Ávarp Finnboga Jónssonar, starfandi stjórnarformanns

Aðalfundur Samherja hf 11. apríl 2002

Fundarstjóri, ágætu hluthafar og gestir!

1. STARFSUMHVERFIÐ

Starfsumhverfi sjávarútvegsins á árinu 2001 var á margan hátt mjög sérstakt. Áframhald varð á lækkun á gengi íslensku krónunnar sem hófst á vormánuðum 2000. Næstum tveggja mánaða langt sjómannaverkfall leystist ekki fyrr en með lagasetningu og úrskurði sérstaks gerðardóms.

Flestöll fyrirtæki í sjávarútvegi voru gerð upp með verulegu tapi á fyrrihluta ársins og óhætt er að fullyrða að um mitt ár hafi bjartsýni í greininni ekki verið í hámarki. Á hinn bóginn skilaði gengislækkunin ásamt almennt hagstæðu afurðaverði góðri framlegð á síðari hluta ársins.
Og þrátt fyrir að sjómannaverkfallið og úrskurður gerðardóms hafi leitt til umtalsverðs kostnaðarauka fyrir sjávarútveginn má segja að úrskurðurinn hafi í raun skapað möguleika á að gera út til veiða með arðbærum hætti þau nýju vinnsluskip í uppsjávarveiðum sem hafa verið að bætast í íslenska fiskiskipaflotann á síðustu misserum. Á því var ekki gott útlit í byrjun síðasta árs og ef ekki hefði komið til skynsamlegrar niðurstöðu varðandi starfskjör á þessum skipum hefðu þau eflaust hrökklast eitt af öðru úr landi með tilheyrandi varanlegu tekjutapi bæði fyrir íslenskan sjávarútveg og íslenska sjómenn.

Þrátt fyrir blikur á lofti um mitt síðasta ár verður árið í heild að teljast almennt hagstætt íslenskum sjávarútvegi og í sögu Samherja h/f er árið 2001 besta rekstrarárið til þessa.

2. AFKOMA OG EFNAHAGUR

Hagnaður Samherja eftir skatta nam 1.108 milljónum króna. Veltufé frá rekstri nær þrefaldaðist milli ára, hækkaði úr 1.060 milljónum króna árið 2000 í 3.092 milljónir króna á síðasta ári. Sú upphæð er meiri en milljarði hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir í upphafi síðasta árs. Öll rekstrarsvið innan Samherja skiluðu mjög góðum árangri á síðasta ári.

Efnahagur Samherja er mjög traustur og var eigið fé í árslok 6.219 milljónir króna eða 34%. Arðsemi eigin fjár á árinu var um 21 %. Nettóskuldir félagsins námu 5,2 milljörðum króna í árslok eða sem nemur 146 krónum á hvert þorskígildi.

Nettóskuldir eru nú minni en svarar til tveggja ára fjármunamyndunar hjá félaginu. Ef skattskuldbinding félagsins, sem nemur 0,6 milljörðum króna, er dregin frá, nema nettóskuldirnar 4,6 milljörðum króna, sem þýðir að með sömu fjármunamyndun gæti félagið í raun greitt vaxtaberandi nettóskuldir upp á einu og hálfu ári. Óhætt er að fullyrða að ekkert sjávarútvegsfyrirtæki á Verðbréfaþingi Íslands er með viðlíka fjárhagsstöðu.

Forstjóri félagsins mun skýra reikninga félagsins hér á eftir og gera grein fyrir rekstri einstakra afkomueininga.

3. HELSTU VIÐFANGSEFNI OG ÁKVARÐANIR Á ÁRINU

a) Sameining BGB- Snæfells og Samherja

Árið 2001 er fyrsta rekstrarárið eftir sameiningu Samherja h/f og BGB-Snæfells h/f í árslok 2000. Óhætt er að fullyrða að þessi sameining hafi tekist með afbrigðum vel og fór samlegðaráhrifa að gæta strax á fyrstu mánuðum ársins. Sá fjárhagslegi ávinningur sem við töldum að sameiningin gæti skilað til hluthafa beggja félaganna gekk algerlega eftir og varð í raun enn meiri en áætlað var. Sameining fyrirtækja er oft vandasöm og oftar en ekki eru samlegðaráhrif ofmetin, kostnaður vanmetinn og sameiningarferillinn lengri en gert er ráð fyrir.

