Afkoma Samherja hf. á árinu 2000:


Hagnaður ársins nam 726 milljónum króna
-Veltufé frá rekstri jókst um rúm 20% og var 1.060 milljónir króna

Samherji hf. var rekinn með 726 milljóna króna hagnaði á nýliðnu ári, samanborið við 200 milljóna króna hagnað árið 1999. Veltufé frá rekstri félagsins jókst um rúm 20% frá árinu áður og nam 1.060 milljónum króna. Töluverðar breytingar urðu á rekstri félagsins á árinu og ber þar hæst að 65% hlutafjár í Samherja GmbH, sem áður var dótturfélag Samherja hf., voru seld síðla árs og er það félag því ekki í samstæðuuppgjöri Samherja hf. nú. Þá eignaðist Samherji meirihluta í BGB-Snæfelli hf. í lok nýliðins árs. Vegna þessa er framsetning ársreiknings Samherja talsvert breytt frá árinu 1999.

Rekstrartekjur samstæðunnar voru 7.011 milljónir króna á árinu og rekstrargjöld námu 5.599 milljónum. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 1.412 milljónum króna, samanborið 1.267 milljónir árið áður, sem er 11% aukning á milli ára. Afskriftir voru 643 milljónir króna á móti 883 milljónum árið áður.

Liðirnir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld voru 351 milljón króna til tekna á árinu en 292 milljónir til gjalda árið áður. Hagnaður af sölu eigna í hlutdeildarfélögum var 975 milljónir á árinu. Þar vegur þyngst sala á 65% hlut í Samherja GmbH í Þýskalandi og sala á 40% hlut í Skagstrendingi hf. Félagið komst tiltölulega vel frá þeim miklu breytingum sem áttu sér stað á gengi gjaldmiðla á árinu. Þannig var gengistap 253 milljónir króna en árið 1999 var gengistapið 188 milljónir. Áhrif hlutdeildarfélaga voru neikvæð (nettó) um 168 milljónir króna en voru jákvæð um 15 milljónir árið áður.

Hagnaður af reglulegri starfsemi fyrir tekjuskatt nam 1.119 milljónum króna, samanborið við 92 milljónir árið 1999. Tekjuskattur var 375 milljónir króna og hagnaður ársins því 726 milljónir, sem fyrr segir.

Breytt framsetning ársreiknings

Sem fyrr segir er framsetning ársreikingsins nokkuð breytt frá fyrra ári. Munar þar mestu að á árinu seldi félagið 65% hlut í Samherja GmbH, sem hverfur þar með úr samstæðuuppgjöri félagsins. Þá lagði Samherji hf. 35% eignarhluta sinn í Samherja GmbH inn í eignarhaldsfélagið FAB GmbH, sem nú er móðurfélag Samherja GmbH og Hussmann & Hahn GmbH.

Í nóvember eignaðist Samherji rúmlega 40% hlut KEA í BGB-Snæfelli hf. með hlutabréfaskiptum við KEA. Í lok árs var Kaldbaki hf. síðan skipt upp, en það félag átti tæplega 35% hlut í BGB-Snæfelli. Eftir þau skipti átti Samherji um 80% hlutafjár í BGB-Snæfelli. Í framhaldi af þessum viðskiptum var samruni Samherja og BGB-Snæfells ákveðinn og miðaðist hann við 30. desember sl. og var samrunaáætlun birt í byrjun yfirstandandi árs. Efnahagsreikningur Samherja í árslok 2000 er jafnframt stofnefnahagsreikningur hins sameinaða félags.

Efnahagur

Eignir samstæðunnar í árslok 2000 námu 16.593 milljónum króna. Eigið fé nam 5.405 milljónum króna, sem er tæplega 750 milljóna króna hækkun á milli ára. Þess ber að geta að auk hagnaðar hefur sameining BGB-Snæfells við félagið áhrif á eiginfjárstöðuna. Sama gildir um kaup félagsins á eigin bréfum fyrir rúman milljarð, sem notuð eru í skiptum fyrir bréf í BGB-Snæfelli.

Langtímaskuldir og skuldbindingar voru 7.604 milljónir króna og skammtímaskuldir 3.584 milljónir. Veltufjármunir í árslok voru 4.914 milljónir króna.

