- Öllum skipverjum bjargað frá borði
Baldvin Þorsteinsson EA 10 fékk nótina í skrúfuna í nótt. Skipið var statt á loðnumiðum suður af Skarðsfjörum. Sunnanátt var og stórstreymt þegar óhappið varð og rak skipið að landi. Önnur loðnuskip sem voru stödd á miðunum reyndu að koma til hjálpar en taugar sem tókst að koma á milli slitnuðu. Neyðarkall var sent út og fór þyrla Landhelgisgæslunnar fljótlega í loftið og björgunarsveitir í landi héldu á vettvang. Í áhöfn skipsins eru 16 menn og var þeim öllum bjargað frá borði. Stærsti hluti áhafnarinnar var fluttur á Kirkjubæjarklaustur en fjórir eru eftir í fjörunni við skipið.
Baldvin Þorsteinsson EA 10 er 2.968 brúttólesta fjölveiðiskip smíðað árið 1994 í Flekkefjord í Noregi, lengt í Riga Lettlandi árið 2002. Skipið er 86 metra langt og 14 metra breitt. Skip og afli vega samtals um 5.600 tonn. Baldvin Þorsteinsson var að veiðum og eru í skipinu u.þ.b. 1.500 tonn af loðnu.