Ísfiskskip Samherja veiddu stærstan hluta bolfiskafla síns á miðunum norðaustur af Langanesi og suður af miðunum út af Hornafirði. Skipin fiskuðu um 7.700 tonn af þorski og fengust 5.850 tonn á Norðaustur- og Austfjarðamiðum, eða um 76%. Nær allur þorskaflinn var lagður upp hjá landvinnslustöðvum Samherja hf. á Dalvík og Stöðvarfirði.
Hver punktur á kortinu táknar eina veðiferð
Gunnar Aðalbjörnsson, frystihússtjóri Samherja hf. á Dalvík, segir að skipunum sé markvisst haldið til veiða á Norðaustur- og Austfjarðamið þar sem fiskurinn þaðan sé betri til vinnslu, holdmeiri og gefi þar af leiðandi betri nýtingu og afköst. Þá er einnig minna af ormi í fiskinum sem fæst fyrir austan en í þeim sem fæst á Vestfjarðamiðum. “Samherji hefur í samtals þrjú ár safnað saman mikilvægum gögnum um holdafar og nýtingu fiskjar eftir veiðisvæðum og því er ekki að neita að sú vinna er farin að gefa okkur haldbærar og nýtanlegar niðurstöður,” segir Gunnar.
Ísfiskskip Samherja hf. öfluðu samtals rúmlega 11.000 tonna af ferskum fiski á árinu 2003. Björgúlfur landaði mestum afla, eða um 5.000 tonnum. Þá lönduðu Margrét, Akureyrin og Björgvin einnig ísfiski til vinnslu á Dalvík.