Veltufé frá rekstri samstæðu nam sem fyrr segir 1.060 milljónum króna, samanborið við 881 milljón árið áður. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 32,6% og veltufjárhlutfallið 1,37.

Veltufé frá rekstri móðurfélags nam 1.114 milljónum króna, eiginfjárhlutfallið var 33,0% og veltufjárhlutfallið 1,46.

Ár mikilla breytinga

"Nýliðið ár var erfitt að mörgu leyti en ég er hins vegar ágætlega sáttur við niðurstöðuna," segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. "Þetta var ár mikilla breytinga hjá Samherja. Þar ber vitanlega hæst þegar Vilhelm Þorsteinsson EA bættist í flota félagsins. Koma skipsins gerir okkur kleift að auka verulega verðmæti uppsjávarafurða með fullvinnslu á kolmunna og síld um borð. Yfirstandandi ár verður ákveðinn prófsteinn á þetta verkefni."

Hann segir að sú öfluga landvinnsla, sem félagið eignaðist með samrunanum við BGB-Snæfell, sé annað verkefni sem miklar vonir séu bundnar við. "Ég hef þá trú að samruni félaganna tveggja skjóti styrkum stoðum undir vinnsluna á Dalvík og efli jafnframt rekstur félagsins í heild sinni."

Stóraukin þátttaka í fiskeldi

Fjárfestingar Samherja í fiskeldi á nýliðnu ári námu tæpum 390 milljónum króna. Um það segir Þorsteinn Már: "Ef við Íslendingar ætlum að vera áfram í forystu í alþjóðlegum sjávarútvegi verðum við að vera virkir þátttakendur í fiskeldi. Samherji hefur að mínum dómi sýnt gott fordæmi með því að auka til muna þátttöku sína í þessari grein sjávarútvegs á síðustu misserum og við höfum fullan hug á að leggja enn meiri rækt við þennan þátt í náinni framtíð. Þekking í fiskeldi hefur aukist mikið síðustu ár, sem leitt hefur til hagkvæmari framleiðslutækni og gert greinina að áhugaverðum fjárfestingarkosti. Það er von mín að íslensk stjórnvöld skapi þessari grein þau skilyrði sem hún þarf til þess að vera samkeppnishæf á alþjóðavettvangi," segir hann.

Bjartsýnn á horfurnar á yfirstandandi ári

"Það bendir margt til þess að yfirstandandi ár verði gott ár fyrir Samherja og sjávarútveginn almennt en meginþættir úr rekstraráætlun Samherja verða kynntir á aðalfundi félagsins. Því er hins vegar ekki að neita að það eru blikur á lofti og á ég þá sérstaklega við það ástand sem mun skapast í atvinnugreininni ef ekki tekst að semja við sjómenn. Ég vona auðvitað í lengstu lög að til verkfalls komi ekki og þar til annað kemur í ljós er ég bjartsýnn á horfurnar á yfirstandandi ári. Þá höfum við mjög öflugan og samstæðan hóp starfsfólks sem alltaf hefur unnið fórnfúst starf. Á því er engan bilbug að finna og í því felst mikill styrkur," segir Þorsteinn Már Baldvinsson.

Aðalfundur 10. apríl nk.

Aðalfundur Samherja hf. verður haldinn í Nýja bíói á Akureyri þriðjudaginn 10. apríl nk. og hefst hann kl. 14:00. Stjórn félagsins gerir tillögu um að greiddur verði 15% arður til hluthafa vegna nýliðins árs. Samþykki aðalfundurinn tillöguna verða viðskipti með bréf félagsins án arðs frá og með 11. apríl 2001 en hluthafar í lok dags 10. apríl fá greiddan arð þann 10. maí nk.

Meðfylgjandi lykiltölur úr rekstri Samherja hf., móðurfélags og samstæðu, á árinu 2000 má finna á síðunni Lykiltölur úr rekstri.  Til samanburðar eru lykiltölur fyrir árið 1999.

Fréttatilkynning frá Samherja hf. fimmtudaginn 8. mars 2001.   Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, í síma 460 9000.