Tímamót í útgerðarsögu Samherja hf.:
Akureyrin EA 110 kemur til hafnar á Akureyri laugardaginn 7. september úr sinni síðustu veiðiferð fyrir Samherja hf. og eins og áður hefur verið tilkynnt hefur skipið verið selt til dótturfélags Samherja í Skotlandi.
Akureyrin EA-110 siglir inn Eyjaförðinn úr sinni síðustu veiðiferð. |
Kveðjuhringur tekinn á Pollinum |
Fyrsta skip Samherja hf.
Akureyrin EA 110 var fyrsta skipið sem Samherji eignaðist en skipið hét áður Guðsteinn GK. Akureyrin EA 110 á sér því sérstakan sess í sögu félagsins og brotthvarf hennar úr skipastólnum markar tímamót í útgerðarsögu þess.
Akureyrin EA 110 hefur fram á þennan dag verið afar farsælt skip og hefur ár eftir ár verið meðal þeirra íslensku skipa sem skilað hafa hæstu aflaverðmæti. Skipið er meðal þeirra fyrstu hér á landi sem útbúið var til að fullvinna og frysta afla um borð. Skipið var smíðað í Póllandi 1974 og hefur verið gert út sem frystitogari síðan 1983. Það var lengt og hækkað 1995 og er nú tæpir 72 metrar að lengd og 1.318 brúttótonn.
Skipstjóri á Akureyrinni EA 110 er Stefán Ingvason en hann mun taka við skipstjórn á Víði EA 910.
Fréttatilkynning frá Samherja 6. september 2002.