Aukin þátttaka Samherja hf. í fiskeldi

Samherji hf. hefur fest kaup á helmingi hlutafjár í Íslandslaxi hf. í Grindavík og 85% hlutafjár í Víkurlaxi ehf. í Eyjafirði. Fjárfesting Samherja í þessum félögum nemur samtals um 215 milljónum króna. Fyrir er Samherji næststærsti hluthafinn í Fiskeldi Eyjafjarðar með um 11% hlutafjár.

Íslandslax hf. rekur strandeldisstöð við Grindavík og er framleiðslugeta hennar um 1.000 tonn á ári. Þá rekur félagið seiðaeldisstöð við Grindavík og eru núverandi afköst stöðvarinnar um ein milljón seiða á ári. Þá hefur Íslandslax nú fest kaup á seiðaeldisstöð að Núpum í Ölfusi af Guðmundi A. Birgissyni. Framleiðslugeta stöðvarinnar er tvær milljónir seiða á ári.

Víkurlax ehf. er með fiskeldiskvíar í Grýtubakkahreppi í Eyjafirði og hefur verið með laxeldi í sjó þar síðustu 11 ár.

Mikill vöxtur í fiskeldinu

"Það hefur verið mikill vöxtur í fiskeldi í heiminum síðustu misseri og við höfum trú á að sú þróun haldi áfram. Aðstæður til fiskeldis hér eru góðar og öll skilyrði fyrir hendi til að atvinnugreinin eflist til muna í náinni framtíð," segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Hann segir að margt bendi til þess að á komandi árum muni æ stærri hlutur þess fisks sem fer á markað koma úr fiskeldisstöðvum. "Það er yfirlýst stefna Samherja að fylgjast ávallt sem best með þeirri þróun sem á sér stað í sjávarútvegi og svara kalli tímans. Aukin þátttaka félagsins í fiskeldi er liður í því. Samherji hefur að undanförnu verið með umfangsmikla starfsemi í Grindavík og með kaupunum á hlut Íslandslaxi eykur félagið þátttöku sína í atvinnurekstri á svæðinu enn frekar," segir Þorsteinn Már.

Fréttatilkynning frá Samherja hf. föstudaginn 18. ágúst 2000. Nánari upplýsingar gefur Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf., í síma 460 9000.