Afkoma Samherja hf. fyrstu níu mánuði ársins:

Hagnaður Samherja 269 milljónir króna
-Veltufé frá rekstri nam 2.059 milljónum króna

Rekstur Samherja gekk vel fyrstu níu mánuði ársins. Rekstrartekjur námu 9.325 milljónum króna. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 2.579 milljónum króna. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 1.469 milljónir króna á tímabilinu og áhrif hlutdeildarfélaga voru neikvæð um 101 milljón króna. Að teknu tilliti til skatta og annarra gjalda og tekna nam hagnaður tímabilsins 269 milljónum króna. Veltufé frá rekstri var 2.059 milljónir króna.

Sterk eiginfjárstaða

Eignir samstæðunnar þann 30. september sl. voru bókfærðar á 17.546 milljónir króna. Bókfært eigið fé var 5.770 milljónir og hækkaði um 365 milljónir króna frá áramótum. Eiginfjárhlutfall er 33%. Langtímaskuldir og skuldbindingar voru 7.687 milljón króna og skammtímaskuldir 4.089 milljónir. Nettóskuldir voru 5.969 milljónir og þar af nemur bókfærð tekjuskattsskuldbinding 445 milljónum króna. Veltufjárhlutfall er 1,42.

Góðar horfur

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segist að flestu leyti mjög ánægður með rekstur Samherja á tímabilinu. "Reksturinn skilar nú meiri framlegð en áður í sögu félagsins. Hagnaður án afskrifta og fjármagnsliða hækkar verulega og að frádreginni vörusölu fyrir önnur félög nemur þessi hagnaður 30% af veltu." Þorsteinn Már segir að gengislækkun krónunnar komi Samherja, eins og öðrum útflutningsfyrirtækjum, til góða í hærra afurðaverði. "Við gerum ráð fyrir að reksturinn síðustu þrjá mánuði ársins verði á svipuðum nótum og verið hefur. Áætlanir okkar gera ráð fyrir að hagnaður án afskrifta og fjármagnsliða verði á bilinu 3.300- 3.400 milljónir króna fyrir árið í heild og veltufé frá rekstri um 2.700 milljónir króna. Það er niðurstaða sem ég hlýt að vera sáttur við," segir Þorsteinn Már.

Kaup á eigin bréfum

Á stjórnarfundi Samherja í dag var samþykkt að nýta heimild frá síðasta aðalfundi félagsins til kaupa á eigin bréfum. Ákveðið var að kaupa hlutafé að nafnvirði allt að 66 milljónum króna á genginu 10,1. Hluthöfum mun standa til boða að selja 4 % af hlutbréfaeign sinni á þessu gengi og verður þeim sent bréf þess efnis á næstu dögum.

Árshlutareikningurinn, sem hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélags þess, Onward Fishing Company, er í meginatriðum gerður eftir sömu reikningsskilaaðferðum og áður. Hann er að finna hér (.pdf snið = Acrobat Reader).

Sjá einnig lykiltölur úr árshlutareikningi hér (.pdf snið = Acrobat Reader)