Arctic Warrior landar góðum afla úr Barentshafi

Arctic Warrior við bryggju á Akureyri í gær
Arctic Warrior við bryggju á Akureyri í gær

Arctic Warrior sem gerður er út af Boyd Line í Bretlandi, kom að landi í gær eftir 6 vikna veiðiferð í Barentshafi. Skipið var á þorskveiðum og verið er að landa úr skipinu í dag 360 tonnum af þorskafurðum, að verðmæti um 120 milljónir króna.

Veiðarnar fóru hægt af stað en síðustu 3 vikurnar gaf vel og full vinnsla var um borð það sem eftir var veiðiferðarinnar. Fiskurinn er flakaður og frystur um borð en í skipinu er einnig bitaskurðarvél. Lausfrystir bitar eru 52 tonn af heildaraflanum. Þetta er önnur veiðiferð skipsins eftir að Samherji kom að rekstri Boyd Line og hefur skipið reynst afar vel að sögn Sigurbjörns I. Reimarssonar sem var skipstjóri í þessari veiðiferð. Hann leysti Sigurbjörn Sigurðsson skipstjóra af, sem var áður skipstjóri á Normu Mary. Stefán Gunnarsson er vélstjóri skipsins. Skipið heldur aftur til veiða á sömu slóðir í lok næstu viku.