Nú er ljóst að ofangreind ummæli voru án tilefnis þar eð ekkert brot var framið að hálfu Samherja hf. Þrátt fyrir þetta hefur VÞÍ ekki gefið afdráttarlausa yfirlýsingu um að ummælin hafi verið ótímabær og ekki átt við rök að styðjast. VÞÍ hefur aðeins sent frá sér tilkynningu þess efnis að ekki sé ástæða til að aðhafast nokkuð og fréttatilkynning Samherja um starfslok Þorsteins Vilhelmssonar hafi verið í samræmi við reglur þingsins um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa.
Samherji hf. telur að þessi málsmeðferð VÞÍ sé mjög ámælisverð. Í fyrsta lagi bar enga brýna nauðsyn til að tjá sig nokkuð um álitaefnið fyrr en að athuguðu máli. Þar getur tímaritsviðtal eitt og sér ekki gefið VÞÍ tilefni til ályktana. Í öðru lagi ber VÞÍ að viðurkenna mistök sín undanbragðalaust og lýsa því yfir að ekkert hafi verið við umrædda fréttatilkynningu að athuga af hálfu Samherja.
Fréttatilkynning frá Samherja hf. föstudaginn 2. febrúar 2001