Algjört lykilatriði að hafa góða áhöfn í góðu fiskeríi

Björgvin EA á miðunum fyrir sunnan land í síðustu viku/mynd Árni Rúnar/samherji.is
Björgvin EA á miðunum fyrir sunnan land í síðustu viku/mynd Árni Rúnar/samherji.is

Góð ufsaveiði hefur verið að undanförnu út af Reykjanesi. Skipstjórinn á Björgvin EA 311 segir vissulega gaman að lenda í góðu fiskeríi,en það megi ekki koma niður á gæðum hráefnisins til vinnsluhúsanna. Í slíkum túrum skipti sköpum að hafa góða og samhenta áhöfn.

Oddur Brynjólfsson skipstjóri á Björgvin hefur verið til sjós í um tvo áratugi og hefur því marga fjöruna sopið. Hann segir mörg skip gerð út á ufsa þessar vikurnar svo sem á Eldeyjarbanka, enda veiðiheimildir í þorski skertar á yfirstandandi fiskveiðitímabili, miðað við árið á undan.

Stærsta holið 19 tonn

Björgvin landaði í Hafnarfirði í byrjun vikunnar og var aflanum ekið norður til Akureyrar og Dalvíkur til vinnslu.

„Við vorum með um 125 tonn og túrinn tók þrjá og hálfan sólarhring, þannig að við vorum að veiðum í um tvo og hálfan sólarhring. Uppistaðan fékkst svo að segja á einum sólarhring og um 70 tonn af aflanum var ufsi, almennt ágætis fiskur.”

Ufsinn krefst þolinmæði

„Já, það voru ansi mörg skip þarna í ufsanum á tiltölulega afmörkuðu svæði. Skipin voru að draga þvers og kruss í kringum mann, þannig að það er eins gott að vera vakandi þegar þannig er. Ufsaveiðar eru um margt nokkuð spennand og krefjast vissrar þolinmæði. Stundum er dregið klukkutímum saman en lítið sem ekkert kemur í trollið en svo allt í einu hittir maður á góðar torfur og þá er eins gott að áhöfnin sé klár í törn. Í síðasta túr var stærsta holið um 19 tonn en við reynum að taka ekki of mikið í einu, þannig tekst okkur betur að hámarka gæði aflans sem er auðvitað markmiðið. Við þetta bætist líka að það er ekki auðvelt að sjá á dýptarmælum hvaða tegundir er um að ræða, það kemur bara í ljós þegar veiðarfærin eru komin á dekkið.”

Valinn maður í hverju rúmi

“Já, það er algjört lykilatriði að hafa góðan og samhentan mannskap og sú er raunin á Björgvin, hérna er valinn maður í hverju rúmi. Björgvin er líka afskaplega gott skip, þó það sé komið nokkuð vel til ára sinna en því hefur verið haldið afskaplega vel við í gegnum tíðina. Veturinn var einstaklega erfiður veðurfarslega séð en dagatalið segir okkur að betri tíð sé í vændum og við verðum að trúa því.”

Landvinnslan þarf hráefni strax eftir páska

“Við verðum á miðunum næstu sólarhringana,þannig að landvinnslan fái hráefni strax eftir páska. Hvort við förum aftur á ufsamiðin á reyndar eftir að koma í ljós en ég tel það líklegt. Það þarf líka að taka mið af hrygningarstoppinu sem er að taka gildi,” segir Oddur Brynjólfsson skipstjóri á Björgvin EA 311.