Ástæða er til að þakka stjórnendum og öðrum starfsmönnum sérstaklega fyrir hve sameiningin gekk vel fyrir sig og hvernig til tókst að skapa eina liðsheild starfsmanna úr þessum tveimur fyrirtækjum og samhæfa reksturinn.

Með sameiningunni hefur stoðum í rekstri Samherja fjölgað um eina. Félagið rekur nú öfluga landvinnslu á bolfiski í einu fullkomnasta frystihúsi landsins og getur betur en áður stýrt nýtingu veiðiheimilda í takt við hvað hagkvæmast er hverju sinni.

Rekstrartekjur Samherja á árinu 2001 námu rúmum 13 milljörðum króna
sem þýðir að miðað við árið á undan aukast rekstrartekjurnar um 86%.
Sameiningin á að sjálfsögðu stærstan þátt í þessari aukningu en athyglisvert er að þótt miðað sé við samanlagða veltu Samherja og BGB-Snæfells árið áður er aukning rekstrartekna hvorki meiri né minni en um 32% eða rúmir 3 milljarðar króna.

b) Reynslan af rekstri Vilhelms og ákvörðun um kaup á Hannover

Stærsta einstaka skýringin á veltuaukningunni er tilkoma hins
nýja fjölveiðiskips Samherja, Vilhelms Þorsteinssonar EA 11, en rekstur þess gekk afburða vel á árinu og nam aflaverðmæti þess um 1,3 millljarði króna. Afurðaverð á uppsjávarafurðum var almennt mjög gott og verð á frystum síldarflökum, sem skapaði þungann í tekjum Vilhelms, hefur ekki verið jafn hagstætt í langa tíð.

Með rekstri Vilhelms Þorsteinssonar hefur tekist að auka verulega vinnsluverðmæti uppsjávarveiðiheimilda félagsins.Stærstur hluti þess afla sem skipið var að vinna um borð fór áður í bræðslu. Í ljósi reynslunnar af útgerð Vilhelms Þorsteinssonar var ákveðið í lok síðasta árs að skipta á Baldvini Þorsteinssyni EA 10 og Hannover sem hefur verið í eigu DFFU í Þýskalandi. Er nú unnið að breytingum á Hannover í fjölveiði- og fjölvinnsluskip með hliðstæða möguleika og Vilhelm.

c) Hlutafjárkaup í Síldarvinnslunni

Samherji eignaðist á árinu hlut í Síldarvinnslunni í Neskaupstað í gegnum dótturfélag sitt Snæfugl h/f á Reyðarfirði. Snæfugl keypti í ársbyrjun öll hlutabréf í Skipakletti h/f, sem í apríl var sameinað Síldarvinnslunni. Þar með eignaðist Snæfugl 20% hlut í Síldarvinnslunni og er þar stærsti einstaki eignaraðilinn. Samherji hefur á þessu ári keypt um 14% hlut til viðbótar í Sildarvinnslunni og var hluti af þeirri fjárfestingu greiddur með hlutabréfum í Samherja h/f. Samherji og Síldarvinnslan eru í margvíslegu samstarfi og má þar nefna samstarf um sölu á uppsjávarafurðum sem hófst á árinu með stofnun Sæblikans og samstarf í laxeldi, en saman eiga Samherji og Síldarvinnslan 95% hlut í Sæsilfri h/f. Síldarvinnslan keypti
í síðasta mánuði fóðurfyrirtækið Laxá h/f. Með Laxá h/f, veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski hjá báðum fyrirtækjum, seiðastöðvum sem Samherji á aðild að, fyrirhuguðu sláturhúsi hjá Síldarvinnslunni, fullkomnum frystihúsum á Dalvík og í Neskaupstað, markaðsstarfi Samherja og Sæblikans ráða Síldarvinnslan og Samherji sameiginlega yfir öllum þeim þáttum sem tengjast fiskeldi frá hrognum til afurða beint á neytendamarkað. Þetta skapar okkur án efa sterka stöðu á mörkuðum, ekki síst vegna þess að markaðurinn gerir sívaxandi kröfur um rekjanleika afurða. Með því að ráða yfir öllum þáttum sem tengjast eldinu geta Samherji og Síldarvinnslan boðið upp á einstæða stöðu varðandi rekjanleika og um leið tryggt betur hámarksgæði afurða á hverjum tíma.

