Rekstur Samherja gekk mjög vel á fyrri hluta ársins og var fjármunamyndun frá rekstri meiri en nokkru sinni fyrr í sögu félagsins. Veltufé frá rekstri nam 1.150 milljónum króna hjá samstæðunni, samanborið við 563 milljónir á sama tímabili í fyrra. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 1.612 milljónum króna og er um meira en tvöföldun að ræða á milli ára. Hins vegar voru hreinir fjármagnsliðir neikvæðir um tæpar 1.300 milljónir króna á tímabilinu, og er félagið gert upp með 345 milljóna króna tapi á tímabilinu.
Rekstrartekjur samstæðunnar námu 5.989 milljónum króna á fyrri helmingi ársins, samanborið við 4.698 milljónir á sama tímabili í fyrra. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 1.612 milljónum króna, samanborið við 744 milljónir á sama tímabili í fyrra.. Tap af reglulegri starfsemi fyrir skatta var 280 milljónir króna samanborið við 413 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Þessa breytingu má að mestu rekja til þess að hreinir fjármagnsliðir voru neikvæðir um 1.284 milljónir króna, samanborið við fjármagnstekjur upp á 126 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Helsta ástæða þessa er gengislækkun íslensku krónunnar á tímabilinu. Önnur gjöld námu 119 milljónum króna. Tap tímabilsins var því 345 milljónir króna eins og fyrr segir.
Traustur efnahagur
Eignir samstæðunnar þann 30. júní sl. námu 16.978 milljónum króna. Eigið fé nam 5.035 milljónum króna sem er litlu minna en á sama tímabili í fyrra. Langtímaskuldir og skuldbindingar voru 8.026 milljónir króna og skammtímaskuldir 3.918 milljónir króna. Nettóskuldir félagsins voru 6,3 milljarðar samanborið við 6 milljarða í ársbyrjun. Veltufé frá rekstri samstæðu nam 1.150 milljónum króna sem er ríflega tvöfalt meira en á sama tímabili árið áður. Eiginfjárhlutfall var 30% og veltufjárhlutfallið 1,33.
Að flestu leyti mjög ánægður
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segist að flestu leyti mjög ánægður með þessa niðurstöðu. "Sameining félagsins við BGB-Snæfell sem átti sér stað í lok síðasta árs hefur að sjálfsögðu verið eitt að meginverkefnum okkar á tímabilinu. Ljóst er að hún hefur tekist vel og rekstur Samherja skilar nú meiri framlegð en áður í sögu félagsins. Auðvitað er ekki gott að endanleg niðurstaða skuli vera í mínus en ég minni á að það er eingöngu gengislækkun krónunnar sem ræður því. Nær allt annað í þessu uppgjöri er á jákvæðu nótunum. Rekstrartekjur jukust hlutfallaslega meira en rekstrargjöld og fjármunamyndun í rekstrinum meira en tvöfaldaðist. Þetta er að mínu mati mjög góður árangur, ekki síst þegar haft er í huga að á tímabilinu kom til sjómannaverkfalls sem stóð í 50 daga."
Þorsteinn Már segir að gengislækkun krónunnar komi Samherja, eins og öðrum útflutningsfyrirtækjum, til góða í hærra afurðaverði á komandi misserum og því sé útlitið bjart. "Við gerum ráð fyrir að félagið verði gert upp með hagnaði í árslok enda erum við að gera betur á flestum sviðum en í fyrra."
Opinn fundur með stjórnendum.
Í dag þriðjudaginn 21. ágúst kl. 15,30 gefst fjárfestum og öðrum sem hafa áhuga á rekstri Samherja kostur á að taka þátt í opnum símafundi. Á fundinum munu Finnbogi Jónsson stjórnarformaður og Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri fara yfir niðurstöður árshlutareikningsins og svara fyrirspurnum þátttakenda. Til að taka þátt í fundinum þurfa þátttakendur að hringja í síma 755-7755 en þá verður óskað eftir að lykilnúmer verði slegið inn sem er eitthvað af eftirfarandi: 1234567, 2345678, 3456789.
Meðfylgjandi eru lykiltölur úr rekstri Samherja hf. (pdf skrár, þarfnast Acrobat Reader):
Samherji hf. Lykiltölur úr árshlutareikningi 30. júní 2001
Samherji hf. Árshlutareikningur 30. júní 2001
(Acrobat Reader er hægt að hlaða niður endurgjaldslaust af heimasíðu Adobe.)