Baldvin Þorsteinsson EA-10 kemur til heimahafnar á Akureyri í kvöld

Baldvin Þorsteinsson EA 10 í Riga, Lettlandi
Baldvin Þorsteinsson EA 10 í Riga, Lettlandi

Þriðja fjölveiðiskipið í flota Samherja hf:

Baldvin Þorsteinsson EA 10, fjölveiðiskip Samherja hf., leggst kl. 21 í kvöld að Tangabryggjunni á Akureyri eftir fimm sólarhringa siglingu frá Riga í Lettlandi þar sem skipið var lengt og gerðar á því ýmsar aðrar breytingar í skipasmíðastöðinni Riga Shipyard.  Eftir þessar breytingar er Baldvin Þorsteinsson öflugt fjölveiðiskip fyrir veiðar og vinnslu á uppsjávarfiski og rækju.  Skipið hefur m.a. verið lengt um 17,6 metra og er mesta lengd þess nú  85,85 metrar. Mesta breidd skipsins er 14 metrar og brúttótonnin eru 2968.

Um 1600 rúmmetra frystilestar
Aðalvél skipsins er 6120 hestöfl og frystilestar eru um 1.600 rúmmetrar að stærð, sem er fast að helmings aukning frystirýmis frá því sem áður var. Skipið getur borið um 2500 tonn af uppsjávarfiski og frystigetan er um 150 tonn á sólarhring. 

Viðamiklar breytingar
Auk lengingar um 17,6 metra hafa eftirfarandi breytingar verið gerðar á skipinu:

-     Settur hefur verið upp búnaður sem gerir nótaveiðar mögulegar.

-     Lestum skipsins hefur verið breytt til þess að unnt sé að flytja fisk til bræðslu. Með hliðsjón af loðnuveiðum hefur verið sett lensikerfi í lestarnar. Einnig hefur svokallað “Vacumdælukerfi” verið lagt í allar lestar og fyrir vinnslukerfið um borð. Ballast dælukerfi hefur verið tengt tveimur fremstu hliðarlestunum. Fremsti hluti gömlu lestar skipsins er eftir sem áður frystilest og sömuleiðis eru miðlestar og tvær öftustu síðulestar útbúnar sem frystilestar.  Krapaíslagnir hafa verið settar í allar lestar.

-     Nýtt rými fyrir vélbúnað til ísframleiðslu hefur verið byggt á bátaþilfari framan við togvindu bakborðsmegin. Undir því, á togþilfari, er ískrapageymsla. Frystipressur hafa verið endurnýjaðar og afköst aukin.

-     Fiskvinnslubúnaði á vinnsluþilfari hefur verið breytt að miklu leyti.

-     Íbúðir, stjórnborðsmegin á togþilfari, voru fjarlægðar og það rými ásamt viðbót í lengingarhluta tengist vinnsluþilfari og verður notað í tengslum við vinnsluna.

-     Stækkað rými þar sem áður var lása- og netageymsla hefur nú verið tekið undir dælur fyrir snurpuspil, kraftblökk, fiskidælu og nótaleggjara ásamt dælum fyrir vacumkerfi. Ný geymslurými bætast við á togþilfari.

-     Settar hafa verið hliðarskrúfur, bæði að aftan og framan, og er hvor um sig 590 kW.

-     Settur var andveltitankur á bakka framan brúar.

-     Hliðartankar sem notaðir eru til að rétta skipið hafa verið stækkaðir um 50%.

-     Massívur ballestkjölur var fjarlægður og smíðaður kassakjölur í staðinn.

-     Til að auka útsýni yfir vinnusvæði vegna nótaveiða var aftari hluti stjórnborðssíðu stýrishúss færður utar. Allir brúargluggar á stjórnborðssíðu og nokkrir gluggar að aftan voru stækkaðir.

Margir komið að verkinu
Eins og áður segir voru áðurnefndar breytingar gerðar í Riga Shipyard í Ríga í Lettlandi. Teiknistofa K.G.Þ. á Akureyri gerði teikningar að breytingunum, reiknaði stöðugleika og hafði eftirlit með stálsmíðinni.  Raf og tækni ehf. hafði með höndum gerð rafmagnsteikninga og eftirlit með rafmagnsvinnu. Allt verkið var unnið samkvæmt kröfum Det Norske Veritas og undir eftirliti þess. Af hálfu Samherja hefur Sighvatur Friðriksson, véltæknifræðingur, haft yfirumsjón með verkinu.

Smíðað í Noregi árið 1994
Upphaflega var skipið smíðað í Flekkefjord í Noregi árið 1994 og gerði Hrönn hf. á Ísafirði það út undir nafninu Guðbjörg ÍS-46.  Í kjölfar sameiningar Hrannar og Samherja gerði Samherji skipið út um tíma, en síðan var það selt til Deutsche Fischfang Union GmbH, dótturfélags Samherja hf. í Þýskalandi, þar sem það fékk nafnið Hannover NC 100. Fyrr á þessu ári var frystiskipið Baldvin Þorsteinsson EA-10 selt til DFFU, en jafnframt var ákveðið að breyta Hannover í fjölveiðiskip og að það kæmi aftur inn í flota Samherja.

Þrjú öflug fjölveiðiskip í flota Samherja hf.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf., segir að í kjölfar breytinganna á Baldvini Þorsteinssyni geri fyrirtækið út þrjú stór og öflug fjölveiðiskip sem vinni og frysti aflann um borð, en fyrir eru Vilhelm Þorsteinsson EA-11 og Þorsteinn EA-810. Þorsteinn Már segir að útgerð þessara tveggja skipa hafi gengið vel og ákveðið hafi verið að leggja enn frekari áherslu á aukna verðmætasköpun í uppsjávarveiðum félagsins. Í því ljósi hafi verið tekin ákvörðun um að breyta Hannover í fjölveiðiskip, sem er sambærilegt við Vilhelm Þorsteinsson, en hefur þó til viðbótar möguleika á að veiða og vinna rækju. 

Á loðnuveiðar á nýju ári
Í næstu viku er ráðgert að Baldvin Þorsteinsson fari í stuttan prufutúr og eftir áramótin fari skipið síðan á loðnuveiðar. Skipstjórar Baldvins Þorsteinssonar EA-10 eru Hákon Þröstur Guðmundsson og Árni V. Þórðarson. Yfirvélstóri er Vilhjálmur Kristjánsson.