d) Aukning á hlut í Hraðfrystistöð Þórshafnar

Á þessu ári hefur Samherji einnig aukið hlut sinn í Hraðfrystistöð Þórshafnar og á félagið nú tæp 50% í HÞ. Rekstur HÞ gekk betur á síðasta ári en árið á undan. Engu að síður varð 23 milljóna króna tap á rekstrinum. Veltufé frá rekstri nam 306 milljónum króna en var neikvætt árið áður um 113 milljónir króna. Miklar breytingar urðu á stjórn félagsins og hættu 4 af 5 starfsmönnum í framkvæmdastjórn og var ekki ráðið í störf þriggja. Rekstrarstjóri Samherja á Stöðvarfirði tók við framkvæmdastjórn HÞ í nóvember. Á árinu var togarinn Stakfell seldur úr landi og nótaskipinu Neptúnusi var lagt til að tryggja betri nýtingu á veiðiheimildum félagsins. Félagið tók á móti nýju kúfiskveiðiskipi, Fossá ÞH 362, á árinu og hófst vinnsla að nýju í kúfiskverksmiðju félagsins sem ekki hafði verið starfrækt um nokkurt skeið. Rekstur kúfiskverksmiðjunnar gekk erfiðlega á árinu en á síðustu mánuðum hefur náðst verulegur rekstrarbati og er ástæða til þess að binda vonir við að nú takist að skapa þessari vinnslugrein raunverulegan rekstrargrundvöll í íslenskum sjávarútvegi. Rekstur fiskimjölsverksmiðju HÞ gekk vel á árinu.

e) Aukning á eignarhlutum í fiskeldisfélögum

Samherji keypti á árinu 45% hlut í Silfurstjörnunni í Öxarfirði og jók eignarhlut sinn í Íslandslaxi h/f í 65% og í Sæsilfri í 53%.

Á vegum Sæsilfurs h/f. hófst á árinu sjókvíaeldi á laxi í Mjóafirði. Ef frá eru talin ýmis vandkvæði við flutning á seiðum til Mjóafjarðar, hefur eldið gengið samkvæmt áætlun. Ráðgert er að slátrun hefjist næsta haust hjá Síldarvinnslunni h/f, meðeignaraðila Samherja í Sæsilfri. Ég mun víkja að hugsanlegri þróun í uppbyggingu Sæsilfurs hér á eftir.

Hjá Íslandslaxi og Silfurstjörnunni var slátrað samtals tæpum 17 hundruð tonnum af laxi og rúmum 3 hundruð tonnum af bleikju og regbogasilungi eða samtals um 2 þúsund tonnum. Þá voru framleidd um 180.000 smálaxar hjá Silfurstjörnunni sem fóru í Mjóafjörð á s.l. sumri og um 530.000 gönguseiði hjá Íslandslaxi sem ætluð eru til áframeldis í Mjóafirði á þessu ári eftir að hafa verið alin í smálaxastærð hjá Silfurstjörnunni. Rekstur Íslandslax gekk illa á árinu sem m.a. má rekja til verulegs verðfalls á laxi og niðurfærslu á birgðum. Framkvæmdastjóri félagsins og einn aðaleigandi þess hætti störfum á s.l. hausti og hefur rekstrarformi Íslandslax nú verið breytt þannig að félagið er nú rekið sem deild í Samherja í Grindavík, en 2/3 hlutafjár í Íslandslaxi eru í eigu Samherja.

