-skipið væntanlegt til Akureyrar í breytingar
Í morgun var byrjað að landa úr frystitogaranum Akrabergi FD-10 eftir mettúr skipsins í Barentshafi. Skipið var um sjö vikur á veiðum og kom að landi með hvorki meira né minna en rúm 472 tonn af frosnum afurðum, aðallega þorski, að verðmæti um 220 milljónir íslenskra króna. Akraberg er sem kunnugt er gert út frá Færeyjum í samvinnu Samherja og færeyskra aðila.
Fékkst í rússneskri lögsögu
Skipstjóri í þessum túr var Högni Hansen en hann er annar tveggja skipstjóra á Akraberginu á móti Erland Olsen. Í áhöfn skipsins eru 33 menn, allir frá Færeyjum. Að sögn Högna fékkst aflinn í rússneskri lögsögu, austarlega á veiðisvæðinu en fá skip voru eftir á þessum slóðum þegar Akrabergið hélt heimleiðis. Á þessum árstíma má heita að dimmt sé allan sólarhringinn en þó segir Högni að yfir miðjan daginn birti aðeins.
Til Akureyrar í breytingar
Akrabergið mun halda áleiðis frá Immingham í kvöld eða fyrramálið til heimahafnar í Færeyjum. Þar verður þó stoppað stutt því skipið er væntanlegt til Akureyrar eftir nokkra daga. Fyrir dyrum standa breytingar á millidekki sem unnar vera hjá Slippstöðinni. Að þeim loknum fer skipið aftur til Færeyja en Högni bjóst ekki við að haldið yrði aftur í Barentshafið fyrr en í febrúar og þá í norska lögsögu. Framundan er árstími þar sem allra veðra er von og segir Högni ekki eftirsóknarvert að vera á þessum slóðum næstu vikurnar.