Af sjónum í forsetastólinn

Kominn í land úr síðasta túrnum fyrir Samherja.
Kominn í land úr síðasta túrnum fyrir Samherja.
Síðastliðið þriðjudagskvöld kom Akureyrin EA til hafnar á Akureyri eftir 28 daga veiðiferð með aflaverðmæti upp á tæpar 100 milljónir króna. Skipstjóri var Árni Bjarnason og var þetta síðasti túrinn hans, í bili a.m.k., þar sem hann tekur nú við sem formaður Farmanna- og fiskimannasambandsins. Árni á að baki yfir 30 ára sjómannsferil og hefur því upplifað miklar breytingar í greininni.

Þessi síðasta veiðiferð var reyndar ekki bara sérstök fyrir að vera síðasti túr Árna. Bæði var hún styttri en til stóð þar sem lega í togspili Akureyrarinnar gaf sig og eins mátti Árni hafa sig allan við til að forða árekstri við rússneskan togara á heimsiglingunni. Þetta gerðist út af Skjálfandaflóa og þverbeygði sá rússneski skyndilega í veg fyrir Akureyrina en með því að bakka á fullri ferð tókst Árna að bjarga málinu.

Byrjaði ferilinn á gufuskipi

Sjómannsferill Árna hófst árið 1968 á gamla Harðbak, sem var gufuknúinn síðutogari í eigu ÚA. Árni var síðan lengi á skipum útgerðarfélags KEA en hefur verið hjá Samherja í um áratug. „Ég er sennilega af síðustu kynslóðinni sem byrjaði á sjó á meðan allt var frjálst og hef síðan kynnst ástandinu eins og það er í dag þar sem maður getur ekki snúið sér við án þess að skrifa tvær til þrjár skýrslur um það. Pappírsvinnan á sjónum er orðin alveg yfirgengileg," segir Árni.
Hjá Samherja byrjaði Árni á Hjalteyrinni, sem síðar varð Frosti ÞH, en hefur lengst af verið á Akureyrinni sem stýrimaður og skipstjóri. Annars segist hann hafa prófað flest Samherjaskipin. Þess má einnig geta að á árunum 1984-1985 gerði hann hlé á sjómennskunni og settist á skólabekk í Tækniskólanum þar sem hann nam útgerðartækni. Alla þessu reynslu segist hann vonast til að geta nýtt á nýjum vettvangi.

Hagsmunamál sjómanna

Árni hefur lengi beitt sér fyrir hagsmunamálum sjómanna og verið í stjórn
Skipstjóra- og stýrimannafelags Norðlendinga til fjölda ára. Hann hefur einnig setið í stjórn Farmanna- og fiskimannasambandsins um árabil og segist fyrst hafa setið þing sambandsins árið 1983 en þá var einmitt kosið um forsetastólinn á milli þeirra Guðjóns A. Kristjánssonar, núverandi alþingsmanns, og Helga Laxdal. Guðjón hafði betur og í kjölfarið klufu vélstjórar sig út úr sambandinu. Síðan þetta var hefur ekki verið kosið um forseta Farmanna- og fiskimannasambandsins, þar til í haust að Árni bauð sig fram gegn sitjandi formanni, Grétari Mar Jónssyni.
Árni segir ekkert leyndarmál að hann hafi verið ósáttur við þá stefnu sem sambandið fylgdi og hafi boðið sig fram í þeirri trú að hægt væri að gera betur, ekki síst í ljósi síðustu kjarasamninga. „Að mínu mati var sambandið komið í ákveðna sjálfheldu og ekki orðið nógu gildandi í umræðunni. Það var ekki lengur tekið mark á því sem frá því kom."
Hann segir að vissulega eigi hann eftir að komast betur að því í hverju starfið felst en að sínu mati sé ekki nóg að beina kröftum sínum að útgerðarmönnum, þótt vissulega þurfi að sækja margt til þeirra. „Ég sé fyrir mér að drjúgur tími muni fara í viðræður við stjórnvöld og að fá þau til að endurmeta ýmis mál sem snerta hagsmuni okkar. T.d.er verðmyndun á fiski fullkomlega á skjön við þá frjálsræðisstefnu sem stjórnvold framfylgja á flestum sviðum atvinnulífsins. Einnig er ljóst að þótt kjarasamningar séu ekki lausir á þeim tíma sem kjör mitt nær til, þ.e. á næstu tveimur árum, þá eru kjara- og réttindamál aðalmálið alla daga ársins. Ég tel einmitt að með því að vanda undirbúninginn betur verði eiginlegar kjaraviðræður auðveldari þegar að þeim kemur," segir Árni.

Lærist með reynslunni

Aðspurður hvort hann muni ekki sakna sjómennskunnar segir hann að það verði einfaldlega að koma í ljós. „Sjómennskan er það líf sem ég þekki og öllum breytingum fylgja bæði neikvæðir og jákvæðir þættir. Auðvitað eru það t.d. forréttindi að vera úti á sjó og sjá sólina koma upp á Grímseyjarsundi og það er mikil upplifun að verða vitni að þeim ógnarkröftum sem felast í hafinu þegar veðrið er í ham. Það er ákveðin kúnst að fiska og vita hvar fiskurinn heldur sig. Þetta eru hlutir sem enginn lærir á skólabekk heldur aðeins með reynslunni. Nú þarf ég að takast á við nýja hluti, fiska á öðrum miðum og með nýjum hætti, og reynslan verður að skera úr um hvernig til tekst," segir Árni að lokum.