Hjá Silfurstjörnunni hefur verið unnið að tilraunum með eldi á sandhverfu og benda niðurstöður til þess að aðstæður fyrir slíkt eldi séu mjög góðar. Beðið hefur verið eftir svari frá stjórnvöldum frá því í september á síðasta ári um leyfi til innflutnings á sanhverfuhrognum eða sandhverfuseiðum til að byggja upp frekari eldi á þessari tegund í Öxarfirði. Samkvæmt nýjustu fregnum er svars að vænta innan tíðar og eru vísbendingar um að leyft verði að flytja inn hrogn en ekki seiði.

f) Kaup á hlutabréfum í fjárfestingarfélaginu Kaldbaki

Samherji og Kaupfélag Eyfirðinga hafa sem kunnugt er átt saman um nokkurt skeið hlutafélagið Kaldbak. Nafnið Kaldbakur hefur nú fengið nýtt og víðtækara hlutverk sem eignarhalds- og fjárfestingarfélag um allar fyrri eignir KEA. Og nýlega hafa Samherji og Lífeyrissjóður Norðurlands ákveðið að kaupa umtalsverðan hlut í þessu nýja fjárfestingarfélagi sem miklar vonir eru bundar við í uppbyggingi atvinnulífs, ekki síst hér á Norðausturlandi. Samherji eignast um 17% hlut í Kaldbaki en samtals eru hluthafar um 8 þúsund.

g) Kaup á eigin hlutabréfum

Stjórn félagsins ákvað s.l. haust að bjóða öllum hluthöfum félagsins að selja 4% af hlutafjáreign sinni til félagsins á gengi sem þá var 10% yfir markaðsgengi. Hluthafar sem áttu um 77% af hlutafé félagsins nýttu sér þennan möguleika og keypti félagið hlutafé að nafnverði 50 milljónir króna fyrir rúmar 500 milljónir króna að markaðsverði. Tilgangur félagsins með þessum kaupum var að eiga hlutabréf í Samherja vegna hugsanlegra fjárfestinga í öðrum félögum síðar.

4. HUGSANLEG ÞRÓUN FISKELDIS Á MIÐAUSTURLANDI

Sæsilfur h/f hefur heimild til framleiðslu á 4000 tonnum af laxi í Mjóafirði.
Ef niðurstöður rannsókna í ársbyrjun 2004 um áhrif eldisins á villta laxastofna sýna að áhrifin séu óveruleg er heimilt að auka framleiðsluna í 8000 tonn árið 2004. Samherji hefur unnið að umhverfismati á 6000 tonna eldisstöð í Reyðarfirði og er þess vænst að niðurstöður umhverfismats
og úrskurður Skipulagsstofnunar liggi fyrir á næstu mánuðum.

Í leiðara Morgunblaðsins nýlega er fjallað um fiskeldi á Austfjörðum og talað um að hugsanlegt sé að þegar upp verði staðið verði fiskeldið e. t.v. sú stóriðja sem Ausfirðingar hafa beðið eftir. Álver, ef það komi, verði hins vegar ánægjuleg viðbót.

Ef stjórnvöld styðja í verki slík markmið held ég að hér sé alls ekki um óraunhæfa framtíðarsýn hjá Morgunblaðinu að ræða. Eitt af því sem við bíðum eftir frá stjórnvöldum er hvort við fáum heimild til að nýta sérhæfð flutningatæki til flutnings á seiðum frá seiðastöðvum í sjókvíar en það er lykilatriði til að unnt sé að koma smálöxum með sem öruggustum hætti til áframeldis í sjó.

Á sumri komanda er ráðgert að setja út á milli 1,1-1,2 milljónir smálaxa í Mjóafjörð.
Ef tilskilin leyfi um eldi í Reyðarfirði verða afgreidd í sumar gætum við sett út um 800 þúsund seiði þar á næsta ári. Árið eftir væri hægt að tvöfalda þá tölu og jafnframt setja út rúmlega 2 milljónir seiða í Mjóafjörð til að fullnýta starfsleyfið þar. Framleiðslan gæti þróast eins og þessi glæra sýnir.
Eftir tvö ár væri framleiðslan komin í tæp sex þúsund tonn og árið 2006 í um 14 þúsund tonn. Gera má ráð fyrir að heildartekjur eldisins væru þá orðnar rúmir 4 milljarðar króna Ef miðað er við að 1/3 af magninu færi á markað sem heill ferskur fiskur, 1/3 sem fersk flök og 1/3 sem ferskir eða frystir bitar gæti starfsmannafjöldinn við þessa starfsemi þróast með eftirfarandi hætti:

