Fréttatilkynning frá Samherja hf
Helstu atriði:
Samherji hf. er eignarhaldsfélag um eignarhluti í dóttur- og hlutdeildarfélögum sem flest tengjast sjávarútvegi og vinnslu afurða hérlendis og erlendis. Rekstur útgerðar og fiskvinnslu á Íslandi er í félögunum Samherji Ísland ehf. og Útgerðarfélag Akureyringa ehf. og rekstur fiskeldis er í Íslandsbleikju ehf. Félög samstæðunnar starfa í ellefu löndum og gera upp í níu mismunandi gjaldmiðlum. (EUR, USD, GBP, ISK, CAD, PLN, DKK, NOK og NAD). Samstæðureikningur Samherja er settur fram í evrum en í tilkynningunni eru tölur umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við meðalgengi ársins 2014 sem var 155 krónur á hverja evru.
Rekstur – Tekjur rúmir 78 milljarðar
Rekstrartekjur Samherja og dótturfélaga voru rúmir 78 milljarðar króna árið 2014. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 16,4 milljörðum króna, samanborið við 25,4 milljarða árið á undan en það ár nam söluhagnaður 8,1 milljarði. Afkoma af reglulegri starfsemi í fyrra var því mjög svipuð og árið á undan. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 13,7 milljörðum og að teknu tilliti til tekjuskatts var hagnaður ársins 11,2 milljarðar króna.
Traustur efnahagur
Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir samstæðunnar í lok árs 2014 samtals 116,2 milljörðum króna. Heildarskuldir og skuldbindingar á sama tíma voru 40,8 milljarðar og bókfært eigið fé 75,3 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 64,8% í árslok. Veltufjármunir námu 36,7 milljörðum króna og peningalegar eignir umfram skuldir 4,2 milljörðum króna. Arðgreiðsla til hluthafa verður 1,4 milljarðar króna sem nemur 12,4% af hagnaði félagsins samanborið við 3,3 milljarða króna arðgreiðslu vegna ársins 2013.
Fjárfestingar ársins námu 9,4 milljörðum
Stærstu fjárfestingarnar á Íslandi voru vegna nýsmíði fiskiskipa að fjárhæð 2,2 milljarðar króna og kaupa á aflaheimildum fyrir 2,1 milljarð. Erlendis voru helstu fjárfestingar í skipum hjá UK Fisheries í Bretlandi og dótturfélögum, sem eru gerðar í samstarfi við Parlevliet & van der Plas í Hollandi. Einnig var fjárfest í öðru flutningaskipi ásamt því að klárað var að lengja Baldvin NC. Þá voru keypt hlutabréf í norska félaginu Nergård og nam sú fjárfesting 1,6 milljörðum króna.
Árið fór illa af stað
„Árið 2014 fór illa af stað og fyrri helmingur ársins gaf ekki tilefni til bjartsýni varðandi reksturinn. Margt spilaði þar inn í. Til dæmis tókust ekki samningar um aflaheimildir milli Noregs og Evrópusambandsins fyrr en í mars og á meðan lágu skip okkar í Evrópu bundin við bryggju. Einnig var loðnuvertíðin með allra slakasta móti og afurðaverð á ferskum þorski var lágt. Á seinni helmingi ársins tókst engu að síður að veiða og nýta vel þær heimildir sem samstæðan hefur yfir að ráða og afurðaverð fór hækkandi. Rekstrarafkoma ársins 2014 er því mjög sambærileg árinu áður sem ég get ekki annað en verið ánægður með,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Sex ný fiskiskip
Þorsteinn Már leysir landfestar Margretar EA 710. mynd ÞB |
Þorsteinn segir að Samherji og tengd félög hafi á rúmu ári skrifað undir og hafið byggingu á samtals sex nýjum fiskiskipum auk þess sem dótturfélag Samherja í Bretlandi, UK Fisheries, fékk afhent nýtt frystiskip fyrr á þessu ári. „Þrjú þessara skipa munu koma til Íslands og tvö fara til Þýskalands. Samtals er um að ræða fjárfestingu í nýsmíðum fyrir nærri 25 milljarða króna. Þessi endurnýjun er löngu tímabær og nauðsynleg ef við ætlum að gera áfram út á hagkvæman hátt og bjóða starfsfólki okkar eftirsóknarverða vinnuaðstöðu. Þá er einnig verið að fjárfesta í miklum breytingum á fiskvinnslu ÚA á Akureyri. Það er verkefni sem við erum mjög spennt yfir og vonumst til að auki verðmætasköpun í íslenskri landvinnslu.“
Gjörbreytt landslag á mörkuðum
Gjörbreytt landslag blasir nú við á öllum helstu mörkuðum Samherja fyrir uppsjávarafurðir. „Innflutningsbann er til Nígeríu og gjaldeyrisskortur en þangað höfum við flutt mikið af uppsjávarafurðum og allar okkar þurrkuðu afurðir. Ekki sér fyrir endann á innflutningsbanni Rússa á íslenskar afurðir, þangað sem við fluttum afurðir fyrir vel á fimmta milljarð á síðasta ári. Við trúum því að þau mál muni leysast og höldum áfram að rækta okkar tryggu viðskiptasambönd þar í landi sem hafa byggst upp á löngum tíma og gagnkvæmu trausti. Þriðji stóri markaður okkar fyrir uppsjávarafurðir hefur verið í Úkraínu. Þar eru aðstæður mjög erfiðar og mikill samdráttur hefur verið í innflutningi. Það eru því ærin verkefni framundan að leita leiða til að hámarka verðmæti uppsjávarafla okkar á næstu misserum.
Verkefnin eru til að leysa og það er af nógu að taka en við erum vel í stakk búin að takast á við síbreytilegar aðstæður. Við höfum mikið af hæfu starfsfólki sem hefur tekist á við fjölmargt með okkur. Við munum þétta raðirnar til að klára þessar fjárfestingar og mæta áskorunum sem framundan eru,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.