Vorið 2016 fór stór hópur starfsmanna fiskvinnslu Samherja á Dalvík í raunfærnimat í fisktækni sem Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar (SÍMEY) bauð uppá. Um haustið hófu um 20 þeirra nám í fisktækni, sem starfrækt var í námsveri SÍMEY á Dalvík. Haustið 2017 fór annar hópur frá fiskvinnslu Samherja á Dalvík, og á Akureyri, í samskonar raunfærnimat og hófu nokkur þeirra nám þá um haustið. Þar af komu þrír inn í þann námshóp sem farinn var af stað á Dalvík og útskrifast núna í vor..
Nemendurnir eru af ýmsu þjóðerni, sem endurspeglar þann fjölbreytta mannauð sem er að finna innan fiskvinnslunnar á Eyjafjarðarsvæðinu. Í útskriftarhópum núna eru t.d. þrír af pólskum uppruna, tveir af lettneskum, tveir af taílenskum og ein kom frá Grænhöfðaeyjum.
Það hefur sjálfsagt aldrei verið mikilvægara en nú að starfsfólk í fiskvinnslu sæki sér menntun og aukna þekkingu þar sem tæknibreytingar eru mjög miklar í greininni og kröfur til starfsfólks aukast sífellt. Samstarfsaðilar eru stoltir af þeim stóra hópi öflugs fiskvinnslufólks sem útskrifast þetta vor, og þykjast þess vissir að þau muni enn frekar láta til sín taka þegar þau nú hafa lokið þessum áfanga.
Námið er í samstarfi SÍMEY, Fisktækniskóla Íslands og Menntaskólans á Tröllaskaga, sem innritar nemendur í námið og útskrifaði 19. maí 20 nemendur af fisktæknibraut. Mikilvægt er að gott samstarf sé við vinnustað nemenda, því um er að ræða nám með vinnu. Námið er 120 einingar, grunngreinar sem SÍMEY heldur utan um og faggreinar sem Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur veg og vanda af. Forsenda þess að fara í þetta nám hefur verið að viðkomandi hafi farið í raunfærnimat, en til þess þarf 3 ára starfsreynslu í fiskiðnaði og a.m.k. 23 ára aldur. Nemendur eru því allir þjálfað fiskvinnslufólk sem með raunfærnimati fær reynslu sína og þekkingu metna til eininga, og bætir síðan við sig með formlegu námi því sem uppá vantar.