Björgólfur lætur af störfum forstjóra

Björgólfur Jóhannsson lætur nú af störfum forstjóra Samherja hf., en því starfi hefur hann gegnt einn frá nóvember 2019 en frá mars 2020 samhliða Þorsteini Má Baldvinssyni. Þorsteinn Már verður nú á ný eini forstjóri félagsins.

Í kjölfar ásakana á hendur Samherja í nóvember 2019 steig Þorsteinn Már tímabundið til hliðar sem forstjóri. Stjórn Samherja kvaddi hann á ný til starfa í mars 2020 við mjög erfiðar aðstæður í þjóðfélaginu vegna kórónuveirunnar. Með samstilltu átaki tókst starfsfólki Samherja að halda úti bæði veiðum og vinnslu með útsjónarsemi og aðlögum að þeim sérstöku aðstæðum sem uppi voru. Reksturinn er nú nánast í eðlilegu horfi og ný og fullkomin hátæknifiskvinnsla sem opnuð var á Dalvík er farin að ganga snurðulaust. Allt bendir til þess að tekist hafi að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins innanlands, smit eru nær engin og vaxandi þungi í bólusetningum.

Þær ásakanir sem hafðar hafa verið uppi á hendur Samherja eru nú komnar í farveg fyrir dómstólum. Þar gefst loks tækifæri til hreinsa nöfn þeirra sem ranglega eru sakaðir, ekki með brotakenndum frásögnum í fjölmiðlum, heldur með kerfisbundnum, réttum og lögmætum hætti. Þannig hefur norski saksóknarinn nú komist að þeirri niðurstöðu að ásakanir um peningaþvætti eigi ekki við rök að styðjast og ekkert refsivert hafi átt sér stað í viðskiptum DNB bankans og Samherja og ákveðið að fella málið niður.

Við þessar aðstæður þegar Björgólfur lætur af störfum, færir stjórn Samherja honum þakkir fyrir hans mikilvæga hlutverk og framlag á þessum óvenjulegu tímum. Hann reyndist félaginu ómetanlegur styrkur þegar mest á reyndi.

„Ég er stoltur af því að stjórn Samherja skuli hafa leitað til mín. Af minni hálfu kom aldrei annað til greina en að verða því kalli. Ég vil þakka öllu starfsfólki Samherja fyrir samstarfið. Þar er valinn maður í hverju rúmi,“ segir Björgólfur Jóhannsson.

„Það blandast engum hugur um það hversu mikilvægt það var fyrir Samherja að fá Björgólf til liðs við okkur. Það veitti svo sannarlega ekki af manni með hans afl og eiginleika. Ég er honum þakklátur fyrir einstakt samstarf og mikla vináttu sem hann hefur sýnt okkur,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson.

Björgólfur hefur verið kjörinn formaður hlítingarnefndar Samherja en sú nefnd hefur yfirumsjón með regluvörslu og stjórnarháttum innan samstæðu Samherja. Mun hann stjórna skráningu og formlegri innleiðingu slíkra reglna ásamt öðrum ráðgjafastörfum fyrir Samherja eftir því sem tilefni verður til.

Akureyri 12. febrúar 2021,

f.h. stjórnar Samherja,

Eiríkur S. Jóhannsson, form.