Vilhelm Þorsteinsson EA 11:
Svalbarði var vettvangur áhafnarskipta hjá Vilhelm Þorsteinssyni EA 11, fjölveiðiskipi Samherja hf., í síðustu viku. Var þetta í fyrsta skipti sem leiguflugvél er send til Longerbyen á Svalbarða í þessum erindagjörðum. Flugvél frá Flugfélagi Íslands lagði upp frá Akureyri með nýja áhöfn áleiðis til Longerbyen og tók flugið um 5 klukkutíma með viðkomu í Tromsö. Daginn eftir var síðan flogið til baka án millilendingar og voru skipverjar ánægðir við heimkomuna á Akureyrarflugvöll eftir langt úthald. Í áhöfn Vilhelms eru að jafnaði 26 menn.
Vilhelm Þorsteinsson EA hefur verið við síldveiðar í lögsögu Svalbarða frá 21. júní s.l. Á þessu tímabili hefur aflanum verið landað beint í flutningaskip úti á rúmsjó og þannig komist hjá um 800 mílna langri siglingu til Íslands. Eins var við áhafnarskiptin í síðustu viku, aðeins var siglt til Svalbarða en siglingin heim spöruð. Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri Samherja hf. segir þessa tilhögun hagkvæma þegar veitt er á fjarlægum miðum, bæði fyrir skip og áhöfn. Tíminn nýtist við veiðar og vinnslu sem annars færi í langa og tímafreka siglingu. Einnig sparast olía sem fer í langar siglingar.
Smelltu hér til að skoða myndir