Eins og súlurnar sýna yrði starfsmannafjöldinn sem beint tengist eldinu kominn yfir 100 á árinu 2006. Athyglisvert er að við sjálfar sjókvíarnar er aðeins gert ráð fyrir að starfi um 20 manns sem þýðir að framleiðsla á hvern einstakling er um 700 tonn. Flestir starfsmannanna vinna við slátrun, pökkun og fullvinnslu afurðanna.

Það er því því augljóslega rétt hjá Morgunblaðinu að hér getur í raun verið um stóriðju að ræða á Austurlandi ef vel tekst til í fiskeldinu. Þegar höfð er í huga sú þekking sem til staðar er á laxeldi í dag og þeir möguleikar sem Síldarvinnslan og Samherji hafa sameiginlega, er ekki annað hægt en að horfa tiltölulega björtum augum á að hægt sé að ná árangri í þessari mikilvægu atvinnugrein.

5. BREYTINGAR Á SKATTAREGLUM FYRIRTÆKJA

Alþingi hefur nú samþykkt breytingar á lögum um tekju- og eignaskatt sem telja verður mjög jákvæðar fyrir íslenskt atvinnulíf til lengri tíma litið.
Nú verður heimilt að færa bókhald í erlendri mynt og skrá hlutafé viðkomandi í sama gjaldmiðli. Fyrir fyrirtæki eins og Samherja, sem hefur allar sínar tekjur erlendis, hlýtur að vera eðlilegt að stefna að því að nýta sér þennan möguleika innan eins til tveggja ára.Verðbólgureikniskil verða afnumin og ljóst er að sú ákvörðun mun hafa neikvæð áhrif á rekstrarafkomu margra fyrirtækja, ekki síst í sjávarútvegi. Skatthlutfall verður hins vegar lækkað og að sjálfsögðu ætlumst við til að það gagni atvinnugreininni þegar fram líða stundir. Lækkun skatthlutfalls eykur einnig líkur á samstarfi við erlend fyrirtæki.
Allar þessar breytingar leiða hins vegar hugann að þeim reglum sem gilda um fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi. Nú er það þannig að allar beinar fjárfestingar eru ekki leyfðar. Það er hins vegar hægt að stofna eitt millifélag og þá getur hinn erlendri aðili strax eignast allt að fjórðungi hlutafjár í viðkomandi sjávarútvegsfyrirtæki og með tveimur millifélögum allt að 50%. Ég skil fullkomlega að menn vilji ekki leyfa óheftar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Þessi regla hins vegar að stofna millifélag útilokar hins vegar alveg fjárfestingu þeirra aðila sem við höfum e.t.v. mestan áhuga á að fá til að fjárfesta, s.s. almenna fjárfesta, lífeyrissjóði og einstaklinga erlendis. Þetta gerir líka samninga um kaup á félögum erlendis erfiðari en slík viðskipti þyrftu að vera.
Ég tel eðlilegt að heildartakmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila verði óbreyttar um sinn en hins vegar eðlilegt að opna fyrir beina eignaraðild upp að allt að 25%. Slík breyting gæti haft mjög jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaðinn hér. Í raun mætti takmarka þessa heimild við skráð fyrirtæki á markaði til að auðvelda að reglum verði framfylgt.

