Aflaverðmæti Vilhelms Þorsteinssonar EA 1.135 milljónir króna

Mynd: KK,Mbl.
Mynd: KK,Mbl.

Mun meiri verðmætasköpun í síldveiðum en hjá öðrum skipum íslenska síldveiðiflotans

Fjölveiðiskipið Vilhelm Þorsteinsson EA-11 veiddi alls tæp 54.000 tonn á árinu 2003 og nam framleiðsluverðmæti afurðanna 1.135 milljónum króna (CIF-verðmæti). Afli skipsins var aðallega síld, loðna, kolmunni og úthafskarfi. Skipið veiddi alls 23.000 tonn af síld, 22.000 tonn af loðnu, 8.000 tonn af kolmunna og um 1.400 tonn af úthafskarfa. 

Vilhelm EA hóf síldveiðar í lok maí og var á þeim veiðum til áramóta, ef frá er talinn um mánaðartími sem skipið var í slipp. Á þessu tímabili veiddi skipið alls um 23.000 tonn af síld og úr þeim afla voru unnin tæp 11.000 tonn af síldarflökum. Um 14.000 tonn af þessari síld voru veidd á alþjóðlegu hafsvæði, aðallega í svokallaðri Síldarsmugu og á Svalbarðasvæðinu en rúm 9.000 tonn á Íslandsmiðum.

 


030624_ea11_sjolondun_heimas
Vilhelm landar frystum síldarflökum úti á rúmsjó um 650 mílur frá Íslandi í júní sl.
Myndina tóku skipverjar á Vilhelm Þ. EA

Mun meira aflaverðmæti en hjá öðrum síldveiðiskipum
Guðmundur Jónsson, skipstjóri á Vilhelm EA, segir það athyglisvert hve aflaverðmæti skipsins sé hátt og hve stór hluti þess kemur frá síldarafla. “Verðmætin sem við erum að skapa úr síldarafla okkar eru mikil. Sem dæmi má nefna að þau 14.000 tonn sem við veiddum á alþjóðlegu hafsvæði skiluðu aflaverðmæti upp á um 480 milljónir króna. Ef þessi afli hefði farið til bræðslu hefði hann gefið aflaverðmæti upp á 140 milljónir króna og útflutningsverðmætið hefði sennilega verið í kringum 220-230 milljónir króna þegar búið er að bræða aflann, eða meira en helmingi lægra en þegar síldin er unnin um borð. Það er undarlegt að þessi mikla verðmætasköpun sem fer fram hér um borð, virðist ekki vekja neina athygli þeirra sem fjalla um sjávarútveg, hvort sem það eru stjórnmálamenn eða fjölmiðlar” segir Guðmundur.

Vilhelm EA hefur veitt alla sína síld í troll og Guðmundur fullyrðir að það sé hagkvæmt og skili verðmeiri afurðum en nótaveiðarnar. “Sú síld sem veiddist í nót á nýliðnu ári fór nær öll í bræðslu, á meðan síldin sem fékkst í troll hefur að langmestu leyti farið í vinnslu til manneldis”. 

vilhelm_ea013heimas
"Karlar í krapinu"
Mynd: KK, Mbl.

Guðmundur sagðist ennfremur vilja benda á að nær öll sú síld sem veidd væri í Norðursjónum væri veidd í troll en þar væri síldarstofninn í góðu jafnvægi og hafi í raun verið á uppleið síðustu þrjú ár. “Ég er ekki í minnsta vafa um að trollveiðarnar skila mun betri síld en nótaveiðarnar og þar af leiðandi mun verðmætari afurðum og fer ekki verr með stofninn” segir hann.

Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja hf., segir að hin mikla verðmætasköpun skipsins sé til komin vegna góðs skips og frábærrar áhafnar á Vilhelm EA. “Ellefu þúsund tonn af unnum afurðum á sex mánuðum er glæsilegur árangur og það segir allt um áhöfn skipsins og skipið”.

Aðeins einu sinni í slipp á þremur árum

Sem fyrr segir fór Vilhelm EA í slipp í um mánaðartíma sl. haust. Aðalvél skipsins var tekin upp, skipið málað og hugað að ýmsu nauðsynlegu viðhaldi. Þetta er í fyrsta skipti sem skipið fer í slipp á þeim rúmu þremur árum sem liðin eru frá því skipið var tekið í notkun en það kom nýtt til landsins þann 4. september árið 2000. Að sögn Kristjáns Vilhelmssonar hefur nauðsynlegu viðhaldi skipsins að öðru leyti verið sinnt meðan á löndun stendur.

Vilhelm EA fór til veiða 2. janúar sl. og er nú á síldveiðum á Vestfjarðamiðum og er aflinn kominn í um 900 tonn úr sjó. Skipið mun síðan hefja loðnuveiðar síðar í mánuðinum.