Björgvin EA 311 kveður Dalvík

Björgvin EA 311 / ljósmyndir: samherji.is/Þorgeir Baldursson
Björgvin EA 311 / ljósmyndir: samherji.is/Þorgeir Baldursson

Ísfisktogarinn Björgvin EA 311 lagði af stað frá Dalvík til Vigo á Spáni um miðjan dag í gær og kvöddu margir bæjarbúar þetta fengsæla skip og fylgdust með þegar landfestum var sleppt í síðasta sinn, heimahöfn Björgvins EA.

Nokkrir í áhöfn Björgvins EA taka þátt í siglingunni til Vigo, ásamt tveimur Spánverjum. Skipstjóri á siglingunni er Björn Már Björnsson og fyrsti stýrimaður er Brynjólfur Oddsson.

Félagarnir Leifur Björnsson og Hartmann Kristjánsson sáu um að sleppa, en þeir voru báðir í áhöfn Björgvins EA í liðlega tuttugu ár.

Björgvin EA var elsta skipið í flota Samherja, smíðað í Noregi árið 1988 og hefur alla tíð reynst mjög vel. Áhöfnin hefur umgengist skipið á sérstaklega vandaðan hátt og alla tíð hefur viðhald verið með ágætum.

Meðfylgjandi eru myndir sem teknar voru í blíðunni á Dalvík á Dalvík í gær, skömmu fyrir brottför.