Loðnuvertíðin gekk að öllu leyti vel í vinnslustöð Samherja í Grindavík og var tekið á móti meira af loðnu á vetrarvertíð nú en nokkru sinni áður. Alls var landað 63.400 tonnum af loðnu hjá fyrirtækinu á nýliðinni vetrarvertíð. Allt árið í fyrra var landað þar 93 þúsund tonnum en þá fór meira í bræðslu en nú.Á nýliðinni vertíð hafa verið framleidd 11.200 tonn af mjöli og 3.900 tonn af lýsi, samtals að verðmæti um 900-1.000 milljónir króna. Rúmlega 8.000 tonn af mjöli hafa verið flutt út en 1.560 tonn af lýsi hafa verið flutt í geymslu á Raufarhöfn.
Vertíðin gekk mjög vel að sögn þeirra Óskars Ævarssonar rekstrarstjóra Samherja í Grindavík og Hjalta Bogasonar verkstjóra. Allt gekk snurðulaust og vertíðin sú átakaminnsta frá upphafi. Þennan góða árangur segja þeir helst að þakka góðu og duglegu starfsfólki en jafnframt benda þeir á að endurbætur á bræðslu og frystihúsi sem gerðar hafa verið á undanförnum árum séu að skila sér í betri árangri og betri gangi á starfseminni.
Óvenju lítið í frystingu Frystingin var með rólegra móti í vetur að sögn Óskars. Aðeins bárust um 400 tonn af síld til vinnslu í janúar og úr þeim voru framleidd 180 tonn af samflökum. Um 50 tonn af loðnu voru fryst og 700 tonn af loðnuhrognum. Þetta er óvenju lítið að sögn Óskars en hann segir markaðinn ekki leyfa meira. Til samanburðar má geta þess að fyrirtækið hefur verið með þeim stærstu í hrognafrystingu með um 1.000-1.100 tonn á vertíð.
Þorsteinn drýgstur í Grindavík Þorsteinn EA á mestan hlut í þeim loðnuafla sem landað var hjá Samherja í Grindavík, 22.200 tonn, næst kemur Oddeyrin EA með 14.400 tonn, þá Áskell EA með 10.000 tonn, Vilhelm Þorsteinsson EA með 7.200 tonn og önnur skip samtals með 9.600 tonn.
Oddeyrin EA, sem ber aðeins rúm 700 tonn, fiskaði alls á vertíðinni tæp 22 þúsund tonn að verðmæti 155 milljónir króna. Þetta er mesta magn sem báturinn hefur fiskað á vetrarvertíð frá upphafi og verðmætið er um 87 milljónum króna meira en á vertíðinni í fyrra.