Afkoman versnað um hálfan milljarð á einum mánuði

Á stjórnarfundi Samherja hf. í gær var kynnt óendurskoðað uppgjör móðurfélagsins fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins. Samkvæmt uppgjörinu nemur tap á rekstri félagsins 252 milljónum króna samanborið við 241 milljónar króna hagnað eftir fyrstu 3 mánuði ársins. Afkoman hefur þannig versnað um tæpan hálfan milljarð á einum mánuði og má rekja breytinguna til lækkunar á gengi íslensku krónunnar og verkfalls sjómanna.

Á aðalfundi Samherja í byrjun apríl sl. var greint frá rekstraráætlunum félagsins fyrir árið 2001, sem unnar voru í árslok 2000. Þar kom fram að áætlanir gerðu ráð fyrir að hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði yrði um 2.175 milljónir króna og hagnaður ársins fyrir skatta yrði um 860 milljónir króna. Ennfremur kom fram að í rekstraráætluninni væri gert ráð fyrir að gengi íslensku krónunnar yrði óbreytt á árinu og að ekki kæmi til verkfalls sjómanna.

Nú er ljóst að gengi íslensku krónunnar hefur fallið um 16% frá áramótum og að skip félagsins hafa verið frá veiðum vegna sjómannaverkfalls í 50 daga á árinu, þar með talinn allur aprílmánuður. Því er ljóst að félagið verður rekið með verulegu tapi á fyrri hluta árs 2001. Á móti kemur að fari verðlagsþróun ekki úr böndum má ætla að afkoma félagsins batni á næstu misserum vegna þeirrar hækkunar sem orðið hefur á erlendum gjaldmiðlum. Engu að síður er ljóst að heildarafkoma ársins verður mun lakari en kynnt var á aðalfundi félagsins. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) verður hins vegar að öllum líkindum ekki langt frá því sem áætlað var.

Nettóskuldir félagsins um síðustu áramót voru um 6 milljarðar króna og þann 30. apríl sl. námu þær 6,4 milljörðum króna. Miðað við þær gengisbreytingar sem orðið hafa má gera ráð fyrir að velta móðurfélagsins á ársgrundvelli verði tæpir 11 milljarðar króna. Það er því ljóst að hlutfall skulda miðað við veltu er tiltölulega hagstætt hjá Samherja.

Fréttatilkynning frá Samherja hf. miðvikudaginn 6. júní 2001. Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, í síma 460 9000.