Tveir meistaranemar í gagnavísindum (Data Sciences) Mark Allen Schumacher og Daniel Robert Noel við Northwestern University háskólann í Chicago í Bandaríkjunum eru staddir á Akureyri í tengslum við verkefni á vegum Fiskistofu. Óskað var eftir samstarfi við Samherja og Útgerðarfélag Akureyringa um verkefnið, enda tæknivæðing í skipum og vinnsluhúsum félaganna mikil.
Ögmundur Knútsson fiskistofustjóri fagnar samstarfinu. Hann segir að upplýsingarnar verði meðal annars notaðar til að efla og þróa margvíslegt eftirlit í greininni, sem auki tiltrú neytenda á íslenskum sjávarfangi.
Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja segir að með aukinni tækni skapist nýir möguleikar.
Mikilvægt að allir vinni saman
„Hjá sjávarútvegsfyrirtækjum verður til mikið magn upplýsinga sem geta nýst bæði til að þróa eftirlit sem og að styrkja vísindin bak við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Matvælaráðuneytið hefur sett af stað verkefni er lýtur að kortlagningu á upplýsingum, sem safnað er í ferlinu frá veiðum til neytenda. Hluti af þessu verkefni er síðan að skoða hvernig hægt er að nota upplýsingar frá greininni til að efla eftirlitið og vísindin. Það er mikilvægt að allir aðilar vinni saman að því að styrkja og efla ímynd íslensks sjávarfangs á samkeppnismörkuðum. Hluti af því er að tryggja að eftirlit og vísindin bak við ráðgjöf sé í hæsta gæðaflokki,“ segir Ögmundur Knútsson.
Gríðarlegu magni upplýsinga safnað saman alla daga ársins
Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja segir að ekki hafi staðið á fyrirtækjum í greininni að vinna með stjórnvöldum og fræðasamfélaginu.
„Við erum með gríðarlegt magn upplýsinga sem safnað er saman með sjálfvirkum hætti allan ársins hring, frá upphafi veiða og þar til fiskurinn er fluttur úr landi. Þessi gögn er auðvitað hægt að nýta með margvíslegum hætti. Með því að hið opinbera og vísindasamfélagið nýti þessi gögn okkar er líklegt að hægt verði að einfalda kerfið og gera það skilvirkara. Með aukinni tækni skapast nýir möguleikar, sem til dæmis veita tækifæri til að draga úr óþarfa kostnaði og tryggja áreiðanleika veiða og vinnslu enn frekar.“
Fylgdust með löndun úr Björgu EA og vinnslu afurða í ÚA
„Meistaranemar frá Northwestern University, sem eru með víðtæka þekkingu á þessu sviði gagnavísinda, settu sig í samband við Fiskistofu til að kanna möguleika á að vinna lokaverkefnið sitt hjá okkur, sem er ánægjulegt og viss viðurkenning. Fjórir nemendur koma að þessu verkefni og tveir þeirra eru nú staddir á Akureyri til að vinna forkannanir. Þeir fylgdust með löndun afla úr togaranum Björgu EA og svo öllum þáttum starfseminnar í fiskvinnslu Útgerðarfélags Akureyringa. Þetta er á margan hátt spennandi verkefni og ég fagna þessari samvinnu,“ segir Ögmundur Knútsson fiskistofustjóri.