtudaginn 11. apríl nk. og hefst hann kl. 15:00. Stjórn félagsins gerir tillögu um að greiddur verði 30% arður til hluthafa vegna nýliðins árs.
Meðfylgjandi eru lykiltölur úr rekstri Samherja hf. á árinu 2001 og samanburður við fyrri ár:
(ársreikning og lykiltölur er hægt að nálgast á Acrobat Reader formi hér)