6. HVERNIG GÆTU SAMHERJI OG SAMSTARFSFYRIRTÆKI HUGSANLEGA ÞRÓAST Á NÆSTU 5 ÁRUM

Vöxtur Samherja á undanförnum árum hefur verið mjög hraður. Velta Samherja árið 1996 var 5,8 milljarðar og var á síðasta ári 13 milljarðar.
Þetta svarar til um 23% vaxtar á hverju ári. Þetta er mjög hátt miðað við mörg önnur fyrirtæki í sjávarútvegi eins og meðfylgjandi glæra sýnir.
Samherji er með lang mestan vöxt hefðbundinna sjávarútvegsfyrirtækja og það er aðeins eldisfyrirtækið Panfish og SÍF sem eru með meiri vöxt en Samherji af fyrirtækjum sem þarna eru talin upp.
Þarna eru stórfyrirtæki eins og Nutreco, Nissui í Japan, Pescanova, FPI í Kanada, SH, ÚA, Grandi svo nokkur séu nefnd.

En hvernig gæti þróunin orðið á næstu árum? Ég held að það væri fróðlegt að varpa upp mynd af veltu allra fyrirtækja sem Samherji ræður yfir þriðjungi hlutafjár eða meira og sem við getum kallað samstarfsfyrirtæki.

Eins og myndin sýnir er heildarvelta Samherja og samstarfsfyrirtækja á árinu 2001 hvorki meiri né minni en 31 milljarður króna.
Ef við gefum okkur að þau markmið sem stefnt er að varðandi frekari vinnslu uppsjávarafurða gangi eftir og að fiskeldið verði arðbær grein
á næstu árum, en að öðru leyti verði innri vöxtur um 7% á ári, bendir flest til að velta þessara samstarfsfyrirtækja gæti verið um 50 milljarðar eftir 5 ár miðað við verðlag í dag.

Hér er ekki tekið tillit til hugsanlegra sameininga við önnur félög en samkvæmt lauslegum útreikningi er hlutdeild Samherja í heildarkvóta eftir að kolmunni og norsk-íslensk síld hefur verið kvótasett um 8,4%. Sjávarútvegsfyrirtæki má skv. núgildandi lögum að hámarki ráða yfir 12% af heildarveiheimildum.

7. HLUTABRÉFAMARKAÐURINN

Hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi var erfiður á árinu þótt greina hafi mátt batamerki frá árinu á undan. Úrvalsvísitalan lækkaði um 11% frá upphafi til loka árs. Vísitala sjávarútvegs hækkaði um 16,3% en árið áður hafði hún fallið um 31%. Gengi hlutabréfa í Samherja hækkaði um 16,2 % á árinu en árið áður hafði gengið fallið um 3%.

Að meðtalinni 15% arðgreiðslu í fyrra má því segja að arðsemi hlutabréfaeignar í Samherja hafi numið um 18% á árinu 2001.

Það er ánægjulegt að á síðustu mánuðum hefur áhugi fjárfesta á sjávarútvegi vaknað á ný.

8 HORFUR Í REKSTRI SAMHERJA

Samkvæmt áætlunum yfirstandandi árs má gera gera ráð fyrir að rekstur Samherja verði góður á árinu 2002 en forstjóri félagsins mun gera grein fyrir áætlunum ársins hér á eftir.
Samherji hefur alla burði til þess að vera í forystusveit í sjávarútvegi í Norður-Evrópu á komandi árum. Félagið er fjárhagslega sterkt, býr yfir öflugum skipakosti og góðum verksmiðjum í landi, veiðiheimildir í samræmi við afkastagetu en fyrst og fremst fellst styrkur Samherja í afburða góðu starfsfólki til sjós og lands.

9. LOKAORÐ

Fyrir hönd stjórnar Samherja hf. þakka ég forstjóra félagsins, Þorsteini Má Baldvinssyni og öðrum starfsmönnum Samherja fyrir gott samstarf og frábæran árangur í rekstri á síðasta ári. Jafnframt þakka ég meðstjórnarmönnum mínum fyrir gott samstarf, sérstaklega vil ég þakka þeim stjórnarmönnum sem ekki gefa kost á sér til stjórnarsetu áfram, þeim Hjörleifi Jakobssyni og Þorsteini Jónssyni. Það hefur verið mjög ánægjulegt að starfa með ykkur í stjórn Samherja. Hluthöfum þakka ég þá trú sem þeir hafa sýnt á félaginu og framtíð þess.